Ferill 597. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1061  —  597. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um könnun á hagkvæmni virkjunar Fjarðarár í Seyðisfirði.

Flm.: Arnbjörg Sveinsdóttir, Jón Kristjánsson, Egill Jónsson, Jónas Hallgrímsson.



    Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að láta kanna hagkvæmni þess að virkja Fjarðará í Seyðisfirði. Meðal annars verði athugað hvernig virkjunin fellur að núverandi orkuöflunar­kerfi og áformum um orkuöflun á Austurlandi. Könnuninni verði lokið fyrir 1. október 1999.

Greinargerð.


    Virkjun Fjarðarár í Seyðisfirði kann að vera hagkvæmur virkjunarkostur. Virkjunin gæti styrkt raforkuöflun Rafmagnsveitna ríkisins, annars vegar vegna aukinnar raforkuþarfar á almennum markaði á næstu árum og hins vegar vegna þess að Fjarðarárvirkjun fellur vel að orkuöflunarkerfi Rariks. Mikilvægt er að hagkvæmni þessa virkjunarkosts verði könnuð sem fyrst og er samkvæmt tillögunni gert ráð fyrir að því verði lokið fyrir 1. október 1999.
    Samkvæmt nýjustu raforkuspá orkuspárnefndar er gert ráð fyrir að raforkueftirspurn al­menns markaðar muni aukast um 2% á ári að jafnaði til ársins 2025 eða um 50–60 GWst á ári. Til þess að mæta þeirri aukningu er full ástæða til að líta til meðalstórra virkjunarkosta sem nýtast fljótt og falla vel að stofnlínukerfum landsins. Einn slíkra kosta er virkjun í Fjarð­ará í Seyðisfirði, en 1989 kom út skýrsla um frumhönnun 20 MW virkjunar þar. Skýrslan var unnin fyrir Rafmagnsveitur ríkisins af Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens hf.
    Um er að ræða virkjun með miðlunarlóni á Fjarðarheiði, sem nýtti fall Fjarðarár niður fyrir Fjarðarsel. Fjarðará yrði stífluð við Heiðarvatn og Miðhúsaá á Norðurbrún, en þar á milli yrði miðlunarlónið, um 3,3 km2 að flatarmáli og með um 32 Gl rými. Frá stíflunni við Heiðarvatn yrði lögð aðrennslis- og þrýstipípa um 6,9 km leið út eftir Haugsmýrum, fram á Bæjarbrún og niður að stöðvarhúsi við Fjarðarsel.
    Heildarfallhæð yrði um 580 m og er gert ráð fyrir virkjuðu rennsli sem næmi 4,3 m3/s. Afl yrði um 20 MW og orkugeta hefur verið áætluð um 115 GWst á ári. Orkuvinnsla virkjunar­innar sjálfrar yrði þó minni, en hlutfallslega hátt miðlunarstig virkjunarinnar gerir það að verkum að aðrar virkjanir í raforkukerfinu geta unnið meiri orku en ella. Óvenjustór hluti af framleiðslu Fjarðarárvirkjunar kæmi úr miðluðu vatni og á vetrartíma, en í raforkukerfi með fullri samkeppni leiddi það til hærra söluverðs orkunnar.
    Fjarðarárvirkjun yrði tengd inn á 66/132 kV línu sem Rafmagnsveiturnar byggðu nýlega frá aðveitustöðinni Eyvindará við Egilsstaði yfir Fjarðarheiði til Seyðisfjarðar. Væntanlegt stöðvarhús virkjunarinnar yrði um 600 m frá línunni og tengikostnaður því mjög lágur. Teng­ing Fjarðarárvirkjunar inn á stofnlínukerfi Rariks er því mjög einföld og gagnvart megin­flutningskerfi landsins hefði virkjunin mjög jákvæð áhrif. Auðveldara yrði að ráða við trufl­anir í meginflutningskerfinu og spara mætti fjárfestingar í launaaflsvirkjum á Austurlandi sem ella væri þörf á upp úr aldamótum.
    Nauðsynlegt er að gera frekari rannsóknir á virkjunarstað áður en verkhönnun er gerð og mat á umhverfisáhrifum er auglýst. Gera verður ráð fyrir að undirbúningstíminn sé a.m.k. eitt og hálft ár áður en hægt verður að bjóða verkið út. Verktíminn er síðan áætlaður þrjú ár.



