Ferill 244. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 875  —  244. mál.





Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Tómasar Inga Olrich um meðferð upplýsinga úr sjúkra­skrám heilbrigðisstofnana.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Eru upplýsingar úr sjúkraskrám heilbrigðisstofnana sendar Krabbameinsfélagi Íslands og skráðar þar í krabbameinsskrá? Ef svo er:
                  a.      hafa þessar upplýsingar verið nýttar til skýrslugerðar heilbrigðisyfirvalda, til tölfræðilegra athugana og annarra vísindarannsókna,
                  b.      hafa þessar upplýsingar verið samkeyrðar með öðrum gagnagrunnum, svo sem ættfræðilegum gagnagrunnum,
                  c.      hefur verið leitað eftir upplýstu samþykki þeirra sem upplýsingarnar varða fyrir þessari notkun,
                  d.      hefur slík úrvinnsla hlotið umfjöllun tölvunefndar og vísindasiðanefndar?
     2.      Hafa upplýsingar sem einstaklingar veita við krabbameinsleit verið nýttar til skýrslugerðar heilbrigðisyfirvalda, til tölfræðilegra athugana og annarra vísindarannsókna? Ef svo er:
                  a.      hafa þessar upplýsingar verið samkeyrðar með öðrum gagnagrunnum, svo sem ættfræðilegum gagnagrunnum,
                  b.      hefur verið leitað eftir upplýstu samþykki þeirra sem upplýsingarnar varða fyrir notkun af þessu tagi?
     3.      Eru dæmi þess að heilbrigðisstofnanir, eða starfsmenn þeirra, sem hafa undir höndum heilsufarsupplýsingar, noti slíkar upplýsingar til annarra nota en þeirra sem þær voru í upphafi ætlaðar, svo sem ritunar fræðigreina í t.d. Læknablaðið, án upplýsts samþykkis?

    Leitað var til Krabbameinsfélags Íslands um svör við 1. og 2. lið.

     1.      Eru upplýsingar úr sjúkraskrám heilbrigðisstofnana sendar Krabbameinsfélagi Íslands og skráðar þar í krabbameinsskrá?
    Já.

     a.      Hafa þessar upplýsingar verið nýttar til skýrslugerðar heilbrigðisyfirvalda, til tölfræðilegra athugana og annarra vísindarannsókna?
    Já.


Prentað upp.


     b.      Hafa þessar upplýsingar verið samkeyrðar með öðrum gagnagrunnum, svo sem ættfræðilegum gagnagrunnum?
    Já. Krabbameinsskrá og ættasafn krabbameinsskrár hafa verið samkeyrð, með leyfi tölvu­nefndar.

     c.      Hefur verið leitað eftir upplýstu samþykki þeirra sem upplýsingarnar varða fyrir þessari notkun?
    
Nei. Ekki hefur verið leitað eftir upplýstu samþykki til skráningar í krabbameinsskrá eða til úrvinnslu úr gögnum hennar. Gagna þeirra, sem notuð eru við skráningu, er aflað með beiðnum til vörslumanna upplýsinganna. Þar er um að ræða niðurstöður rannsókna og upp­lýsingar úr læknabréfum og úr sjúkraskrám. Einnig berast tilkynningar á sérstökum eyðu­blöðum eða í bréfum frá læknum og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum. Gögn berast á diskling­um frá Rannsóknastofu Háskólans í meinafræði samkvæmt samningi við þá stofnun og með sérstöku leyfi tölvunefndar. Leyfi hefur einnig fengist fyrir slíkum flutningi á gögnum frá krabbameinslækningadeild Landspítalans.

     d.      Hefur slík úrvinnsla hlotið umfjöllun tölvunefndar og vísindasiðanefndar?
    Tölvunefnd hefur fjallað um úrvinnslu gagna. Þetta var gert fyrir tíma vísindasiðanefndar. Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands var komið á fót árið 1954 að beiðni land­læknis. Fyrir tíma tölvunefndar starfaði sérstök siðanefnd á vegum félagsins. Krabbameins­félagið fékk starfsleyfi frá tölvunefnd árið 1983. Krabbameinsskráin og Leitarstöðin voru skilgreindar sem hluti af heilbrigðiskerfinu og var flutningur á gögnum til þeirra frá öðrum heilbrigðisstofnunum því talinn heimill.

     2.      Hafa upplýsingar sem einstaklingar veita við krabbameinsleit verið nýttar til skýrslugerðar heilbrigðisyfirvalda, til tölfræðilegra athugana og annarra vísindarannsókna?
    Já. Upplýsingar sem aflað er við krabbameinsleit og sem nýttar eru til skýrslugerðar fyrir heilbrigðisyfirvöld eru fengnar beint frá konum sem mæta til leitar, frá rannsóknastofum, úr læknabréfum og úr sjúkraskrám.

     a.      Hafa þessar upplýsingar verið samkeyrðar með öðrum gagnagrunnum, svo sem ættfræðilegum gagnagrunnum?
    Já, hluti upplýsinganna, með leyfi tölvunefndar. Samkeyrsla þessara upplýsinga er nauð­synleg til að meta árangur leitar og eru niðurstöður notaðar til birtingar fræðigreina um sama efni. Upplýsingar um heilsusögu eru jafnframt notaðar til faraldsfræðilegra athugana á ýms­um áhættuþáttum.

     b.      Hefur verið leitað eftir upplýstu samþykki þeirra sem upplýsingarnar varða fyrir notkun af þessu tagi?
    Nei.

     3.      Eru dæmi þess að heilbrigðisstofnanir, eða starfsmenn þeirra, sem hafa undir höndum heilsufarsupplýsingar, noti slíkar upplýsingar til annarra nota en þeirra sem þær voru í upphafi ætlaðar, svo sem ritunar fræðigreina í t.d. Læknablaðið, án upplýsts sam­þykkis?
    Já. Heilsufarsupplýsingar úr sjúkraskrám eru notaðar við vísindarannsóknir að fengnu samþykki vísindasiðanefndar eða siðanefndar sjúkrahúss og tölvunefndar. Það er háð mati vísindasiðanefndar, siðanefndar sjúkrahúss og tölvunefndar hvort þeim sem óskar eftir að­gangi að sjúkraskrá er gert að leita eftir upplýstu samþykki þeirra sjúklinga sem upplýsing­arnar stafa frá. Sé eingöngu um að ræða notkun upplýsinga sem fyrir liggja í sjúkraskrám en ekki beina þátttöku sjúklings er ekki gerð krafa um upplýst samþykki.