Ferill 548. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 885  —  548. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um jöfnun lífskjara og aðstöðumunar eftir búsetu.

Flm.: Guðni Ágústsson, Hjálmar Árnason, Ísólfur Gylfi Pálmason,


Kristinn H. Gunnarsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd sem rannsaki hvernig unnt sé að jafna lífskjör og aðstöðumun fólks eftir búsetu með aðgerðum í skattamálum.
    Nefndin skili Alþingi skýrslu eigi síðar en 1. október 1999.

Greinargerð.


    Nauðsynlegt er að leita allra leiða til að jafna lífskjör og aðstöðumun fólks eftir búsetu í landinu. Flutningsmenn telja að ýmsar aðgerðir í skattamálum komi til álita og telja vert að eftirfarandi atriði verði skoðuð:
1. Persónuafsláttur.
          Foreldrar nemenda í framhaldsskólum fjarri heimili fái að nýta ónýttan persónuafslátt barna sinna.
          Hjón og sambýlisfólk fái að nota ónýttan persónuafslátt maka/sambýlings að fullu.
          Íbúar ákveðinna landsvæða fái sérstakan persónuafslátt í staðgreiðslu til viðbótar þeim persónuafslætti sem almennt gildir, t.d. 150 þús. kr. á ári.
2. Frádráttur frá sköttum.
          Frekara tillit verði tekið til kostnaðar foreldra vegna náms barna við framhaldsskóla fjarri heimili.
          Tekið verði tillit til kostnaðar við akstur milli heimilis og vinnustaðar. Skattalög leyfa ekki slíkan frádrátt nú en í löggjöf nágrannaríkja okkar er að finna slíkar heimildir.
          Tekið verði tillit til þess ef fólk þarf að halda tvö heimili vegna vinnu sinnar.
3. Eignarskattur.
          Við útreikning á eignarskatti verði tekið tillit til tekna en áður fyrr var slíka heimild að finna í skattalögum. Bændur mundu einkum njóta þessa hagræðis þar sem talsverðar eignir eru bundnar í byggingum til rekstrarins en tekjur eru yfirleitt lágar.
4. Aðrir skattar og gjöld.
          Álagning þungaskatts og bifreiðagjalda verði endurskoðuð.
          Löggjöf um skattalega meðferð söluhagnaðar í landbúnaði verði tekin til endurskoðunar.
          Skattheimta af flugumferð innan lands verði tekin til endurskoðunar, t.d. hvað varðar eldsneyti og flugvallarskatta.
          Hugað verði að jöfnun aðstöðumunar íbúa dreifbýlis og þéttbýlis með innheimtu mismunandi virðisaukaskatts.
          Hætt verði við fyrirhugaðar breytingar á tryggingagjaldi þar sem gert er ráð fyrir einu gjaldstigi fyrir allar atvinnugreinar árið 2000. Til viðbótar mismun eftir atvinnugreinum mætti hugsa sér t.d. 2% mun eftir því hvort fyrirtæki eru í dreifbýli eða þéttbýli.
5. Annað.
          Hugað verði að aukningu hlutar sveitarfélaga í tekjuskattsstofni, einkum hjá þeim sveitarfélögum sem orðið hafa fyrir hvað mestum búsifjum vegna brottflutnings íbúa.
          Réttur sjálfstæðra atvinnurekenda, t.d. bænda og smábátaútgerðarmanna, til atvinnuleysisbóta verði aukinn og ekki sé gert upp á milli rekstrarforma fyrirtækja.


Fylgiskjal I.


Byggðastofnun,
dr. Bjarki Jóhannesson:

Lauslegur samanburður á skattaívilnunum í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi.
(Nóvember 1998.)


Noregur Svíþjóð Finnland
Heildarskattur
Lægri í Finnmörku og Norður-Troms

Enginn munur eftir svæðum

Enginn munur eftir svæðum
Námslán
Fólk í Finnmörku fær 15% afslátt á endurgreiðslum fyrstu fimm árin

Rætt hefur verið um lækkun á endurgreiðslum, en ekki fengist í gegn

Enginn afsláttur
Akstur til vinnu (eigin bíll)
Frádráttur frá skatti ef árskostnaður fer yfir vissa upphæð

Frádráttur frá skatti ef vega­lengd er meiri en 15 km, nota þarf bíl í starfi eða spar­ast 1 klst á dag miðað við al­menningsfarartæki, og ef árskostnaður fer yfir vissa upphæð

Frádráttur frá skatti, nánari skýringar vantar
Tvöföld búseta
Frádráttur frá skatti ef við­komandi þarf að stunda vinnu fjarri heimili.

