Ferill 414. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 907  —  414. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um alþjóðleg viðskiptafélög.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Minni hluti efnahags og viðskiptanefndar getur ekki mælt með samþykkt þessa frumvarps og tengds frumvarps um skattamál alþjóðlegra viðskiptafélaga, að svo stöddu.
    Allt of lítill tími hefur gefist til að skoða málið og álitamál sem því eru tengd. Má þar m.a. nefna eftirfarandi:
     1.      Skoða þyrfti samhengi þessa máls við skattalöggjöfina að öðru leyti, möguleg áhrif af upptöku slíkra vildarskattakjara fyrir alþjóðleg viðskiptafélög á tvísköttunarsamninga o.fl., sbr. umsögn ríkisskattstjóra sem fylgir áliti þessu. Einnig kynni að vera rétt að gera breytingar á íslensku skattareglunum, samhliða lögfestingu frumvarpsins um al­þjóðleg viðskiptafélög, t.d. að taka upp hér sérstakar reglur um „samstæðuskattlagn­ingu“ innlendra móðurfyrirtækja og erlendra dótturfyrirtækja, svonefndra CFC-skatta. Loks telja skattyfirvöld sig illa undir það búin að fást við þau mál sem upp kunna að koma í tengslum við slíka lagasetningu sem hér er fyrirhuguð.
     2.      Þróunin á alþjóðavettvangi, innan OECD og víðar, er í átt til að útrýma „vildakjarasvæðum“ og „lágskattahimnaríkjum“. Samkeppni milli ríkja eða svæða sem beinist að því að lokka til sín alþjóðafyrirtæki með skattafslætti hefur ýmsar neikvæðar hliðar. Skattbyrðinni er þá velt yfir á aðra aðila eða þætti, yfirleitt launafólk, eða launatengd útgjöld, í stað skattlagningar á fyrirtækin sjálf. (Sjá umsögn samtaka iðnaðarins, fylgi­skjal III, og fylgiskjöl með henni í ljósriti.)
     3.      Ekki verður horft fram hjá þeim möguleika að á Ísland falli neikvætt kastljós umfjöllunar um lágskattaparadís og vildakjör fyrir ýmiss konar starfsemi sem ekki yrði vel séð af ýmsum í kringum okkur. Í öllu falli væri heppilegra að undirbúa slíkar breytingar vel og kynna með jákvæðum formerkjum og góðum fyrirvara, áður en þær væru lögfestar.
     4.      Ástæða væri til að skoða þessar breytingar í samhengi við alþjóðlegar samningsskuldbindingar okkar, ekki síst EES-samninginn. Ekki er hægt að útiloka að til árekstra og klögumála kunni að koma á gráum svæðum sem samkeppnis- og jafnræðissviðum þess samnings tengjast.
     5.      Huga þarf að alþjóðlegum samningsskuldbindingum Íslendinga á sviði hugverksréttinda, sbr. umsögn Einkaleyfastofunar.
     6.      Loks má nefna að sá mikli munur sem verður á skattgreiðslum alþjóðlegra viðskiptafélaga hér á landi samkvæmt frumvarpinu og skattgreiðslum innlendra fyrirtækja er líkleg­ur til að valda óánægju, þrýstingi á að skattar á innlend fyrirtæki verði lækkaðir enn frekar en orðið er og jafnvel deilumálum.

Prentað upp.

