Ferill 550. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 889  —  550. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 94/1976, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)

1. gr.

    1. gr. laganna orðast svo:
    Fasteignamat ríkisins fer með yfirstjórn fasteignaskráningar eins og nánar er mælt fyrir í lögum þessum og annast daglegan rekstur gagnasafns þar að lútandi. Gagnasafn þetta nefnist Landskrá fasteigna og skal það vera á tölvutæku formi.
    Í gagnasafni þessu skulu vera allar fasteignir í landinu. Skal það vera grundvöllur skrán­ingar fasteigna, þinglýsingabókar fasteigna, mats fasteigna og húsaskrár Hagstofu Íslands, þjóðskrár og þannig úr garði gert að það geti nýst sem stoðgögn í landupplýsingakerfum.

2. gr.

    Á eftir 1. gr. laganna kemur ný grein, 2. gr., sem orðast svo:
    Hverja fasteign skal meta til verðs eftir því sem næst verður komist á hverjum tíma og nánar er kveðið á um í lögum þessum.

3. gr.

    2. gr. laganna, sem verður 3. gr. orðast svo:
    Fasteign samkvæmt lögum þessum er afmarkaður hluti lands sem unnt er að veðsetja í einu lagi, ásamt lífrænum og ólífrænum hlutum þess, réttindum sem því fylgja og þeim mann­virkjum sem varanlega eru við landið skeytt.
    Fasteignir, hluta þeirra og einstök mannvirki skal skrá sem sérstakar skráningareiningar í Landskrá fasteigna svo sem hér segir:
     a.      land, þ.e. hver sá skiki lands sem vegna sérgreinds eignar- eða afnotaréttar, hagnýtingar, auðkenna eða landamerkja getur talist sjálfstæð eind,
     b.      mannvirki sem gert hefur verið í landi eða á eða verið við það tengt,
     c.      séreignarhlutar í fjöleignarhúsum samkvæmt lögum um fjöleignarhús,
     d.      hlutar mannvirkja ef um sérstaka notkun þeirra er að ræða,
     e.      ræktun,
     f.      hlunnindi,
     g.      önnur réttindi tengd fasteignum.
    Ráðherra getur með reglugerð ákveðið að skrá skuli fleiri skráningareiningar fasteigna en þær sem taldar eru í 2. mgr.

4. gr.

    Í stað „2. gr.“ í 3. gr. laganna, er verður 4. gr., kemur: 3. gr.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna, er verður 5. gr.:
     a.      Í stað „3. gr.“ í 1. mgr. kemur: 4. gr.
     b.      Í stað „12. gr. “ í 2. mgr. kemur: 21. gr.

6. gr.

    Í stað „19. gr.“ og „9. gr.“ í 13. mgr. 6. gr. laganna, er verður 7. gr., kemur: 28. gr., og 18. gr.

7. gr.

    Á eftir II. kafla laganna kemur nýr kafli, III. kafli, Landskrá fasteigna, með átta nýjum greinum, svohljóðandi:

    a.     (10. gr.)     
    Gagnasafnið Landskrá fasteigna skal myndað af stofnhluta, mannvirkjahluta, fasteigna­matshluta og þinglýsingarhluta. Í stofnhluta eru grunnupplýsingar um heiti, auðkenni og afmörkun fasteigna. Í mannvirkjahluta eru byggingarfræðilegar upplýsingar um mannvirki og álagningarupplýsingar. Í fasteignamatshluta eru skoðunargögn og matsforsendur ásamt upplýsingum um fasteignamat og brunabótamat og upplýsingum um staðgreiðsluvirði sam­kvæmt kaupsamningum. Í þinglýsingarhluta eru upplýsingar um þinglýsta eigendur og eign­arhlut þeirra ásamt upplýsingum um veðbönd, kvaðir og annað er þinglýsingabók heldur.
    Um forræði á þinglýsingarhluta Landskrár fasteigna og upplýsinga er hann geymir fer eftir ákvæðum þinglýsingalaga.
    Fjármálaráðherra er heimilt með reglugerð að setja nánari ákvæði um gerð og efni gagnasafnsins.

    b.     (11. gr.)     
    Fasteignamat ríkisins forskráir grunnupplýsingar í stofnhluta Landskrár fasteigna. Með forskráningu er átt við skráningu upplýsinga í biðskrá. Þessar upplýsingar færast í stofnhluta Landskrár fasteigna við þinglýsingu eða staðfestingu þinglýsingarstjóra og telst það þá fullnaðarskráning. Fullnaðarskráning eða breyting grunnupplýsinga í stofnhluta Landskrár fasteigna verður aðeins með þinglýsingu.

    c.     (12. gr.)
    Öll afmörkuð landsvæði skulu bera fast númer, landnúmer, sem er skráningarauðkenni landskika í Landskrá fasteigna. Númerið er hlaupandi raðtala sem felur ekki í sér aðrar upplýsingar.
    Ef fasteign er mynduð af fleiri en einum landskika skal hver skiki auðkenndur með sér­stöku landnúmeri. Slík fasteign skal bera eitt heiti. Standi sérstaklega á er sveitarstjórn heimilt að ákveða að einstakir skikar hafi undirheiti við aðalheitið.
    Í þéttbýli skulu opin svæði og götur sem falla utan afmarkaðra lóða og landsvæða auðkennd með einu eða fleiri landnúmerum eftir ákvörðun sveitarstjórnar.
    Í hverju sveitarfélagi skulu þjóðlendur og afréttarlönd sem liggja utan marka lögbýla bera landnúmer.
    Fasteignamat ríkisins úthlutar landnúmeri við forskráningu.

    d. (13. gr.)     
    Allar fasteignir skulu bera fast auðkenni, fastanúmer. Númerið er hlaupandi raðtala sem felur ekki í sér aðrar upplýsingar. Auk fastanúmers ber hver fasteign heiti samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar eða samkvæmt lögum um bæjanöfn o.fl.
    Fasteignamat ríkisins úthlutar fastanúmeri við forskráningu.
    Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um heiti fasteigna, annarra en þeirra sem falla undir lög um bæjanöfn o.fl.

