Ferill 592. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1005  —  592. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um Landsvirkjun, nr. 42/1983, með síðari breytingum.

Frá iðnaðarnefnd.



1. gr.

    Við 2. mgr. 2. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Landsvirkjun er einnig heimilt að stofna og eiga hlut í innlendum fyrirtækjum sem annast rannsóknar- og þró­unarverkefni, þó ekki að taka að sér ráðgjöf eða verktöku í samkeppni við önnur fyrirtæki á almennum markaði hér á landi. Þá er Landsvirkjun heimilt að eiga aðild að innlendum fyrirtækjum sem annast framleiðslu, flutning, dreifingu eða sölu orku.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta miðar að því að afla Landsvirkjun lagaheimildar til að eiga í fyrirtækjum innan lands sem takast á hendur rannsóknar- og þróunarverkefni eða framleiðslu, flutning, dreifingu eða sölu orku, þ.e. heits vatns, gufu og rafmagns.
    Með breytingum á lögum um Landsvirkjun sem gerðar voru á 121. löggjafarþingi var tek­in upp í 2. gr. laganna heimild fyrir Landsvirkjun til að hagnýta þá þekkingu og búnað sem fyrirtækið ræður yfir á sviði orkumála til verkefna erlendis með því að taka að sér verkefni fyrir fyrirtæki eða stofna og eiga hlut í erlendum fyrirtækjum sem annast rannsóknir, ráðgjöf eða aðra þjónustu á sviði orkumála eða aðra starfsemi tengda orkumálum. Ekki var þá gert ráð fyrir að til beinnar eignaraðildar Landsvirkjunar gæti komið að öðrum fyrirtækjum hér­lendis og tekið fram að til slíkrar þátttöku þyrfti því sérstaka lagaheimild.
    Frá því að starfsheimildir Landsvirkjunar voru auknar á þann hátt sem að framan getur hefur átt sér stað ör þróun hérlendis að því er varðar rannsóknir á orku- og orkunýtingarkost­um. Jafnframt er hafin endurskoðun á skipulagi og skipan orkumála.
    Í vinnslu eða undirbúningi eru ýmis verkefni á sviði orkumála með þátttöku orkufyrir­tækja þar sem þátttaka og eignaraðild Landsvirkjunar þykir æskileg, bæði af hálfu annarra verkefnisaðila og af hálfu Landsvirkjunar. Má sem dæmi taka fyrirhugað félag um rannsókn­ir á háhitasvæðinu í Öxarfirði og innlent félag sem hefur verið stofnað vegna rannsókna og þróunar á vetni og notkun þess. Að óbreyttum lögum getur Landsvirkjun ekki gerst eignar­aðili að slíkum félögum og er frumvarpi þessu ætlað að bæta úr því. Jafnframt miðar frum­varpið að því að veita Landsvirkjun heimild til að stofna og eiga hlut í innlendum fyrirtækj­um sem stofnuð kynnu að vera til að framleiða, flytja, dreifa eða selja orku. Eignaraðild Landsvirkjunar að slíkum fyrirtækjum gæti hvort heldur komið til í framhaldi af einstökum rannsóknar- og þróunarverkefnum, hún tengst breytingum á skipan orkumála eða eignarhaldi nýrra virkjana.
    Í frumvarpinu felst hvorki heimild til eignaraðildar að fyrirtækjum á öðrum sviðum né til að taka að sér ráðgjöf eða verktöku hér á landi í samkeppni við önnur fyrirtæki á almennum markaði. Gert er ráð fyrir að stjórn og forstjóri Landsvirkjunar marki stefnu og taki ákvarð­anir um eignaraðild Landsvirkjunar að öðrum fyrirtækjum. Skuldbindingar sem slíkri eignar­aðild fylgja ber hins vegar að flokka með skuldbindingum sem 14. gr. laga um Landsvirkjun tekur til, en samkvæmt þeirri grein þarf Landsvirkjun að leita samþykkis eignaraðila að því leyti sem nýjar skuldbindingar og ábyrgðir fara fram úr 5% af höfuðstól (bókfærðu eigin fé í lok næstliðins árs) á ári hverju.