Fylgiskjal I.


Greinargerð Rafmagnsveitna ríkisins um Fjarðarárvirkjun.

1. Inngangur.
1.1.
    Skýrsla um frumhönnun Fjarðarárvirkjunar í Seyðisfirði kom út árið 1989. Skýrslan var gerð fyrir Rafmagnsveitur ríkisins af Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens hf. Áður hafði farið fram frumkönnun á jarðlögum og mögulegu byggingarefni, og virkjunarsvæðið hafði verið kortlagt í mælikvarðanum 1:10.000. Til voru eldri ósamfelldir uppdrættir af hluta svæðisins í mælikvarðanum 1:2000 og voru þeir notaðir við áætlanir um stíflur.
    Ljóst var að virkjunin yrði að byggjast á verulegri vatnsmiðlun á Fjarðarheiði með hækk­un vatnsborðs í Heiðarvatni og næsta umhverfi vatnsins. Bornar voru saman mismunandi virkjunarleiðir, bæði virkjun fallsins í einu lagi og í tveimur þrepum, og einnig mismunandi nýting mögulegrar fallhæðar. Helstu niðurstöður urðu að virkjun í einu þrepi yrði hagkvæm­ust, en ekki var endanlega skorið úr um hvort virkja skyldi fremur beint úr Heiðarvatni eða inntakslóni á Efri Staf. Fyrrnefnda tilhögunin gefur meiri fallhæð, en með virkjun af Efri Staf nýtist meira rennsli. Í frumhönnun var gert ráð fyrir virkjun af Efri Staf, en nú er fremur hall­ast að virkjun beint úr Heiðarvatni, m.a. af því að rekstraröryggi verður þá væntanlega meira.
    Heildarfallhæð virkjunar úr Heiðarvatni verður um 580 m og er gert ráð fyrir 4,3 m³/s virkjuðu rennsli. Afl verður um 20 MW og orkugeta hefur verið áætluð um 115 GWh/a.
    Reglulegar vatnamælingar í Fjarðará hófust árið 1931 við Fjarðarsel, en mælistaðurinn hefur verið á Neðri Staf síðan 1953. Samfelldar rennslisskýrslur hófust 1. sept. 1958.
    Auk rennslis Fjarðarár er gert ráð fyrir að nýta vatn úr Miðhúsaá sem fellur vestur af Fjarðarheiði til Lagarfljóts. Miðlunarlón mun samkvæmt frumhönnun ná yfir þvera Fjarðar­heiði frá útfalli Heiðarvatns að Norðurbrún þar sem Miðhúsaá fellur vestur af.
    Heildarkostnaður fyrir 20 MW virkjun er áætlaður um 3.320 millj. kr. á verðlagi í janúar 1998. Undirbúningstími er áætlaður eitt og hálft ár en framkvæmdatími þrjú ár.

2. Lýsing mannvirkja.
    Lega virkjunarsvæðisins er sýnd á meðfylgjandi teikningu. Fjarðará er stífluð við Heiðar­vatn og Miðhúsaá á Norðurbrún. Þar á milli verður miðlunarlónið, um 3,3 km² með vatns­borði í yfirfallshæð 591 m y.s. Nýtanleg miðlun með niðurdrætti niður í 573 m y.s. verður um 32 Gl. Gert er ráð fyrir veitum úr Kötluvatni, Vatnshæðará og Þverá í lónið. Frá stíflunni við Heiðarvatn liggur aðrennslis- og þrýstipípa um 6,9 km leið að stöðvarhúsi við Fjarðarsel.