    e. (14. gr.)
    Eigandi skal gefa út stofnskjal fyrir hverja lóð eða heildarsafn lóða sem myndaðar eru í Landskrá fasteigna. Í stofnskjali skal tilgreina eftirfarandi upplýsingar:
     a.      heiti landeignar samkvæmt ákvörðun sveitarfélags,
     b.      landnúmer lóðar, eitt eða fleiri,
     c.      landnúmer þess lands sem lóð er tekin úr,
     d.      afmörkun lóðar á uppdrætti sem staðfestur hefur verið af skipulagsyfirvöldum,
     e.      fastanúmer hverrar fasteignar sem hefur beina tilvísun í þá skika sem henni tilheyra,
     f.      nafn og kennitölu eiganda fasteignar.
    Ráðherra er heimilt að ákveða í reglugerð að í skjali er varðar landamerki eða lóðarmörk skuli tilgreina hnit skurðpunkta og markalínur samkvæmt viðurkenndu hnitakerfi, svo og mælikvarða uppdrátta af landi. Einnig er ráðherra heimilt með reglugerð að mæla sérstaklega fyrir um form og efni uppdrátta þar sem nægilega nákvæm hnitakerfi eru ekki fyrir hendi.

    f. (15. gr.)
    Við myndun fasteignar í fjöleignarhúsi skal Fasteignamat ríkisins forskrá auðkenni hvers séreignarhluta í húsinu; fastanúmer svo og skilgreiningu og auðkenni þess rýmis í húsinu sem tilheyrir hverjum séreignarhluta.
    Fasteignir í fjöleignarhúsum skulu afmarkaðar á grunnteikningum. Um skráningu fast­eigna í fjöleignarhúsum fer samkvæmt lögum um fjöleignarhús.
    Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um skráningu mannvirkja.

    g. (16. gr.)     
    Sveitarstjórn skal tilkynna Fasteignamati ríkisins um breytingar á heiti fasteignar. Fast­eignamat ríkisins skal framsenda viðkomandi þinglýsingarstjóra tilkynningu sveitarfélags.
    Breyting skv. 1. mgr. tekur gildi í Landskrá fasteigna þegar henni hefur verið þinglýst og skal Fasteignamat ríkisins tilkynna hana til Hagstofu Íslands, þjóðskrár, að þinglýsingu lokinni.
    Í Landskrá fasteigna skal halda ferilskrá yfir breytingar á fasteignum þar sem upplýsingar um fyrri heiti og auðkenni og tengsl þeirra við gildandi heiti og auðkenni eru varðveitt.

    h. (17. gr.)
    Landeiganda er skylt að þinglýsa stofnskjali er ný landeign verður til við skiptingu lands.
    Áður en heimild er veitt til veðsetningar eða mannvirkjagerðar á leigulóð eða landi í eigu sveitarfélags skal sveitarstjórn hlutast til um að fasteign verði skráð með þinglýsingu stofnskjals.
    Áður en heimild er veitt til mannvirkjagerðar á eignarlóð skal sveitarstjórn hlutast til
um að fasteign verði skráð með þinglýsingu stofnskjals.

8. gr.

    Í stað orðsins „fasteignaskrá“ í 2. og 4. mgr. 11. gr. laganna, er verður 20. gr., kemur: fasteignamatshluta Landskrár fasteigna.

9. gr.

    Í stað orðsins „fasteignaskrá“ í 1. mgr. 12. gr. laganna, er verður 21. gr., kemur: fast­eignamatshluta Landskrár fasteigna.

10. gr.

    14. gr. laganna, sem verður 23. gr., orðast svo:
    Fasteignamat ríkisins aflar og lætur í té upplýsingar úr gagnasafninu og veitir þjónustu við úrvinnslu á þeim gegn gjaldi.
    Ráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um aðgang notenda að upplýsingum í gagnasafninu, úrvinnslu upplýsinga í starfrænu formi og gjaldtöku m.a. fyrir útgáfu vottorða.

11. gr.

    Í stað orðsins „fasteignaskrárinnar“ í 15. gr. laganna, er verður 24. gr., kemur: fasteigna­matshluta Landskrár fasteigna.

12. gr.

    Í stað „17. gr.“ í 1. mgr. 18. gr. laganna, er verður 27. gr., kemur: 26. gr.

13. gr.

    Í stað „9. gr.“ í 1. mgr. 20. gr. laganna, er verður 29. gr., kemur: 18. gr.

14. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 21. gr. laganna, er verður 30. gr.:
     a.      Í stað „19. og 20. gr.“ í 1. mgr. kemur: 28. og 29. gr.
     b.      Í stað orðsins „fasteignaskrá“ í 2. mgr. kemur: fasteignamatshluta Landskrár fasteigna.
     c.      Í stað „22. gr.“ í 2. mgr. kemur: 31. gr.

15. gr.

    Í stað „21. gr.“ í 22. gr. laganna, er verður 31. gr., kemur: 30. gr.

16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 24. gr. laganna, er verður 33. gr.:
     a.      Í stað „21. gr.“ í 1. mgr. kemur: 30. gr.
     b.      Í stað orðsins „fasteignaskrá“ í 2. mgr. kemur: fasteignamatshluta Landskrár fasteigna.

17. gr.

    Eftirfarandi breyitingar verða á 26. gr. laganna, er verður 35. gr.:
     a.      Í stað „13. gr.“ í 1. mgr. kemur: 22. gr.
     b.      Í stað orðsins „fasteignaskrá“ í 3. mgr. kemur: fasteignamatshluta Landskrár fasteigna.


18. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 1999.
    Þegar lög þessi hafa öðlast gildi skal heimilt að fella meginmál þeirra inn í lög nr. 94/1976, um skráningu og mat fasteigna, með síðari breytingum, og gefa þau út með samfelldri greinatölu og kaflanúmerum svo breytt.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Dómsmálaráðuneytið annast yfirfærslu skráningarupplýsinga úr eldri skrám og bókum yfir í Landskrá fasteigna í samvinnu við Fasteignamat ríkisins.Yfirfærslunni skal lokið innan fimm ára frá gildistöku laga þessara.
    Að myndun Landskrár fasteigna skal starfa framkvæmdanefnd fimm manna sem ráðherra skipar. Einn nefndarmaður skal tilnefndur af fjármálaráðherra og skal hann vera formaður nefndarinnar, einn af dómsmálaráðherra, einn af Hagstofu Íslands, einn af umhverfisráðherra og einn af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Hlutverk nefndarinnar er að gera verkáætlanir um yfirfærslu fasteignaupplýsinga skv. 1. mgr. og vera viðkomandi aðilum til ráðgjafar um myndun og þróun Landskrár fasteigna og framkvæmd laga þessara.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu, um breyting á lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 94/1976, sem flutt er samhliða frumvarpi um breyting á þinglýsingalögum, nr. 39/1978, er stigið þýð­ingarmikið skref í átt að samræmingu helstu skráa um fasteignir í landinu, skráa Fast­eignamats ríkisins og þinglýsingabóka sýslumanna.
    Fyrsta skrefið í samræmingunni er myndun samhæfðs gagnasafns um allar fasteignir í landinu er nefnist Landskrá fasteigna. Gagnasafnið skal vera sameiginleg skrá um fasteignir, þinglýsingar fasteigna, mat fasteigna og húsaskrá Hagstofu Íslands, þjóðskrár.
    Jafnframt myndun gagnasafnsins er tilgangur frumvarpsins að samræma verklag skrá­ningaraðila við skráningu fasteigna í samhæfðri tölvuvinnslu. Í þessu tilliti er samræming réttindaskráningar sýslumanna og fasteignaskrár Fasteignamats ríkisins mikilvægust. Í þriðja lagi er tilgangur frumvarpsins að leggja grunn að skráningu landeigna á tölvutæku formi er nýtist m.a. til rekstrar landupplýsingakerfis.
    Með myndun Landskrár fasteigna verður til samhæfður upplýsingagrunnur um allar fasteignir sem nýtast mun öllum sem nú halda sérstakar fasteignaskrár. Hagræðið sem í þessu felst fyrir notendur Landskrár er margvíslegt. Skráin skal þannig úr garði gerð að hagkvæmt verði fyrir notendur hennar að leggja af sjálfstætt skrárhald. Með því að hvert upplýsingaatriði er aðeins fært einu sinni í Landskrána sparast sú margskráning sem nú fer fram hjá ýmsum skráarhöldurum. Það leiðir af sér meiri áreiðanleika upplýsinga og eykur þar með öryggi í viðskiptum.
    Grunnurinn að lagafrumvarpi þessu er samstarfsverkefnið Landskrá fasteigna sem á rætur sínar að rekja til endurnýjunar kerfishugbúnaðar hjá Fasteignamati ríkisins árið 1992. Athugun samfara endurgerð tölvukerfis Fasteignamatsins leiddi þá í ljós að sjálfstæðir skrár­haldarar fasteignaupplýsinga voru auk Fasteignamatsins, þinglýsingarstjórar, byggingarfull­trúar, álagningardeildir sveitarfélaga, Hagstofa Íslands, þjóðskrá, tryggingafélög og fleiri aðilar.
    Byggingarfulltrúar, Fasteignamat ríkisins og þinglýsingarstjórar skrá upplýsingar um fasteignir eftir mismunandi lögum sem ekki hafa að geyma samræmd ákvæði um skráningu fasteigna og hefur það leitt til misræmis í skráningu sömu fasteigna í einstökum skrám. Sérstaklega hefur skort samræmdar reglur um hvernig ný fasteign verði stofnuð í einstökum skrám. Misræmi í þeim upplýsingum sem skrárnar geyma hefur valdið því að ekki er unnt að tengja þær saman og þannig hefur verið viðhaldið tvíverknaði sem fylgir skrárhaldi margra aðila um sömu upplýsingaatriði. Auk mismunandi skráningarreglna má skýra misræmi í fasteignaskráningu með því að skrárhaldarar safna fasteignaupplýsingum hver með sínum hætti og í misjöfnum tilgangi. Fasteignamat ríkisins heldur fasteignaskrá er geymir upplýsingar um fasteignir, eigendur þeirra og matsverð, auk númerakerfis um fasteignir er gerir myndun Landskrár fasteigna samkvæmt frumvörpunum mögulega. Þinglýsingabók geymir þinglýstar upplýsingar um fasteignir, eigendur þeirra og áhvílandi veðskuldir. Skráningarkerfi þeirra byggingarfulltrúa sem hafa tölvuvæðst geyma upplýsingar um fasteignir og eigendur þeirra, auk ýmissa tæknilegra upplýsinga um mannvirki. Álagningar­skrár sveitarfélaga geyma upplýsingar um fasteignir, eigendur og álagningarforsendur. Þjóð­skrá Hagstofu Íslands geymir upplýsingar um heiti húsa og númer.
    Vart þarf að rökstyðja það hagræði sem leiða mun af samræmingu skránna í eitt gagnasafn, en auk hagræðis af einskráningu upplýsinga í samhæfðum grunni, leiðir sameigin­leg gagnavinnsla til betri miðlunar upplýsinga milli einstakra skráningaraðila.
    Innan stjórnarráðsins var myndaður svokallaður stýrihópur um verkefnið Landskrá fasteigna. Í honum eiga sæti ráðuneytisstjórar fjármálaráðuneytis, Hagstofu Íslands, dóms­málaráðuneytis, félagsmálaráðuneytis, umhverfisráðuneytis auk formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga og fulltrúa Reykjavíkurborgar. Á upphafsfundi hópsins 4. nóvember 1992 voru sett þau markmið að með gerð Landskrár fasteigna yrði komið á laggirnar einskráningu upplýsinga í skilvirku skráningarferli með skýra hlutverkaskiptingu skráningar­aðila og hagkvæmni heildarinnar að leiðarljósi. Meginmarkmiðið með gerð Landskrár fasteigna væri að uppfylla þörf fyrir einhlíta og varanlega skrá um lönd, lóðir og fasteignir þeim tengdar, sem komi að almennum notum fyrir þá sem þurfa á henni að halda, hliðstætt og þjóðskrá Hagstofu Íslands.