Frádráttur frá skatti ef við­komandi þarf að stunda vinnu fjarri heimili.

Frádráttur (lítill) frá skatti ef viðkomandi þarf að stunda vinnu fjarri heimili.
Námskostnaður barna
Stuðningur ef nám krefst breyttrar búsetu barns

Stuðningur frá sveitarfélagi ef nám krefst breyttrar búsetu barns

Stuðningur frá sveitarfélagi ef nám kallar á búsetu barns annars staðar
Bifreiðagjöld
Þungaskattur er mismunandi eftir svæðum

Bifreiðagjöld eru lægri í innsveitum Norrlands

Enginn afsláttur, en bensín dýrara í Norður Finnlandi
Atvinnurekstrargjöld
Breytileg eftir svæðum, lægst í Finnmörk en hæst í Ósló

Lægri í innsveitum Norrlands

Enginn mismunur milli svæða
Fylgiskjal II.


Byggðastofnun,
dr. Bjarki Jóhannesson:


Stuðningsaðgerðir Evrópusambandsins við atvinnu- og byggðaþróun.
(Nóvember 1998.)

    Hér fer á eftir stutt yfirlit yfir stuðningsaðgerðir Evrópusambandsins (ESB) við atvinnu- og byggðaþróun. Þetta yfirlit er einungis sett fram til viðmiðunar fyrir stuðningsaðgerðir íslenskra stjórnvalda við atvinnu- og byggðaþróun hér á landi. Ekki er verið að skilgreina þátttöku Íslands í aðgerðum ESB, enda eiga Íslendingar í fæstum tilvikum aðgang að þessu stuðningskerfi ESB.

    Svæðaþróun er eitt af aðalmarkmiðum ESB og jöfnunaraðgerðir milli svæða eru þar mikilvægur þáttur. Einkunnarorðin eru samkeppni, samstarf og samstaða.
    Svæði ESB eru margbreytileg og uppbygging þeirra og tengsl oft flókin. Þetta tengist m.a. stofnbreytingum atvinnulífsins, tækniframförum og aukinni samvinnu milli svæða. Oft eru rík og nútímavædd svæði í nábýli við fátæk og vanþróuð svæði. Ýmis svæði einkennast af fjölbreytni og framþróun, meðan önnur, einkum óaðgengileg jaðarsvæði, hafa dregist aftur úr. Meðal þeirra síðarnefndu má einkum finna hefðbundin landbúnaðarsvæði með mikla fólksfækkun, mikið dulið atvinnuleysi og skammt þróaða grunngerð (svo sem samgöngu­kerfi). Hins vegar má finna þar svæði, sem byggt hafa á einhæfum iðnaði, sem nú er í hnignun. Það hefur síðan leitt til mikils atvinnuleysis. Finna má samsvörun þessara svæða hérlendis annars vegar á hefðbundnum landbúnaðarsvæðum, eins og Vestur-Skaftafellssýslu, Vestur-Húnavatnssýslu og Dalabyggð, og hins vegar svæðum sem eingöngu hafa byggst upp kringum fiskveiðar og fiskiðnað.
    Þriðjungur fjárveitinga ESB fer til svæðajöfnunaraðgerða. Markmiðið er að jafna sam­keppnishæfni og lífskjör ólíkra svæða. Þessar svæðajöfnunaraðgerðir byggjast að hluta til á stuðningi ESB og að hluta til á aðgerðum ríkjanna sjálfra. Svæðastuðningur ESB kemur til viðbótar aðgerðum ríkjanna sjálfra. Löndin verða því sjálf að fjármagna aðgerðirnar að hluta til.
    Svæðastuðningur ESB kemur frá stoðsjóðum ESB (Structure Funds). 50% þessa fjár­magns kemur frá svæðasjóðnum, 30% frá félagsmálasjóðnum og 20% frá landbúnaðar- og fiskveiðisjóðunum. Heildarfjármagn til svæðajöfnunaraðgerða á tímabilinu 1994–1999 er 145 milljarðar ECU, sem samsvarar u.þ.b. 12 þúsund milljörðum íslenskra króna.

AÐALMARKMIÐ


    90% svæðajöfnunaraðgerða renna til 6 skilgreindra aðalmarkmiða (objectives).

