Ferill 438. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 882  —  438. mál.




Svar



dóms- og kirkjumálaráðherra við fyrirspurn Kristínar Ástgeirsdóttur um framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum.

     1.      Til hvaða aðgerða hefur verið gripið til að fjölga konum í lögreglunni, sbr. lið 2.4 í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna? Hvaða niðurstöður liggja fyrir um stöðu kvenna innan lögreglunnar, sbr. sama lið?
    Skýrsla nefndar um bætta stöðu kvenna innan lögreglunnar var gefin út í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu í september 1997. Þar kemur m.a. fram að hlutfall kvenna innan lögregl­unnar sé lágt, aðeins 4,3%. Ný skipan á vali nemenda í lögregluskólann hefur leitt til þess að konum hefur fjölgað í hópi nemenda sem ætti að leiða til þess að auka hlut kvenna í lög­reglunni í framtíðinni. Fjöldi nýnema og skipting þeirra eftir kynjum sl. þrjú ár er eftirfar­andi:
Ár Fjöldi Konur Karlar Hlutfall kvenna
1995 16 1 15 6%
1996 16 3 13 18%
1997 32 9 23 28%
1998 32 6 26 19%

    Skýrslan hefur að geyma upplýsingar um stöðu kvenna innan lögreglunnar og yfirlit yfir stöðu lögreglukvenna í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Þá birtast í skýrslunni niðurstöður viðhorfskönnunar er fór fram innan lögreglunnar hér á landi í upphafi árs 1996. Voru spurn­ingalistar sendir til allra starfandi lögreglumanna á þeim tíma, alls 612 listar. Í niðurstöðum könnunarinnar er að finna ýmsar athyglisverðar upplýsingar um hvernig lögreglumenn meta aðbúnað innan lögreglunnar. Er viðhorfskönnunin sérstök að því leyti að hún nær til alls við­fangsins. Nefndin lagði fram tillögur í tólf liðum sem væru til þess fallnar að bæta stöðu kvenna innan lögreglunnar. Sumar lúta að starfsmannastefnu ríkisins, svo sem tillaga um jafnan rétt til fæðingarorlofs. Þá lagði nefndin m.a. til að breytt væri ákvæðum lögreglulaga, nr. 90/1996, um skipan valnefndar sem velur nemendur í Lögregluskóla ríkisins, hún skyldi skipuð bæði körlum og konum. Þrátt fyrir að það hafi ekki gengið eftir hefur valnefndin sýnt hlutlæg vinnubrögð og vandvirkni í störfum sínum. Nefndin er sjálfstæð og hefur sett sér starfsreglur sem farið er eftir við val á nemum í skólann og er fjölgun kvenna í hópi lögreglu­nema veruleg, eins og framangreindar tölur sýna. Í upplýsingabæklingi Lögregluskóla ríkis­ins um grunnnám fyrir lögreglustarf er tekið fram að á undanförnum árum hafi verið lögð áhersla á að fjölga konum í lögreglunni.
    Með bréfi, dags. 20. október 1997, var ríkislögreglustjóra kynnt skýrslan og honum falið að taka til meðferðar aðrar tillögur nefndarinnar og setja fram tillögur um hvernig þeim yrði best sinnt. Í bréfi ríkislögreglustjóra, dags. 31. desember 1997, er gerð grein fyrir þeirri vinnu sem hafin er hjá embættinu í sambandi við nokkrar tillögur og hvernig þær fara saman við hugmyndir og tillögur um hlutverk og starfsemi hins nýja embættis. Þá er tekið fram í bréfinu að vinnu við að finna út hvernig útfæra megi tillögurnar sé ekki lokið. Að lokum má geta þess að í auglýsingum ríkislögreglustjóra og Fangelsismálastofnunar ríkisins eru konur hvattar til að sækja um auglýst störf til að stuðla megi að því að hlutfall kvenna í lögregluliði landsins og meðal fangavarða verði hærra.