    Á vegum verkefnahóps um Landskrá fasteigna hefur nú í fjögur ár staðið yfir tilrauna­verkefni hjá sýslumannsembættinu í Kópavogi sem hefur haft það að markmiði að koma á samtengdri gagnavinnslu byggingarfulltrúa, Fasteignamats ríkisins og þinglýsingarstjóra. Hefur þessi tilraun farið saman við tölvuvæðingu þinglýsingabóka hjá sýslumannsembættinu í nýju tölvukerfi þinglýsinga sem samhæft hefur verið við skráningarkerfi Fasteignamats ríkisins Þróun nýs tölvukerfis fyrir þinglýsingar hefur reynst nauðsynleg vegna annmarka á eldra kerfi sem hannað var fyrir ríflega tíu árum af Skýrsluvélum ríkisins og Reykjavíkur­borgar (Skýrr) til þinglýsinga við embætti borgarfógeta í Reykjavík. Skýrr-kerfið var síðar einnig tekið í notkun í Hafnarfirði og á Ísafirði. Þrátt fyrir að skráning í þetta tölvukerfi hafi í upphafi verið byggð á upplýsingum úr fasteignaskrá Fasteignamats ríkisins, þróuðust mál svo að misræmi fór vaxandi milli skránna. Tvær ástæður lágu til þess. Önnur var sú að við hönnun þess var í sparnaðarskyni sleppt tveimur tölusætum úr tilvísun til númerakerfis Fast­eignamats ríkisins. Jafnframt láðist að gera ráð fyrir skráningu lóða og tengingu fasteigna í húsum við þær. Afleiðingin varð sú að tilvísun til númerakerfis Fasteignamats ríkisins nýttist ekki sem skyldi við skráningu eigna í þinglýsingarkerfið. Við þetta öðlaðist þing­lýsingarkerfi Skýrr sjálfstætt líf, ef svo má segja og samræming milli kerfanna varð sífellt erfiðari. Aðalforsendan við hönnun nýs þinglýsingakerfis hefur af þessum sökum verið sú að skrá Fasteignamats ríkisins og þinglýsingabók notuðu sömu upplýsingar, því aðeins að þannig væri tryggt að skrárnar væru einhlítar og tryggðu þau réttindi borgaranna sem þær lýsa. Nokkur hluti af vinnu við landskrárverkefnið hefur farið í að skilgreina að nýju verkaskiptingu milli skráningaraðila til að tryggja að hvert upplýsingaatriði verði aðeins skráð einu sinni, að hver aðili sé ábyrgur fyrir áreiðanleika sinnar skráningar og að henni verði ekki breytt að hálfu annarra skráningaraðila. Reynsla hefur þegar fengist af samanburði og samræmingu skráa í tilraunaverkefni Landskrár fasteigna í Kópavogi og er efni frumvarpsins að nokkru byggt á henni.
    Landskrá fasteigna er skilgreind sem dreift gagnasafn þar sem gert er ráð fyrir að aðskilja megi vistun einstakra skrárhluta eftir því sem ástæða þykir til. Meginatriðið er að skrán­ingaraðilum hafa verið sett skýr hlutverk í sameiginlegri gagnavinnslu þar sem stefnt er að því að hvert upplýsingaatriði sé aðeins skráð einu sinni og gagnkvæmt flæði upplýsinga milli skráningaraðila skapi hagræði og veiti yfirsýn.
    Hugtakið Landskrá fasteigna er skilgreint í lögunum sem gagnasafn sem myndað er af nokkrum skrárhlutum um fasteignir. Gagnvart notendum mynda skrárhlutarnir í raun eina skrá, Landskrá fasteigna sem skiptist upp í nokkra hluta með mismunandi reglum um að­gengi.
    Undir stofnhluta Landskrár falla allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að skilgreina og afmarka fasteignir. Aðrir skrárhlutar munu sækja í stofnhluta grunnupplýsingar um heiti, auðkenni og afmörkun fasteigna. Að þessu leyti má bera stofnhluta saman við kennitöluskrá Hagstofu Íslands, þjóðskrár.
    Í mannvirkjahluta Landskrár eru geymdar ýmsar byggingafræðilegar upplýsingar, svo sem um byggingarefni og fleira er viðkemur tæknilegri lýsingu mannvirkja. Fasteignamatshluti landskrár geymir matsforsendur og matsverð. Þinglýsingahluti Landskrár hefur í þessu tilliti nokkra sérstöðu þar sem um hann gilda sérstök lög, þinglýsingalög. Þinglýsingabók er réttindaskrá sem geymir m.a. upplýsingar um heiti, auðkenni og afmörkun fasteigna, auk eigenda- og veðhafaskrár fasteigna. Því er mikilvægt að tengja núverandi þinglýsingarbók við Landskrá til að tryggja að stofnhluti hennar hvíli ávallt á þinglýstum heimildum. Ekki er í frumvarpinu tekin afstaða til þess hvar þinglýsingahluti Landskrár fasteigna skuli geymdur en fyrst um sinn þar til annað verður ákveðið, er af hagkvæmnisástæðum gert ráð fyrir að hann verði geymdur í aðalgagnasafni Landskrár fasteigna.
    Gert er ráð fyrir að myndun Landskrár fasteigna taki nokkurn tíma. Verkefni þessu má skipta í tvennt. Annars vegar er um að ræða undirbúningsvinnu og yfirfærslu núverandi skráningarupplýsinga í gagnasafnið og hins vegar endurgerð ófullkominna upplýsinga. Áður en yfirfærsla skráningarupplýsinga getur farið fram verður að tölvufæra allar handfærðar þinglýsingabækur og uppfæra gögn úr núverandi þinglýsingarkerfi sem notað er við sýslumannsembættin í Reykjavík, á Ísafirði og í Hafnarfirði. Undirbúa þarf þau sveitarfélög sem öðlast forskráningarhlutverk í Landskrá fasteigna. Þau munu þurfa að tengjast tölvukerfi Landskrár með sama hætti og þinglýsingarstjórar. Hagfellt kann að vera fyrir tvö eða fleiri fámenn sveitarfélög að sameinast um skráningu í Landskrá fasteigna með rekstri sameigin­legra skráningarstofa. Að þessum undirbúningi loknum þarf að yfirfæra upplýsingar, leiðrétta misræmi í skráningu og leggja mat á núverandi skráningarupplýsingar. Í öðru frumvarpi sem lagt er fram samhliða þessu frumvarpi um breytingar á þinglýsingalögum, er að finna nánari ákvæði um hvernig bregðast skuli við misræmi í skráningu.
    Fyrst um sinn er einungis gert ráð fyrir skráningu upplýsinga um fasteignir í Landskrá sem áreiðanlegar þykja, svo og skráningu upplýsinga um nýjar fasteignir. Ekki er í frumvarpi þessu gerð tilraun til að taka á óvissu sem fyrir hendi er í núverandi skrám um afmörkun fasteigna. Frumvarpið er fyrst og fremst hugsað sem skref í átt að framtíðarskipulagi fasteignaskráningar í landinu. Næstu skref áleiðis að því markmiði felast m.a. í hnitasetningu eignamarka á landi sem er nauðsynleg forsenda fyrir gerð landeignaskrár fyrir landið allt, en nú er engin slík skrá fyrir hendi. Brýn þörf er á myndun slíkrar skrár á næstu árum til að eyða óvissu um eignamörk á landi og auðvelda gerð korta af landi með eignamörkum á stafrænu formi. Upplýsingar í landeignaskrá munu jafnframt nýtast sem stoðgögn í land­upplýsingakerfum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í þessari grein kemur fram að Fasteignamat ríkisins fari með yfirstjórn fasteignaskrán­ingar og annist daglegan rekstur gagnasafns þar að lútandi. Gagnasafninu er gefið heitið Landskrá fasteigna. Áskilið er að gagnasafnið skuli vera á tölvutæku formi sem gerir mögu­lega frekari úrvinnslu þeirra upplýsinga sem þar eru geymdar. Meginbreytingin frá gildandi lögum er að jafnframt er tekið fram að skráin skuli vera grundvöllur annarra opinberra skráa um fasteignir, þ.e. þinglýsingabókar, matsskrár fasteigna og húsaskrár Hagstofu Íslands, þjóðskrár. Loks er þess getið að Landskrá fasteigna skuli nýtast sem stoðgögn í landupp­lýsingakerfum. Með því er átt við að stafræn kort um eignamörk lands og önnur atriði skuli hafa tilvísun í afmörkun fasteigna samkvæmt Landskrá fasteigna.