Markmið 1.
    Þróun skammt þróaðra svæða, þar sem verg svæðisframleiðsla er minni en 75% meðaltals innan ESB. Stutt er við fjárfestingar í grunngerð, fjölbreytni atvinnulífs, þróun í land­búnaði og ferðaþjónustu, fjárfestingar í heilbrigðiskerfi, evrópskt heildar samgöngukerfi, orkumál og fjarskiptatækni.

Markmið 2.
     Uppbygging og endurnýjun á svæðum með hnignandi iðnað. Beinist að fyrirtækjum, svæðastjórnvöldum, sveitarfélögum og samtökum. Stutt er við endurnýjun iðnaðar, stofnun fyrirtækja, m.a. kvenna og ungs fólks, alþjóðavæðingu lítilla og meðalstórra fyrirtækja, sam­starf fyrirtækja og háskóla varðandi rannsóknar- og þróunarstarf, samvinnu fyrirtækja, aukn­ar fjárfestingar, nýja tækni og vöruþróun, starfsþjálfun, umhverfismál fyrirtækja og ferða­þjónustu.

Markmið 3.
     Aðgerðir gegn langtímaatvinnuleysi, einkum ungmenna. Beinist að fyrirtækjum, stjórnvöldum og samtökum. Sérstök áhersla er lögð á þá sem lengi hafa verið atvinnulausir, ungmenni milli 17 og 24 ára, fatlaða og innflytjendur. Stutt er við starfsmenntun, leiðbein­ingar og ráðgjöf, átaksmiðstöðvar og stofnun eigin fyrirtækja.

Markmið 4.
    
Endurmenntun starfsfólks í fyrirtækjum og bætt vinnutilhögun. Beinist einkum að starfsfólki lítilla fyrirtækja (með allt að 49 starfsmenn), að hluta til konum í heilbrigðis- og félags­legri þjónustu. Stutt er við þróun vinnuskipulags, athuganir á þörfum starfsfólks og starfs­menntun á sviði vöruþróunar, upplýsingatækni og alþjóðavæðingu.

Markmið 5a.
    
Þróun í landbúnaði og fiskveiðum í sambýli við umhverfið. Beinist að fyrirtækjum í landbúnaði og sjávarútvegi. Stutt er við starfsmenntun, þróun fyrirtækja og aukna samkeppnis­hæfni innan skammt þróaðra svæða á þessum sviðum. Í landbúnaði er framleiðslustyrkur miðaður við fjölda gripa, en sums staðar er einnig veittur styrkur til ræktunar. Stutt við þróun samkeppnishæfni til langs tíma, og verðmætaaukningu kjötafurða, grænmetis, ávaxta o.fl. Í sjávarútvegi er stutt við úreldingu fiskiskipa, nútímavæðingu fiskveiðitækja og fiskveiði­aðferða, gæðaþróun, öryggismál, ræktun nýrra fisktegunda, endurnýjun lager- og kæli­geymslna, bætt vinnuskilyrða, átaksverkefni og ráðstefnur.

Markmið 5b.
     Þróun og grunnbreyting í dreifbýli. Beinist að smáfyrirtækjum, samtökum, þróunarhópum, svæðastjórnvöldum og sveitarfélögum á jaðarsvæðum. Stutt er við athuganir á litlum og meðalstórum fyrirtækjum, þróun og viðbætur við hefðbundnar atvinnugreinar, stofnun nýrra fyrirtækja (einkum meðal kvenna), ferðaþjónustu, náttúruvernd, sjálfbæra þróun, menningarmál, fjarskiptatækni og menntun á því sviði, samhæfingu þjónustu og netsam­starfsverkefni.

Markmið 6.
     Stuðningur við sérlega dreifbýl svæði. Beinist að fyrirtækjum, samtökum, þróunarhópum, svæðastjórnvöldum og sveitarfélögum. Stutt er við vöruþróun, nýja tækni, markaðssetningu, framleiðniaukningu, gæðaþróun, ferðaþjónustu, rannsóknir og þróunarsamstarf lítilla fyrir­tækja, þróun grunngerðar og fjarskipta, menntun m.a. kvenna og ungmenna í upplýsinga­tækni, starfsmenntun innan fyrirtækja, þróun landbúnaðar, sjálfbæra þróun, fiskveiðimennt­un, vistfræði, verktakamenntun og hvernig bæta megi ýmsa þjónustu með fjarskiptatækni.