     2.      Hversu mörg námskeið hafa verið haldin um mannréttindi kvenna fyrir opinbera embættismenn, hversu margir hafa sótt þau námskeið og hvaða stofnanir hafa notið þeirra, sbr. lið 2.9 í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar?
    Námskeið um mannréttindi var haldið fyrir dómara haustið 1997 á vegum Endurmenntunarstofnunar Íslands í samvinnu við dómsmálaráðuneytið og dómarafélagið þar sem m.a. var lögð áhersla á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og farið yfir dóma Mannréttindadómstóls Evrópu um það efni. Haustið 1998 var haldið sams konar námskeið fyrir aðra en dómara. Námskeiðin hafa sótt u.þ.b. 20–30 manns sem eru m.a. í störfum hjá dómstólum, lögreglu­stjóraembættum og ráðuneytum.

     3.      Er hafin könnun á stöðu jafnréttismála í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og stofnunum sem undir það heyra, sbr. lið 2.10? Ef svo er, hvað hefur hún leitt í ljós?

    Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu eru 27 starfsmenn við störf. Ráðuneytisstjóri er karl­maður. Af sex skrifstofustjórum í ráðuneytinu eru tvær konur og fjórir karlmenn. Af ellefu sérfræðingum eru sex konur og fimm karlmenn. Þá eru níu starfsmenn í almennum skrifstofu­störfum, allt konur.
    Í tilefni af fyrirspurn Ástu B. Þorsteinsdóttur um skipan héraðsdómara, sýslumanna og forstöðumanna stofnana á vegum dómsmálaráðuneytisins á 122. löggjafarþingi 1997–98 (þskj. 1030, 608. mál) var m.a. kannað hversu margar stöður héraðsdómara og hæstaréttar­dómara væru og hversu margar konur gegndu þeim. Í ljós kom að af 38 stöðum héraðsdóm­ara voru á þeim tíma átta skipaðar konum og að einni af níu stöðum hæstaréttardómara gegndi kona. Frá þeim tíma hefur ein kona verið skipuð héraðsdómari, en þeirri stöðu hafði karlmaður gegnt áður. Samkvæmt heimild í nýjum dómstólalögum hefur ráðherra sett fjóra héraðsdómara tímabundið, þ.e. til 30. júní 2001, og voru þrír þeirra konur. Aðrar kannanir hafa ekki verið gerðar á vegum ráðuneytisins að öðru leyti en því að samkvæmt lauslegri athugun kemur fram að af starfsfólki embætta sýslumanna eru konur í meiri hluta ef lögreglulið er ekki talið með.

     4.      Hvað líður gerð áætlana um jafna stöðu kynjanna í ráðuneytinu og stofnunum sem undir það heyra, sbr. lið 2.10? Hversu margar þeirra stofnana sem heyra undir ráðu­neytið hafa þegar gert slíkar áætlanir?
    Staða kynjanna í ráðuneytinu hefur verið nokkuð jöfn, sbr. það sem að framan greinir, og hefur því ekki verið talin þörf á sérstakri jafnréttisáætlun til úrbóta. Þá hefur ráðuneytið ný­lega sett erindisbréf fyrir sýslumanninn í Hafnarfirði þar sem m.a. er lögð sú skylda á sýslu­mann að stuðla að því að störf innan embættisins henti jafnt konum sem körlum og vinna að jafnri stöðu kynjanna í hvívetna. Enn fremur hefur ráðuneytið gert samning um árangursstjórnun við embætti sýslumannsins í Hafnarfirði og þar er m.a. samkomulag um að hjá embættinu verði mótuð starfsmannastefna um þau atriði sem teljast mikilvæg fyrir embættið og skuli þar m.a. fylgt stefnu ríkisstjórnarinnar um jafnréttismál. Fyrirhugað er að setja öllum öðrum sýslumönnum sams konar erindisbréf á yfirstandandi ári, svo og að ganga frá efnislega sambærilegum samningum við aðra sýslumenn og er nú unnið að því.