Um 2. gr.

    Ákvæði þetta var áður í 2. málsl. 1. gr. laganna. Hér er því ekki um nýmæli að ræða heldur er með breytingunni lögð aukin áhersla á skráningarhlutverk Fasteignamats ríkisins þar sem mat fasteigna er fremur úrvinnsla upplýsinga sem áður hafa verið skráðar.

Um 3. gr.

    Hér er lögð til breyting á skilgreiningu hugtaksins fasteign frá gildandi lögum. Fyrri skilgreining var óheppileg með tilliti til hefðbundinnar skilgreinar á fasteign samkvæmt eignarrétti og auðkenningar á einstökum skikum jarða með landnúmerum. Fasteignar­hugtakið er nú í samræmi við skilgreiningu í eignarrétti, þ.e. að fasteign sé afmarkaður hluti lands, ásamt lífrænum og ólífrænum hlutum þess, réttindum sem því fylgja og þeim mannvirkjum sem varanlega eru við landið skeytt. Auk þess felst í skilgreiningunni að unnt sé að veðsetja í einu lagi þessa hluta. Með þessari viðbót er fasteign jafnframt skilgreind sem veðandlag. Af því má draga þá ályktun að þeir hlutar stærri fasteignar sem unnt er að veðsetja, teljast vera sérstakar fasteignir samkvæmt lögunum. Sem dæmi um þetta má nefna séreignarhluta í fjöleignarhúsi og mörg hús atvinnufyrirtækis sem standa á sömu lóð.
    Jafnframt eru hér skilgreindar svonefndar skráningareiningar í skrá Fasteignamats ríkisins sem mynda eina fasteign eða mannvirki. Slíkar skráningareiningar eru land, mannvirki, sér­eignarhlutar fjöleignarhúsa, hlutar mannvirkja, ræktun, hlunnindi og önnur réttindi. Heimilt er með reglugerð að bæta við fleiri skráningareiningum fyrir einstakar hluta fasteigna.

Um 4.–6. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 7. gr.