2.1. Stíflur.
    Jarðstíflur eru ráðgerðar bæði við Heiðarvatn og í Miðhúsaá og verður Heiðarvatnsstíflan mun stærri. Gert er ráð fyrir að stíflan í Miðhúsaá verði jafnframt yfirfall úr lóninu, hönnuð fyrir rennsli allt að 120 m³/s yfir stíflukrónuna. Fláinn frá vatni er þá tiltölulega flatur með öflugri grjótvörn til að standast vatnsrennslið. Stíflurnar verða annars hefðbundnar jarðstífl­ur með þéttikjarna úr jökulruðningi. Af jarðefnum til stíflugerðar er þó aðeins jökulruðning­ur nærtækur, auk grjóts sem víða má sprengja úr klöppum. Reiknað er því með að nota jökul­ruðninginn í eins miklum mæli og mögulegt er, bæði í þéttikjarna og stoðfyllingu. Grjót í fláavörn verður sprengt úr klöppum í grennd við stíflustæðin og þar fellur til úrgangsgrjót sem notað verður í stoðfyllingu að hluta til. Efni í malarsíur er ekki á Fjarðarheiði og yrði það að líkindum flutt frá Héraði, t.d. frá Mýnesi.
    Hætta á leka úr miðlunarlóni er ekki talin mikil en þó er reiknað með venjulegum berg­þéttingum í stíflugrunni.
    Botnrás er fyrirhuguð undir Heiðarvatnsstíflu, og er ráðgert að aðrennslispípan tengist botnrásinni neðan stíflunnar, en einnig verður mögulegt að hleypa vatni um botnrásina fram hjá virkjuninni.

2.2 Aðrennslis- og þrýstipípa.
    Pípuleiðin frá Heiðarvatni að stöðvarhúsi við Fjarðarsel er alls um 6.900 m löng. Á efri hluta leiðarinnar er gert ráð fyrir aðrennslispípu úr plasti (polyester) styrktri með glertrefj­um. Hún yrði niðurgrafin þar sem því verður við komið og lægi þá á þjappaðri möl, en yrði annars á steyptum stöplum og steypt inn í festla við stefnubreytingar.
    Í um það bil 400 m hæð y.s. í hlíðinni upp af Fjarðarseli tæki við þrýstipípa úr stáli, á steyptum stöplum ofan jarðar niður eftir fjallshlíðinni, en niðurgrafin þegar kemur niður á flatara land.
    Séð yrði fyrir þrýstingsjöfnun með því að leggja hliðargrein út frá aðrennslispípunni ofan við fjallsbrúnina um 2.200 m frá stöðvarhúsinu. Greinin yrði lögð upp eftir hlíðinni þvert á aðrennslispípuna og næði upp fyrir hæsta vatnsborð í Heiðarvatni. Vegna halla greinarinn­ar yrði flatarmál vatnsborðs í 1.200 mm víðri pípu nægilega stórt til að tryggja stöðugleika í rekstri og jafna þrýsting í þrýstipípunni við álagsbreytingar.

2.3. Stöðvarhús, vélar og rafbúnaður.
    Stöðvarhúsið yrði á bakka Fjarðarár um 120 m utan við gömlu rafstöðina við Fjarðarsel. Gerð hússins er venjubundin. Þar er auk vélasalar og hlaðrýmis gert ráð fyrir rými fyrir allan nauðsynlegan véla- og rafbúnað virkjunarinnar. Sprengt yrði fyrir húsinu inn í árbakkann og örstutt rás frá því út í árfarveginn. Grunnflötur vélasalar er 18,0 . 10,8 m², hæð á gólfi í vélasal 7,4 m y.s. en 8,5 m y.s. í hlaðrými. Gert er ráð fyrir viðbyggingu við húsið fyrir raf­búnað og stjórnbúnað virkjunarinnar, hreinlætisaðstöðu o.fl. Einnig er reiknað með húsi yfir 66 kV rofabúnað sem miðast við tvær 66 kV línur frá stöðinni.
    Ráðgerð er ein 20 MW vélasamstæða, Pelton hverfill á láréttum ási með snúningshraða 750 sn/mín. Tengivirki er ráðgert innan húss og allur véla- og rafbúnaður yrði af venjubund­inni gerð.

2.4. Vegagerð.
    Talsverðar vegaframkvæmdir verða nauðsynlegar vegna virkjunar Fjarðarár. Endurbyggja þyrfti um 8 km langan vegarkafla á Fjarðarheiði þar sem núverandi vegur liggur á svæði sem færi undir lónið. Ekki er gert ráð fyrir öðrum framkvæmdum við varanlega vegi, en reiknað er með samtals 10 km löngum vinnuvegum.