    Með vísan til framanritaðs og upplýsinga sem fram koma í fylgiskjölum með nefndaráliti þessu telur minni hluti nefndarinnar óhjákvæmilegt að skoða þetta mál betur. Minni hlutinn útilokar ekki að eitthvert fyrirkomulag af því tagi sem frumvörpin gera ráð fyrir geti komið til greina og nýst t.d. innlendum fyrirtækjum á sviði sjávarútvegs til að staðsetja hér fyrirtæki á sínum vegum í alþjóðlegum viðskiptum. Ýmsar aðrar breytingar en þær sem hér eru lagðar til gætu hins vegar komið að sama gagni ef það væri megintilgangurinn. Allt of mörgum spurningum er hins vegar ósvarað til þess að réttlætanlegt sé að ákveða að halda út á þessa braut með almennri lagasetningu um vildarkjör fyrir alþjóðleg viðskiptafélög. Reyndar hlýtur að teljast mikið álitamál, í ljósi þróunar á alþjóðavettvangi, hvort það er skynsamlegt yfir höfuð.
    Víða erlendis er nú mikil umræða um þær hættur sem óheft hnattrænt fjármagnsflæði hef­ur í för með sér fyrir efnahag einstakra ríkja og fyrir efnahagslegan stöðugleika í einstökum ríkjum, heilum heimshlutum og jafnvel heiminum öllum. Hnattrænu áhættufjármagni er víða í textum líkt við stjórnlausa ófreskju og reynsla margra ríkja, svo sem í Austur-Evrópu, Asíu og Mið- og Suður-Ameríku, af viðskiptum við það er vægast sagt misjöfn. Viðfangsefnið á komandi árum ætti því fremur að vera það að ná alþjóðlegri samstöðu um að stemma stigu við spákaupmennsku og braski og sókn hins gráðuga hnattræna áhættufjármagns í skyndi­gróða á kostnað efnahagslegs stöðugleika og hagsældar einstakra þjóðríkja. Fyrirhuguð laga­setning um alþjóðleg viðskiptafélög vísar í öfuga átt.
    Minni hlutinn leggur því til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 23. febr. 1999.



Steingrímur J. Sigfússon.



Fylgiskjal I.
    

Skattar í paradís?
(Vísbending, vikurit um viðskipti og efnahagsmál.
12. febrúar 1999, 6. tölublað, 17. árgangur.)

    Einn af fylgifiskum aukins frelsis í viðskiptum og fjármagnsflutningum er að auðveldara er að fela fé fyrir skattyfirvöldum. Ýmis smáríki, sérstaklega í Karíbahafinu, hafa boðið slíkt fjármagn velkomið og hagnast á ýmiss konar rekstri og gjöldum af þjónustu sem tengist fjár­vörslu. Lengi vel var þetta tiltölulega smár þyrnir í augum hinna stærri ríkja vegna þess að það var tiltölulega erfitt að nýta sér það skattaskjól sem hugsanlegt var að skýlast í með þessum hætti. Það hefur breyst og nú hefur Efnahags- og þróunarstofnunin (OECD) verið sett í málið og hefur unnið að áætlun um það hvernig hægt er að draga úr þeim skaða sem af slíkri starfsemi leiðir.

Vildarskattar.

    Yfirleitt er verulegur munur á skattkerfum ólíkra landa og þótt OECD-lönd setji sig á háan hest er að finna einhver vildarkjör varðandi skatta í flestum þeirra. Oft snúa þessi vild­arkjör að útlendingum og eru svokallaðir „utanstrandasjóðir“ (e.: Off-shore funds) dæmi um slíkt. Ekki er sóst eftir beinni erlendri fjárfestingu en þetta veldur því hins vegar að skatt­stofn annars ríkis lækkar. Síðustu fimmtán ár hafa nær öll OECD-lönd tekið upp einhvers konar vildarkjör. Á sama tímabili hefur fjöldi skattaparadísa meira en tvöfaldast. Um 200 milljarðar Bandaríkjadala eru nú varðveittir í lágskattaríkjum í Karíbahafinu og er það um fimmföldun að ræða síðan 1985. Fjöldi utanstrandasjóða hefur sjöfaldast á síðustu tíu árum.

Skýr afstaða.

    Afstaða OECD er sú að lágir eða engir skattar séu í sjálfu sér skaðlausir en þegar slíkt tengist öðrum lagalegum eða stjórnvaldsaðgerðum, svo sem „girðingum“ (e.: ring-fencing), skorti á gagnsæi eða skorti á upplýsingaskiptum þá sé hætta á skaða. Því er stefnan ekki sú að samræma skatthlutföll í ólíkum löndum, slíkt er þeim í sjálfsvald sett en gæta verður að eðlilegu eftirliti og samkeppnisráðum alþjóðlegs markaðsumhverfis. Því er mælt með því að löndin sammælist um „góðar venjur“ í skattlagningu. Einnig hafa löndin gengist undir það að útrýma óeðlilegum skattaívilnunum í sínu heimalandi fyrir lok árs 2005.