    Meginbreyting á efni laganna felst í því að á eftir II. kafla er bætt við nýjum kafla sem skiptist í átta greinar er fjalla um Landskrá fasteigna.
    Í a-lið er mælt fyrir um samsetningu gagnasafnsins Landskrár fasteigna. Skipting Land­skrárinnar í einstaka hluta þjónar bæði þeim tilgangi að greina á milli þess hvers eðlis upp­lýsingarnar eru og jafnframt er með skiptingunni gert ráð fyrir að um dreift gagnasafn geti verið að ræða. Með dreifðu gagnasafni er átt við gagnasafn sem samsett er af ýmsum skrárhlutum sem samþættir eru yfir tölvunet. Gagnvart notendum Landskrár skiptir hins vegar engu máli hvort um miðlægt eða dreift gagnasafn er að ræða þar sem upplýsingar úr Landskrá munu birtast sem ein heild hjá notendum.
    Í stofnhluta Landskrár eru geymdar grunnupplýsingar er varða auðkenni og afmörkun fasteigna. Með afmörkun er átt við afmörkun fasteigna með hnitum. Þessi hluti Landskrár­innar er sameiginlegur kjarni hennar þar sem fasteignir eru skilgreindar. Aðrir hlutar Land­skrár sækja í stofnhlutann grunnupplýsingar um fasteignir. Að þessu leyti má líkja stofnhlut­anum við fyrirtækjaskrá og þjóðskrá Hagstofu Íslands sem skilgreina lögpersónur og einstak­linga. Við upplýsingum í stofnhluta verða einungis hreyft með þinglýsingu nýrra upplýsinga. Í þessu felst helsta nýmæli Landskrár fasteigna fyrir fasteignaskráningu, þ.e. að grunnupp­lýsingum er ekki unnt að breyta nema með lögformlegum hætti. Einstakir skráningaraðilar hafa því ekki sjálfdæmi um þær upplýsingar sem geymdar eru í stofnhluta. Undir stofnhluta Landskrár fellur einnig væntanleg landeignaskrá sem fjallað er um í skipulags- og byggingar­lögum, nr. 73/1997, þar sem mörk landa og lóða verða skilgreind með hnitum. Hugtakið landeignaskrá er hér notað yfir skrá er geymir framsetningu eignamarka lands með hnitum. Slík skrá skal grundvölluð á afmörkun landa og lóða samkvæmt upplýsingum úr þinglýstum heimildarskjölum þar sem þess er kostur. Ekki er í þessu frumvarpi tekin afstaða til þess hvernig staðið skuli að gerð landeignaskrár. Hins vegar er ljóst að mikilvæg forsenda fyrir gerð hennar er myndun Landskrár fasteigna með samruna skrár Fasteignamats ríkisins og þinglýsingabóka. Önnur forsenda fyrir gerð landeignaskrár er að til sé nægilega þéttriðið net grunnmælipunkta í samræmdu landshnitakerfi svo mæla megi mörk jarða með nauðsynlegri nákvæmni. Þriðja forsendan fyrir gerð landeignaskrár er að til verði stétt löggiltra landmælingamanna sem hafi til að bera nauðsynlega þekkingu. Þetta er ekki síst nauðsynlegt þar sem hnitasetning jarðamarka felur í sér ákvörðun um afmörkun lands í stofnhluta Landskrár fasteigna. Þar sem landeignaskrá kemur til með að leysa af hólmi landamerkja­skrár jarða samkvæmt lögum nr. 41/1919, um landamerki, er nauðsynlegt að dómsmálaráðu­neyti taki þátt í setningu reglna um gerð landamerkjaskrár og löggildingu landmælinga­manna. Jafnframt verði samráð haft við umhverfisráðuneyti vegna Landmælinga Íslands um setningu slíkra reglna. Með afmörkun landa og lóða með hnitum í viðurkenndu hnitakerfi er átt við þau hnitakerfi sem nú eru notuð hjá þéttbýlissveitarfélögum, þ.e. sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og stærri bæjarfélögum úti um land, eða hið nýja landshnitakerfi, ISN-93 (Íslandsnet 1993).
    Til mannvirkjahluta heyra ýmsar byggingarfræðilegar upplýsingar um mannvirki svo sem skráningartöflur, flatarmál og stærðir ýmiss konar, byggingarefni og samþykktar bygginga­nefndarteikningar. Um skráningartöflur mannvirkja er nánar fjallað í reglugerð nr. 471/1997, um eignaskiptayfirlýsingar, útreikning hlutfallstalna o.fl. í fjöleignarhúsum.
    Með álagningarupplýsingum er átt við skattflokk fasteignaskatts og aðrar upplýsingar er máli skipta við álagningu fasteignagjalda. Fasteignamatshluti geymir ýmsar forsendur fyrir virðingu fasteigna ásamt upplýsingum um matsverð. Undir þinglýsingahluta falla áður taldar upplýsingar úr stofnhluta auk annarra upplýsinga er þinglýsingabók geymir. Loks eru í ákvæðinu tekin af öll tvímæli um að þinglýsingarhluti Landskrár lúti ákvæðum þinglýsinga­laga. Í því felst að dómsmálaráðuneyti hefur forræði þinglýsingarhluta Landskrár fasteigna og upplýsinga er hann geymir.
    Í b-lið er mælt fyrir um að Fasteignamat ríkisins forskrái grunnupplýsingar í stofnhluta Landskrár fasteigna. Mikilvægur hluti af hagræði því sem felst í sameiginlegri gagnavinnslu skráningaraðila er að stefnt er að því að hvert upplýsingaatriði verði aðeins fært einu sinni í gagnasafnið. Í þessu skyni verða upplýsingar um myndun eða breytingu fasteignar fyrst forskráðar hjá Fasteignamati ríkisins, eða byggingarfulltrúa eftir atvikum, og að lokum staðfestar með þinglýsingu. Með forskráningu er átt við að efni skjals sé fært til bráðabirgða á svokallaða biðskrá. Þýðingarmikið atriði er að forskráning er einungis til bráðabirgða og eru réttaráhrif skráningarinnar því bundin við þá staðfestingu sem felst í þinglýsingunni.
    Í c-lið er fjallað landnúmer sem er skráningarlegt auðkenni landskika í Landskrá fasteigna. Sé fasteign, t.d. jörð, mynduð af fleiri en einum landskika fær hver skiki sérstakt landnúmer. Slíkt auðkenni ásamt afmörkun lands er ein meginforsenda þess að til verði landupplýsingakerfi er sýni eignamörk lands. Til þess að fullgera megi væntanlega landeignaskrá er ráð fyrir því gert að opin svæði og götur í þéttbýli sem falla utan afmarkaðra lóða og landsvæði fái sérstakt landnúmer. Slík svæði má færa undir einu land­númeri eða fleiri í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Á sama hátt er gert ráð fyrir að þjóðlendur og afréttarlönd sem liggja utan marka lögbýla beri landnúmer. Gert er ráð fyrir að þörfin fyrir útgáfu landnúmera fyrir opin svæði og götur í þéttbýli annars vegar, og þjóðlendur og afréttarlönd í dreifbýli hins vegar, verði ekki að fullu ljós fyrr en hafist verður handa við gerð landeignaskrár. Úthlutun landnúmera er í höndum Fasteignamats ríkisins. Í framkvæmd verður það tölvukerfi Landskrár fasteigna sem úthlutar númerunum þegar ný landeign er mynduð, en gert er ráð fyrir að grunnkortagerð Landmælinga Íslands sé ein af forsendum fyrir gerð landeignaskrár.
    Í d-lið er lagt til að allar fasteignir beri skráningarlegt auðkenni, fastanúmer. Í tölvukerfi Fasteignamats ríkisins hafa þessi númer þegar verið tekin upp sem auðkenni fasteignar. Auk fastanúmers skal hver fasteign bera heiti samkvæmt ákvörðun sveitarfélags eða samkvæmt lögum um bæjanöfn o.fl. Með heiti er hér átt við götuheiti, húsnúmer og heiti séreignarhluta í fjöleignarhúsi. Fasteignamat ríkisins úthlutar fastanúmerum við forskráningu fasteignar. Hér er veitt heimild fyrir ráðherra til að setja reglugerð um heiti fasteigna annarra en þeirra sem falla undir lög um bæjanöfn o.fl. Í 29. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er ráð fyrir því gert að öllum götum, vegum og torgum í sveitarfélagi verði gefin nöfn og númer sem skuli þinglýsa. Rétt þykir að ráðherra setji um þetta reglur og hafi um það samráð við umhverfisráðherra vegna áðurnefndrar 29. gr. skipulags- og byggingarlaga.
    Í e-lið eru í fyrsta sinn sett ákvæði í lög um það hvernig fasteign verði mynduð í fasteignaskrá. Nýmæli er að til grundvallar myndun nýrrar fasteignar skuli liggja svonefnt stofnskjal. Í stofnskjali sem landeigandi gefur út skal tilgreina heiti landeignar samkvæmt ákvörðun sveitarfélags, landnúmer lands sem lóð er tekin úr og landnúmer þeirrar lóðar sem mynduð er, afmörkun lands og lóðar á uppdrætti sem skipulagsyfirvöld hafa staðfest, fastanúmer hverrar fasteignar sem mynduð er og nafn og kennitölu eiganda fasteignar. Fasteignamat ríkisins forskráir stofnskjal fasteignar í Landskrá fasteigna. Við þinglýsingu stofnskjals færist efni þess í stofnhluta Landskrár fasteigna og telst þá ný fasteign mynduð í skránni.
    Í 2. mgr. e-liðar er gert ráð fyrir að ráðherra sé heimilt að ákveða í reglugerð að í skjali er varðar landamerki eða lóðamörk skuli tilgreina hnit skurðpunkta markalína í viðurkenndu hnitakerfi. Nú þegar er unnt að taka upp skyldu til hnitasetningar nýrra lóða í svokölluðum þéttbýlissveitarfélögum, t.d. á höfuðborgarsvæðinu og í stærri bæjarfélögum úti um land. Mæliblöð með lóðarleigusamningum sem þessi sveitarfélög gefa út tilgreina að jafnaði afmörkun lóða með hnitum en í mismunandi hnitakerfum þó. Sveitarfélög í dreifbýli eru misjafnlega í stakk búin til þess að afmarka nýjar lóðir með hnitum. Helsta hindrunin í því sambandi hefur verið skortur á samræmdu landshnitakerfi. Hafinn er undirbúningur að notkun slíks kerfis sem hlotið hefur nafnið ISN-93 (Íslandsnet 1993) og kemur það í stað eldra kerfis sem ber heitið Hjörsey-1955. Um þessar mundir stendur yfir undirbúningur að setningu reglugerðar um ISN-93 á vegum umhverfisráðuneytis. Með vísun til viðurkenndra hnitakerfa er átt við hnitakerfi þau sem eru í notkun hjá þéttbýlissveitarfélögum og nýtt landshnitakerfi, ISN-93. Rétt þykir að fjármálaráðuneytið hafi samráð við umhverfisráðu­neyti og Landmælingar Íslands þegar kemur að setningu reglugerða um afmörkun lóða með hnitum.
    Í f-lið. er fjallað um skráningu mannvirkja. Ekki er hér um nýmæli að ræða. Um myndun séreignarhluta í fjöleignarhúsi gilda sérstakar reglur samkvæmt lögum nr. 26/1994, um fjöleignarhús. Á grundvelli þeirra hafa verið settar reglur sem fjalla um skráningarskyld atriði fjöleignarhúsa og annarra mannvirkja. Hér segir að ráðherra megi mæla nánar fyrir um skráningarreglur mannvirkja og skyldur hönnuða í því sambandi. Um skráningu mann­virkja gildir nú reglugerð nr. 458/1998, um breytingu á reglugerð nr. 406/1978, um fast­eignaskráningu og fasteignamat, að því er varðar skráningu annarra fasteigna en fjöleignar­húsa. Með reglugerðarheimildinni er því skotið styrkari stoðum undir áðurnefndar skrán­ingarreglur.
    Í g-lið er mælt fyrir um hvernig fara skuli með skráningu þegar breytingar verða á fasteign, heiti hennar eða auðkenni að öðru leyti. Lögð er sú skylda á hendur sveitarstjórnar að tilkynna Fasteignamati ríkisins verði breytingar á heiti fasteignar, götuheiti eða hús­númeri. Fasteignamat ríkisins tilkynnir svo viðkomandi þing-lýsingar-stjóra um ráðgerða breytingu sem öðlast gildi við þinglýsingu. Jafnframt er kveðið á um að Fasteignamat ríkisins skuli tilkynna breytinguna til Hagstofu Íslands, þjóðskrár. Í tölvukerfi Landskrár fasteigna skal vera mögulegt að fletta upp fasteign eftir fyrra auðkenni hennar.
    Í h-lið er fjallað um skyldu landeiganda og sveitarfélags til að hlutast til um að ný landeign eða lóð verði mynduð með formlegum hætti í Landskrá fasteigna áður en til mannvirkjagerðar eða veðsetningar hennar kemur. Rökin fyrir að taka upp þessa skyldu eru þau helst að brýnt er að allar fasteignir verði skráðar í hið samhæfða gagnasafn, Landskrá fasteigna, enda er það forsenda fyrir frekari þinglýsingu skjala á hina nýju fasteign. Jafnframt er brýnt vegna gerðar landeignaskrár að haldnar verði upplýsingar um eignarhald á landi. Í mörgum tilvikum er landeigandi og sveitarfélag einn og sami aðili. Stendur þá sveitarfélagi, sem skipulagsyfirvaldi, næst að tryggja að ný lóð verði mynduð í Landskrá fasteigna með þinglýsingu stofnskjals. Þegar um eignarlönd annarra er að ræða er hér veitt heimild til að binda leyfi til mannvirkjagerðar á lóð því skilyrði að fasteign hafi áður verið mynduð með þinglýsingu stofnskjals.