3. Orkuvinnsla.
    Orkugeta virkjunarinnar var á sínum tíma reiknuð hjá Verk- og kerfisfræðistofunni Streng. Reiknað var með virkjanakerfi (grunnkerfi) með Blönduvirkjun og 5. áfanga Kvísla­veitu en hvorugt hafði verið byggt þegar reikningarnir voru gerðir. Auk þess var í grunnkerf­inu reiknað með stækkun Búrfellsvirkjunar og Þórisvatnsmiðlunar, en nú eru þær fram­kvæmdir ekki fyrirhugaðar á næstunni. Álagskerfið var allt landið og álagsdreifingin 50% stóriðja og 50% almenn notkun. Miðað var við rennsli vatns árin 1950–83 og sá Orkustofnun um að vinna úr gögnum um rennsli Fjarðarár og Miðhúsaár. Með 30 Gl miðlun var áætlað að virkjunin bætti um 115 GWh/a við orku grunnkerfisins. Orkuvinnsla virkjunarinnar sjálfrar yrði þó minni, en miðlunin verður til þess að aðrar virkjanir í kerfinu vinna meiri orku en ella (samkeyrsluáhrif).
    Árið 1994 voru á verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens gerðar einfaldar rekstrareftirlík­ingar til að meta orkuvinnslu Fjarðarárvirkjunar í raforkukerfi Rariks á Austurlandi. Með 200 GWh/a markaði á svæðinu reiknaðist orkan frá Fjarðará um 85 GWh/a, þar af um 60 GWh/a vetrarorka mánuðina október til apríl. Aukning annars staðar í kerfinu vegna sam­keyrsluáhrifa kemur ekki fram hér.

4. Umhverfismál.
    Í meginatriðum eru umhverfisáhrif af völdum byggingar virkjunarinnar nokkuð ljós og er tiltölulega auðvelt að minnka þau neikvæðu áhrif sem kunna að verða. Virkjunarsvæðið er ekki talið mikilvægt fyrir það dýraríki sem þarna þrífst. Svæði sem fara undir vatn eru frem­ur gróðurlítil en kanna þarf til hlítar gróðurríkið eins og mosa og fleira.
    Ein af meiri útlitsbreytingum á virkjunarsvæðinu verða breytingar á rennsli Fjarðarár og Miðhúsaár, fossar munu minnka þannig að gera má ráð fyrir að eftir verði tekið.
    Athuga þarf sérstaklega varnir gegn mengun vatnsbóls Seyðisfjarðarbæjar meðan á fram­kvæmdum stendur því vatn til bæjarveitunnar er tekið úr Fjarðará.

5. Helstu einkennisstærðir.
    Vatnasvið Fjarðará á mælistað (vhm 083)     47     km² Miðhúsaá á mælistað (vhm 047)     18     km² Virkjun úr Heiðarvatni     35     km²

    Rennsli Meðalrennsi til virkjunar (áætlað)     2,4     m³/s Hönnunarflóð (áætlað)     120     m³/s

    Miðlunarlón Flatarmál við yfirfallshæð 591 m y.s.     3,3     km² Nýtanleg miðlun     30     Gl

    Aðrennslispípa (glertrefjabundinn polyester) Lengd     5.800     m Vídd     1,1–1,3     m


    Þrýstipípa (stál) Lengd     1.120     m Vídd     1,0–1,1     m

    Vélasamstæða Virkjað rennsli     4,3     m³/s Raunfallhæð     518     m Afl     20     MW

Helstu heimildir:
         
Kristinn Einarsson, 1988: Fjarðarárvirkjun. Rennsli við vatnshæðarmæla og til virkjunar. Orkustofnun, greinargerð OS-88069/15 B.
         Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins, 1988: Rannsókn nr. H88/1070. Fjarðará. Kornadreifing og lektarpróf. Rannsókn gerð fyrir Orkustofnun.
         Skúli Víkingsson, 1988 : Fjarðarárvirkjun. Byggingarefnisleit 1988. Orkustofnun, greinargerð OS-88058/VOD-11 B.
         Strengur, verk- og kerfisfræðistofa, 1988 : Orkugeta Fjarðarárvirkjunar. Greinargerð samin fyrir Rafmagnsveitur ríkisins.
         Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen hf. 1989: Virkjun Fjarðarár í Seyðisfirði. Frumhönnun. Skýrsla samin fyrir Rafmagnsveitur ríkisins.
         Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen hf. 1994: Fjarðarárvirkjun. Orkuvinnsla. Skýrsla samin fyrir Rafmagnsveitur ríkisins.
         Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen hf. 1995: Fjarðarárvirkjun, Umhverfisáhrif, Frumathugun. Skýrsla samin fyrir Rafmagnsveitur ríkisins.


(eitt kort myndað)




(eitt kort myndað)