Ferill 184. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 967  —  184. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um miðlun upplýsinga og samráð við starfsmenn í fyrirtækjum á Evrópska efna­hagssvæðinu.

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingvar Sverrisson frá Vinnumála­stofnun, Halldór Grönvold og Ara Skúlason frá Alþýðusambandi Íslands og Hrafnhildi Stefánsdóttur frá Vinnuveitendasambandi Íslands.
    Umsagnir um málið bárust nefndinni frá Alþýðusambandi Íslands og BSRB, Verslunar­ráði Íslands, Vinnuveitendasambandi Íslands, Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Ís­lenska álfélaginu hf.
    Með samþykkt frumvarpsins verða lögfest efnisatriði tilskipunar Evrópusambandsins 94/45/EB. Í tilskipuninni er kveðið á um að í fyrirtækjum og samsteypum fyrirtækja sem starfa í fleiri en einu landi bandalagsins, hafa a.m.k. 1.000 starfsmenn í ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu, eru með starfsstöðvar í a.m.k. tveimur EES-ríkjum og hafa a.m.k. 150 starfsmenn í hverju þeirra skuli stofna evrópskt samstarfsráð skipað fulltrúum starfsmanna eða að settar verði reglur í hverju fyrirtæki eða hverri samsteypu fyrirtækja um upplýsinga­miðlun til starfsmanna eða samráð við þá samkvæmt nánari reglum.
    Að mati nefndarinnar er heiti frumvarpsins nokkuð óþjált og leggur hún til að því verði breytt. Aðalheiti tilskipunarinnar hefur verið þýtt á íslensku sem „evrópskt samstarfsráð“ (e. European Works Council) og vísar það til þess ráðs þar sem upplýsingamiðlun og samráð við starfsmenn fer fram. Þrátt fyrir að efni frumvarpsins fjalli einnig um aðra þætti eins og stofnun ráðsins og setningu reglna um upplýsingamiðlun og samráð við starfsmenn þykir heppilegra að fyrirsögn frumvarpsins verði frumvarp til laga um evrópsk samstarfsráð í fyrir­tækjum.
    Enn fremur leggur nefndin til að gerðar verði ýmsar breytingar á frumvarpinu, bæði efnis­breytingar og orðalagsbreytingar. Helstu efnisbreytingar eru þessar:
     1.      Í 4. gr. frumvarpsins er hugtakið fyrirtækjahópur skilgreint. Í athugasemdum með greininni kemur fram að það ráðist af 5. gr. frumvarpsins hvort einstök fyrirtæki hafi þau inn­byrðis tengsl að um fyrirtækjahóp sé að ræða. Í 5. gr. er að finna skilgreiningu á móður­fyrirtæki og dótturfyrirtæki og í 4. mgr. 5. gr. segir að saman myndi móðurfyrirtækið og dótturfyrirtækið fyrirtækjahóp. Nefndin leggur til að í stað orðsins fyrirtækjahópur sé notað orðið fyrirtækjasamstæða. Í íslensku lagamáli hefur orðið samstæða verið not­að yfir fyrirtæki sem hafa þessi tengsl, t.d. í lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, og lögum um viðskiptabanka og sparisjóði, nr. 113/1996. Til samræmis þykir því æskilegra að nota hugtakið fyrirtækjasamstæða.
     2.      Kaflaheiti III. kafla frumvarpsins er að mati nefndarinnar fullþröngt. Kaflinn fjallar ekki eingöngu um ábyrgð aðalstjórnar á að stofna samstarfsráð eða samþykkja reglur um upplýsingamiðlun og samráð heldur er einnig að finna í honum m.a. almennar reglur um stofnun slíks ráðs og setningu slíkra reglna. Því þykir skýrara að kaflaheitið hafi víðari skírskotun.
     3.      Breytingar sem lagðar eru til á 15. gr. varða uppsetningu og eru til þess að gera greinina skýrari. Ekki eru gerðar efnisbreytingar á henni.
     4.      Nefndin leggur til að 2. málsl. 18. gr., þar sem kveðið er á um að skylt sé að láta afrit samninga sem gerðir hafa verið skv. 14. eða 15. gr. laganna fylgja tilkynningu til ráð­herra, falli brott. Að mati nefndarinnar er nægilegt að ráðherra sé tilkynnt að slíkur samningur hafi verið gerður. Í mörgum tilvikum getur verið fjallað um trúnaðarmál sem varða fyrirtæki miklu í slíkum samningum og þar sem samkvæmt frumvarpinu virðist ekki þjóna neinum sérstökum tilgangi að afhenda afrit þeirra til ráðuneytis leggur nefnd­in til að sá hluti greinarinnar falli brott.
     5.      Í frumvarpinu er jafnan talað um samstarfsráðið. Í kaflaheiti 19. gr. er það hins vegar kallað evrópskt samstarfsráð. Til samræmingar þykir nefndinni rétt að alls staðar í frumvarpinu sé sama heitið notað og að ætíð sé talað um samstarfsráðið. Svo að ljóst sé hvað átt er við með samstarfsráði leggur nefndin til að á eftir orðunum „evrópskt samstarfsráð“ í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins komi: hér eftir nefnt samstarfsráð.
     6.      1. mgr. 21. gr. frumvarpsins kveður á um að í samstarfsráði skuli sitja mest þrjátíu fulltrúar. Í 5. mgr. 21. gr. er hins vegar að finna reglu um hvernig skuli fækka fulltrúum séu þeir fleiri en átján. Í viðauka við tilskipun 45/94/EB er miðað við að fulltrúar séu þrjá­tíu og telur nefndin rétt að þeirri reglu sé fylgt.
     7.      Í 24. gr. frumvarpsins er fjallað um aukafundi sem heimilt er að óska eftir að haldnir verði með aðalstjórn fyrirtækis eða öðru hlutaðeigandi stjórnunarstigi. Breytingarnar sem lagðar eru til á þessari grein eru gerðar í þeim tilgangi að skýra nánar annars vegar hverjir eigi rétt á að sitja fund með stjórn fyrirtækis eða fá upplýsingar um þær sérstöku aðstæður sem fjallað er um í 1. mgr. Hins vegar er bætt við málsgrein þar sem skýrt er kveðið á um að aukafundur sem fjallað er um í 24. gr. hafi engin áhrif á heimildir aðal­stjórnar.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Arnbjörg Sveinsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 2. mars 1999.



Kristín Ástgeirsdóttir,


form., frsm.


Siv Friðleifsdóttir.


Einar K. Guðfinnsson.



Rannveig Guðmundsdóttir.


Katrín Fjeldsted.


Magnús Stefánsson.



Guðný Guðbjörnsdóttir.


Pétur H. Blöndal.