Um 8. og 9. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 10. gr.

    Í 1. mgr. er mælt fyrir um gjaldtöku fyrir aðgang að gagnasafninu. Gert er ráð fyrir að Fasteignamat ríkisins afli og láti í té upplýsingar úr gagnasafninu og veiti notendum þess þjónustu við úrvinnslu á þeim gegn gjaldi. Jafnframt er gert ráð fyrir að ráðherra setji nánari reglur um aðgang almennings að gagnasafninu, úrvinnslu þeirra upplýsinga og gjaldtöku m.a. fyrir útgáfu vottorða.

Um 11. – 17. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 18. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.


Um ákvæði til bráðabirgða.

    Hér er gert ráð fyrir að dómsmálaráðuneytið annist yfirfærslu skráningarupplýsinga úr eldri skrám og bókum yfir í Landskrá fasteigna í samvinnu við Fasteiknamat ríkisins. Gert er ráð fyrir að sérstök framkvæmdanefnd verði aðilum til ráðgjafar og eftirlits við yfirfærslu fasteignaupplýsinga úr eldri skrám yfir í viðeigandi skrárhluta Landskrár fasteigna. Lagt er til að í nefndinni sitji fimm menn sem fjármálaráðherra skipar. Einn nefndarmaður verði tilnefndur af fjármálaráðherra sem verði formaður nefndarinnar, einn tilnefndur af dómsmálaráðherra, einn af umhverfisráðherra, einn af Hagstofu Íslands og einn af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir að yfirfærslunni verði lokið innan fimm ára frá gildistöku laganna.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 94/1976, með síðari breytingum.

    Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um breytingu á þinglýsingarlögum, nr. 39/1978. Með frumvörpunum er stefnt að myndun samhæfðs gagnagrunns um fasteignir og réttindi er tengjast þeim sem beri heitið Landskrá fasteigna. Hér er fjallað um áætluð áhrif beggja frumvarpanna á útgjöld ríkissjóðs og eru umsagnir fjárlagaskrifstofu með þeim báðum samhljóða.
    Samkvæmt frumvörpunum mun Landskrá fasteigna skiptast í stofnhluta fyrir skil­greiningar og upplýsingar um afmörkun fasteigna, mannvirkjahluta fyrir byggingafræðilegar upplýsingar, fasteignamatshluta fyrir upplýsingar um matsforsendur og niðurstöður og þing­lýsingarhluta fyrir upplýsingar um þinglýsta eigendur og eignarhlut þeirra ásamt upp­lýsingum um veðbönd, kvaðir og önnur atriði sem þinglýsingabók inniheldur. Frumvörpin miða að því að samræma þinglýsingabækur og fasteignaskrár Fasteignamats ríkisins en for­senda fyrir því er að þinglýsingabækur sýslumannsembætta verði á tölvutæku formi sem samhæft verði við skrá Fasteignamats ríkisins.

