Ferill 500. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1068  —  500. mál.




Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar um greiðslur frá rekstrarleyfishafa gagnagrunns á heilbrigðissviði.

     1.      Hversu hátt gjald er áætlað að rekstrarleyfishafi greiði:
                  a.      fyrir rekstrarleyfið fyrsta árið,
                  b.      vegna starfs nefndar um gerð og starfrækslu gagnagrunns á heilbrigðissviði,
                  c.      vegna annars kostnaðar sem tengist þjónustu og eftirliti með starfrækslunni?

    Rekstrarleyfishafi skal greiða gjald fyrir veitingu rekstrarleyfis til þess að mæta kostnaði við undirbúning og útgáfu þess. Ekki liggur fyrir hve mikill hann verður.
    Verið er að undirbúa gerð fjárhagsáætlunar vegna starfs nefndar um gerð og starfrækslu gagnagrunns á heilbrigðissviði en ekki liggja fyrir neinar tölur um kostnað að svo stöddu.
    Ekki liggur fyrir áætlun um annan kostnað sem tengist þjónustu og eftirliti með starf­rækslu gagnagrunns á heilbrigðissviði, þ.m.t. eftirliti tölvunefndar og kostnaði við útgáfu og kynningu í kjölfar gildistöku laganna.

     2.      Hversu háar greiðslur til ríkissjóðs er ráðgert að semja um við rekstrarleyfishafa, sbr. 5. mgr. 4. gr. laga nr. 139/1998?
    Engar ákvarðanir hafa verið teknar um þær greiðslur sem ráðgert er að semja um við rekstrarleyfishafa, sbr. 5. mgr. 4. gr. laga nr. 139/1998, enda er málið of skammt á veg kom­ið til þess að slíkar forsendur séu fyrir hendi.