SAMSTARFSVERKEFNI


    9% svæðajöfnunaraðgerða ESB renna til svokallaðra samstarfsverkefna. Oftast er krafist samstarfs aðila frá tveimur eða fleiri ríkjum. Forgangsverkefni eru m.a. þróun landsbyggðar, einkum jaðarsvæða, atvinnuþróun, mannauðsþróun, vandamál vegna breyttra atvinnuhátta, vandamálasvæði í borgum og grunnbreyting á fiskveiðum. Hér eru nefnd nokkur helstu verk­efnin sem tengjast atvinnu- og byggðaþróun.

Adapt.
    
Samstarfsverkefni aðila frá fleiri en einu ríki. Beinist að opinberum aðilum, einkafyrirtækjum, aðilum vinnumarkaðarins, þróunarstofnunum o.fl. Stutt er við starfsmenntun sem beinist að nýsköpun, aðferðaþróun og samstarfsformum.

Employment.
    
Samstarfsverkefni aðila frá fleiri en einu ríki. Beinist að stjórnvöldum, sveitarfélögum, aðilum vinnumarkaðarins, rannsóknarstofnunum, menntastofnunum og fyrirtækjum. Stutt er við starfsmenntun fólks, með veika stöðu á vinnumarkaði, svo sem fatlaða, ungmenni og konur.

Interreg II.
    Samstarfsverkefni yfir ríkjamörk. Stutt er við atvinnuþróun, menntun o.fl.

Leader II.
    Atvinnuþróun á landbúnaðarsvæðum, einkum á sviði smáfyrirtækja, umhverfismála, þjónustu, ferðamála, menningar, lífsgæða o.fl. Beinist að átakshópum í héruðum. Stutt er við ný­sköpunaraðgerðir, sem nýtast sem fyrirmynd fyrir önnur svæði. Myndað er samstarfsnet slíkra svæða. Athugun á þörfum og möguleikum innan atvinnuþróunar, verðmætaaukningar framleiðslu, lífsgæða, umhverfismála, opinberrar þjónustu og ferðaþjónustu.

Pesca.
    Aukin fjölbreytni í fiskiðnaði. Beinist að starfsfólki og fyrirtækjum í fiskiðnaði. Stutt er við vatnanýtingu, vatnaferðaþjónustu, þróun og markaðssetningu matvæla, nýtingu auka­afurða fisks, menntun og netsamstarf.

SME.
    Samkeppnishæfni og aðlögun lítilla og meðalstórra fyrirtækja að innri markaði ESB. Stutt er við markaðsþróun, samkeppnishæfni með aðstoð nýrrar tækni, einkum upplýsinga- og samskiptatækni, og umhverfismál til aukningar samkeppnishæfni (umhverfisgæðastimpill o.fl.).

TILRAUNAVERKEFNI


    Um það bil 1% svæðajöfnunaraðgerða ESB renna til lítilla tilraunaverkefna á sviði nýsköpunar o.fl.
     Svæðasjóðurinn styrkir m.a. svæðasamstarf á sviði menningar, skipulagsmála, útbreiðslu tækni, menntunar, landbúnaðar og fiskveiða.
     Félagsmálasjóðurinn styrkir m.a. verkefni á sviði almennrar menntunar, starfsmenntunar, vinnuskipulags, hreyfanleika starfsfólks og aðlögunar fólks, sem fallið hefur út af vinnu­markaðinum.
     Landbúnaðarsjóðurinn styður þróunarverkefni á landbúnaðarsvæðum.
     Fiskveiðisjóðurinn styður nýsköpunarverkefni og rannsóknir á sviði sjávarútvegs.
Fylgiskjal III.


Byggðastofnun,
dr. Bjarki Jóhannesson:


Samanburður á skattakerfum Íslands og Noregs.
(Nóvember 1998.)