Stofnkostnaður.
    Smíði hugbúnaðarkerfis fyrir Landskrána hefur staðið yfir undanfarin ár og er að mestu lokið. Sú uppbygging hefur að hluta verið fjármögnuð með tekjum fyrir afnot af núverandi skrá Fasteignamats ríkisins. Einnig hafa verið veitt sérstök framlög til verkefnisins í fjárlögum. Frá árinu 1993 til yfirstandandi árs hafa verið veittar alls um 50 m.kr. til Fasteignamats ríkisins en því fé hefur að stórum hluta verið varið til hönnunar kerfisins og til skilgreiningar á verklagsreglum við skráningu fasteigna. Dómsmálaráðuneytið hefur einnig varið um 12 m.kr. af sameiginlegum fjárlagalið sýslumanna til uppbyggingar á nýja þinglýsingarkerfinu undanfarin þrjú ár. Því til viðbótar voru veittar 8 m.kr. í fjáraukalögum ársins 1998 til tilrauna, hugbúnaðarsmíði og gangsetningar á þinglýsingarhluta kerfisins hjá þremur sýslumannsembættum og aðrar 8 m.kr. í fjárlögum þessa árs.
    Sá stofnkostnaður sem eftir er að fjármagna felst að stærstum hluta í færslu upplýsinga í nýjan þinglýsingarhluta Landskrárinnar. Annars vegar er þar um að ræða skráningu upplýsinga úr þinglýsingabókum. Hins vegar er um að ræða yfirfærslu gagna úr eldra þinglýsingarkerfi, sem nú er starfrækt hjá Skýrr hf. fyrir sýslumannsembættin í Reykjavík, Hafnarfirði og Ísafirði. Í báðum tilvikum er gert ráð fyrir sérstakri yfirferð til að sannreyna færslurnar en þá þarf lögfræðingur að bera saman innslátt í tölvukerfi, þinglýsingabækur og skjöl og að því loknu að staðfesta færsluna. Ekki er gert ráð fyrir að starfsmenn viðkomandi embætta vinni að innslættinum ásamt öðrum störfum heldur þurfi að koma til viðbótar­vinnuframlag sem greiða þarf sérstaklega fyrir. Til álita kemur að valinn hópur fari um landið til að annast verkið og er stefnt er því að yfirfærslu upplýsinganna verði lokið á fimm árum. Þá fellur til kostnaður í tengslum við uppsetningu og gangsetningu á þessum hluta kerfisins.
    Kostnaður við yfirfærslu gagnanna hefur verið metinn á 700 kr. fyrir hverja fasteign með hliðsjón af tilraunaverkefni sem staðið hefur yfir hjá embætti sýslumannsins í Kópavogi. Er þá miðað við að 35 mínútur þurfi til að tölvuskrá og staðfesta hverja eign og að sá tími skiptist jafnt á milli skrifstofumanns og lögfræðings. Heildarfjöldi þinglýstra fasteigna og jarða er áætlaður um 133 þúsund í lok ársins 1998. Þar af eru um 54 þúsund eignir skráðar í eldra tölvukerfi fyrir þinglýsingar hjá Skýrr hf. Afganginn, um 79 þúsund eignir, þarf að yfirfæra úr þinglýsingabókum og er kostnaður við það áætlaður 55 m.kr. Gert er ráð fyrir að um 5 m.kr. af fjárveitingu dómsmálaráðuneytisins í gildandi fjárlögum nýtist til að mæta þeim útgjöldum.
    Kostnaður í tengslum við flutning og umbreytingar á gögnum sem nú eru vistuð í eldra þinglýsingarkerfi hjá Skýrr hf. er lauslega áætlaður um 2 m.kr. Einnig er talið að u.þ.b. 10% misræmi sé á milli skráninga sýslumanna í því kerfi og í kerfi Fasteignamats ríkisins sem þurfi að leiðrétta við yfirfærsluna. Miðað er við að það taki 15 mínútur að meðaltali fyrir hverja eign og að vinna við þennan verkþátt kosti um 2 m.kr.
    Þá er gert ráð fyrir um 6 m.kr. útgjöldum vegna vinnu tölvuþjónustuaðila við uppsetningu tölvukerfisins hjá hverju sýslumannsembætti og kennslu á það. Útgjöld vegna frekari þróunar á hugbúnaðinum næstu árin og tengingu kerfisins við tekjubókhaldskerfi ríkisins eru talin nema um 5 m.kr. Loks eru ráðgerð kaup á tölvubúnaði, bæði fyrir skráningarstarfsmenn og lögfræðinga að fjárhæð 1 m.kr.
    Þegar allt er talið er stofnkostnaður dómsmálaráðuneytisins áætlaður eftirfarandi:
              M.kr.
    Yfirfærsla úr þinglýsingabókum og staðfesting          50
    Flutningur gagna úr eldra kerfi hjá Skýrr hf. og leiðrétting          4
    Uppsetning á þinglýsingarkerfi, búnaður og kennsla          7
    Þróun hugbúnaðar          5
    Samtals          66
Rekstrarkostnaður.
    Gert er ráð fyrir að rekstrarkostnaður þinglýsingarkerfisins verði fjármagnaður af núverandi fjárveitingum til safnliða dómsmálaráðuneytis og sýslumannsembætta og er raunar talið að kerfið muni leiða til margvíslegs vinnuhagræðis og sparnaðar í rekstri embættanna. Árlegur kostnaður við rekstur eldra þinglýsingakerfis hjá Skýrr hf. hefur verið innan við 1 m.kr. og reiknað er með því að hann falli smám saman niður en þar verða fyrst um sinn vistaðar áfram upplýsingar um þinglýsingar bifreiða. Hins vegar er gert ráð fyrir aukinni fjárþörf hjá dómsmálaráðuneytinu vegna 1,4 m.kr. kostnaðar við þjónustusamning fyrir nýja þinglýsingarkerfið.
    Þá er áætlað að rekstrarkostnaður tölvukerfa hjá Fasteignamati ríkisins aukist um 15 m.kr. ári vegna aukins umfangs kerfisins og aukinnar þjónustu í tengslum við það.
    Í athugasemdum með frumvarpi til breytingar á lögum nr. 94/1976, um skráningu og mat fasteigna, kemur fram að fyrirhugað er að koma á fót fimm manna framkvæmdanefnd til að hafa eftirlit með yfirfærslu upplýsinga úr eldri skrám í nýtt kerfi næstu fimm árin. Reiknað er með að útgjöld vegna nefndarinnar verði um 0,5 m.kr. á ári.
    Fyrirhugað er að við myndun Landskrár fasteigna falli niður afnotagjöld sem sýslu­mannsembætti og ríkisskattstjóri hafa greitt fyrir aðgang að fasteignamatsskrám. Miðað er við að fjárveitingar í fjárlögum lækki vegna þessa um 9,5 m.kr. hjá sýslumannsembættum og um 5,5 m.kr. hjá ríkisskattstjóra en færist í staðinn sem framlag til Fasteignamats ríkisins. Gjaldskrá fyrir sölu upplýsinga úr Landskránni hefur að öðru leyti ekki verið útfærð á þessu stigi að því marki að unnt sé að setja fram áætlanir um breytta tekjuöflun en líklegt þykir að auka megi tekjur nokkuð frá því sem nú er.