Skattaparadísir.

    Skattaparadís er skilgreind sem ríki sem býður útlendingum upp á aðstöðu til að víkja sér undan sköttum eigin heimalands. Nokkrir þættir eru sameiginlegir með skattaparadísum. Yfirleitt eru skattar lágir eða jafnvel engir, litlar kröfur eru um viðskiptaumhverfi og mikið vantar á gagnsæi laga og stjórnunar. Bankaleynd og ýmsar aðgerðir hindra upplýsingaskipti milli ólíkra landa.

Viðnám.

    Meðal þess sem OECD mælir með er að gerðar verði sérstakar ráðstafanir, svo sem að skattleggja sérstaklega móðurfyrirtæki sem hafa skráð dótturfyrirtæki í skattaparadísum. Sérstaka athygli þarf að veita þeim kjörum sem fyrirtæki sem hafa starfsstöðvar í ólíkum löndum nota í eigin viðskiptum (e.: Transfer pricing). Einnig eru löndin hvött til að segja upp hvers konar tvíhliða samningum sem hafa verið gerðir við þau lönd sem ekki fara eftir þeim viðmiðunum sem OECD setur fram. Lönd innan OECD eru einnig hvött til að auka inn­byrðis aðgerðir, svo sem upplýsingaskipti um skattaparadísir og ívilnanir. Valið sem löndin innan OECD standa frammi fyrir er annaðhvort að auka skattasamkeppnina og hella sér að fullu út í skattaívilnanir og þess háttar eða fara í alþjóðlegt samstarf til að draga úr skaðsemi skattaparadísa. Skattasamkeppni getur orðið jafnslæm fyrir löndin og viðskiptastríð sem orð­ið hafa öðru hvoru milli landa.

Skaðleg samkeppni?

    Þótt samkeppni sé yfirleitt talin til góðs þá á það sjaldnast við um samkeppni í skattamálum. Ef einhverjir komast upp með að greiða lægri skatta með því að flytja fé sitt úr landi flyst skattbyrðin einfaldlega yfir á hina sem það geta ekki og þar með er komið á ójafnvægi í kerfinu. Fjárfestingarákvarðanir sem eru teknar af skattalegum ástæðum eru bjagaðar og taka ekki endanlega mið af arðsemi fjárfestingarkostsins. Markmiðið hlýtur því að vera að allir séu að keppa á sömu forsendum. Slík samkeppni er eðlileg og leiðir til hagkvæmni en samkeppni sem byggist á mismunandi aðstöðu leiðir yfirleitt til yfirburðastöðu á viðkomandi sviði og bitnar jafnan á endanum á þjóðfélaginu.

Óljós landamæri.

    Meðal þeirra helstu vandamála í skattlagningu sem yfirvöld glíma við er skattlagning fjöl­þjóðafyrirtækja sem geta haft tækifæri til að flytja tekjur til þess lands sem býður hagstæð­asta skatta og skattlagning viðskipta sem fara fram á Internetinu. Hvernig er t.d. hægt að skattleggja kaup á hugbúnaði frá fyrirtæki í fjarlægu landi þar sem notandi hleður forrit niður á tölvuna sína?
Fylgiskjal II.


Umsögn Einkaleyfastofunnar.
(19. febrúar 1999.)


(2 bls. myndaðar Athugið pdf-skjalið.)


F.h. Einkaleyfastofunnar,
virðingarfyllst,
Gunnar Guttormsson.





Fylgiskjal III.


Umsögn Samtaka iðnaðarins ásamt fylgiskjölum.
(18. febrúar 1999.)


(2 bls. myndaðar Athugið pdf-skjalið.)


Samtök iðnaðarins,
Sveinn Hannesson
framkvæmdastjóri.



    Meðfylgjandi: Gögn frá OECD um skaðlega skattastarfsemi. (Sjá fskj. 1 og 2 í sérstöku ljósriti.)




Fylgiskjal IV.


Umsögn ríkisskattstjóra.
(17. febrúar 1999.)


(2 bls. myndaðar Athugið pdf-skjalið.)


Virðingarfyllst,
Indriði H. Þorláksson
ríkisskattstjóri.