Ísland

Noregur

Skýringar

1.
Tekju-skattur og útsvar
Tekjuskattur 39,02% af tekjuskattsstofni (27,41% tekjuskattur + 11,61% útsvar). Staðgreiðsla barna yngri en 16 ára 6,00%. Tekjur barna < 79.889 kr. eru skattfrjálsar.
Tekjuskattur hluta- og samvinnufélaga er 33,00% og sameignarfélaga 41,00%.
Tekjuskattur er 28,00% af tekjuskattsstofni sem skiptist þannig að 6,75% fer til fylkisins, 11,50% fer til sveitarfélagsins og 9,75% til ríkisins. Í Finnmörku og N-Troms er tekjuskattur lægri eða 24,50%. Þar er hlutur ríkisins í skattheimtunni 6,25% í stað 9,75% Tekjuskattshlutfall er lægra í nyrsta hluta Noregs og munar þar 3,5% (28,0% – 24,5%). Það er hlutfall skatt­tekna ríkisins sem er lægra, þ.e. 6,25% á móti 9,75% sem er almenna skatthlutfallið til ríkisins.
2.
Hátekju-
skattur
Af tekjuskattsstofni
> 3.120.000 kr. er innheimtur 7,00%-skattur (tvöfaldar upphæðir hjá hjónum/sambýlisfólki).
Af tekjuskattsstofni á bilinu 233.000 – 262.500 kr. 9,50% og 13,7% af stofni yfir 262.500 kr. (kl. I). Hjá íbúum Finnmerkur og nokkurra sveitarfélaga í Troms-fylki er aðeins innheimtur 9,50% hátekjuskattur (hærra skattþrepið er ekki notað). Hátekjuskattur er hærri í Noregi. Hann er hærri prósenta en hérlendis og er tvískiptur (9,50% og 13,7%). Auk þess sem hann reiknast á lægri viðmiðunarupp­hæðir (233.000 NOK er um 2.190.000 ISK). (Sk.klassi II = Einstætt foreldri og hjón/sk.kl. I = einstaklingar.)
3.
Persónu-
afsláttur
Persónuafsláttur er 280.320 kr. á ári (23.360 kr. á. mánuði). Persónuafsláttur er 24.100,- í kl. I á ári og 48.200,- í kl. II
Sérstakur frádráttur er fyrir íbúa Finnmerkur og N-Troms að upphæð 15.000,- í kl. I.
Persónuafsláttur er sambærilegur og hérlendis.
Norður-frádrátturinn er aukalega 141.000 ISK til lækkunar á tekju­skattsskyldum launum.
4. Sjómanna-
afsláttur
Sjómannaafsláttur til lækkunar tekjuskatts er á dag 656 kr. eða um 239.440 kr. á ársgrundvelli. Sjómannaafsláttur er 30,00% með efri mörk við kr. 70.000 NOK.
5. Frádráttur
vegna lífeyris-
sjóðs-
iðgjalds
Frádráttur vegna iðgjalds í lífeyrissjóð er að hámarki 4,00% af launum árið 1998. Í staðgreiðslu 1999 verður heimilt að færa til frádráttar allt að 6,00% af iðgjalds­stofni. Frádráttur vegna iðgjalds í séreignalífeyrissjóð að hámarki 10,00% af launum. Hámarksupphæð 30.000 kr.
6.
Atvinnu-rekenda-gjöld
og trygginga-
gjald
Tryggingagjald 5,83% og 4,23%. Iðnaðarmálagjald 0,08. Búnaðargjald 2,65%. Markaðsgjald 0,015%. Skattur á verslunar og skrifstofuhúsnæði 0,313%. Breytilegt eftir svæðum, þ.e. svæði 1 14,1%, svæði 2 10,6%, svæði 3 6,4%, svæði 4 5,1% og svæði 5 0,0%. Síðan er sérstakt 10,0% aukagjald á laun yfir 16G (meðatal 12G). Tryggingagjald 7,8% – 10,7%
8.
Náms-
kostnaður – námslán
Lán LÍN taka tillit til framfærslukostnaðar og þ.m.t. búsetu námsmanns (foreldrahús, leiguhúsn., fjölskyldustærðar o.s.frv. Lánað er vegna ferða­kostnaðar (litlar upphæðir). Engin sérkjör eru varðandi endurgreiðslu lánanna. Stuðningur ef nám kallar á flutning á milli staða. Íbúar Finnmerkur fá 15% afslátt af endurgreiðslum námslána fyrstu fimm árin.
9.
Þunga-
skattur – díselskattur
Þungaskattur endurgreiddur til bænda að hluta. Mismunandi skattur eftir svæðum.
10.
Tvöföld búseta
Ekkert tillit tekið til slíks. Frádráttur frá skatti ef viðkomandi þarf að stunda vinnu fjarri heimili sínu.
11.
Bifreiðar
Ekki er viðkenndur kostnaður við rekstur ökutækis vegna ferðalag á milli heimilis og vinnustaðar. Fyrir annan akstur fyrir vinnuveitendur er gerður rekstrarreikningur. Viðurkennd eru útgjöld vegna ferðalaga á milli heimilis og vinnustaðar – lækkun tekjuskattsstofns.
12.
ESB-stuðningur
Enginn. Enginn.