Ferill 493. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1069  —  493. mál.




Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Magnúsar Árna Magnússonar um tó­baksvarnir á vinnustöðum.

     1.      Hver eru rökin fyrir því að veitinga- og skemmtistaðir landsins, sem eru jafnframt í mörgum tilvikum fjölmennir vinnustaðir, eru undanþegnir reglum um reykingabann skv. 9. gr. laga nr. 74/1984, sbr. lög nr. 101/1996?
    Það hefur verið stefna löggjafans að setja ekki lög sem ekki er hægt að framfylgja. Hingað til hefur verið talið erfitt að banna reykingar á veitinga- og skemmtistöðum og hefur það ver­ið talið nánast ógjörningur á stöðum með vínveitingar. Í athugasemdum við frumvarp til laga um tóbaksvarnir, nr. 74/1984, kom fram að tóbaksvarnanefnd, sem samdi frumvarpið, taldi óraunhæft að láta bann við reykingum í afgreiðslu- og þjónustuhúsnæði fyrir almenning ná til veitinga- og skemmtistaða. Lagði nefndin til að þeir yrðu af þeim sökum undanþegnir banninu. Við meðferð málsins á Alþingi voru veitinga- og skemmtistaðir þó skyldaðir til að hafa á hverjum tíma „afmarkaðan fjölda veitingaborða fyrir gesti sína sem væru sérstaklega merkt að við þau væru tóbaksreykingar bannaðar“.
    Þegar lögum nr. 74/1984 var breytt með lögum nr. 101/1996 var af fenginni reynslu gerð­ur greinarmunur á skemmtistöðum og krám annars vegar og hins vegar þeim veitingastöðum sem legðu megináherslu á kaffiveitingar og matsölu. Voru veitingasalir á hinum fyrrnefndu stöðum alveg undanþegnir reykingatakmörkunum en á hinum síðarnefndu skyldu „ávallt vera reyklaus svæði, eigi síðri en þau svæði þar sem reykingar væru leyfðar“. Hefur verið unnið að því að fylgja þeirri skyldu eftir.
    Rétt er að geta þess að forráðamenn skemmtistaða og veitingastaða geta sjálfir ákveðið að takmarka reykingar í veitingasölum sínum og njóta þá skv. 11. gr. laga nr. 74/1984 stuðn­ings laganna við framkvæmd þeirrar ákvörðunar, sé hún tilkynnt réttum yfirvöldum.
    Utan veitingasala eru starfsmenn hvers kyns veitinga- og skemmtistaða varðir af reglum um tóbaksvarnir á vinnustöðum sem var nýlega breytt til stóraukinnar verndar gegn óbeinum reykingum.

     2.      Hvers á fólk sem hefur menntað og ráðið sig til þjónustustarfa og annarra starfa er krefjast viðveru á slíkum stöðum að gjalda í þessum efnum?
    Það er ljóst að starfsfólk á veitinga- og skemmtistöðum nýtur ekki sömu réttinda til reyk­lauss umhverfis og aðrir á vinnumarkaðnum. Í vinnuumhverfi þessa fólks er víða mikil meng­un af tóbaksreykingum. Í lögum eru ákvæði um að loftræsting skuli vera góð, til að draga úr menguninni á sama hátt og gildir um mengun á vinnustöðum almennt. Það er í höndum heil­brigðiseftirlits sveitarfélaga og Vinnueftirlits ríkisins að framfylgja ákvæðum laga og reglu­gerða um loftræstingu í veitingahúsum og skemmtistöðum. Er vissulega áríðandi að því sé vel fylgt eftir. Einnig er áríðandi að heilbrigðiseftirlitið fylgi eftir ákvæðum tóbaksvarnalaga um að skipta veitingasölum niður í reyklaus svæði og reyksvæði því að þannig minnkar sú mengun sem starfsmenn verða fyrir. Gera má ráð fyrir að vinna á skemmtistað geti leitt til sjúkdóma af völdum tóbaksmengunar, sérstaklega hjá þeim sem vinna lengi á slíkum stöðum. Á það einkum við um fólk sem hefur menntað sig til starfa á veitingahúsum og einnig tónlist­arfólk og skemmtikrafta eins og dæmin því miður sanna.
    Ný reglugerð um tóbaksvarnir á vinnustöðum mælir fyrir um að allt rými á veitingahúsum og skemmtistöðum sem eingöngu er ætlað starfsfólki lúti sömu reglum og aðrir vinnustaðir og þar eiga starfsmenn að geta verið í reyklausu umhverfi.
    Í nokkrum löndum hefur verið athugað hvort hægt sé að setja reglur um leyfilega hámarks­mengun af tóbaki í vinnuumhverfi líkt og gert er um aðra mengun á vinnustöðum. Þegar mengun er krabbameinsvaldandi er hins vegar ekki unnt að benda á þröskuldsgildi sem ekki leiðir til sjúkdóms eins og oftast er unnt varðandi mengunarvalda á vinnustöðum. Annar vandi er sá að í tóbaksreyk eru fjölmörg skaðleg efni og því erfitt að velja hvert eða hver þeirra yrðu höfð til viðmiðunar. Fullvíst er að ef slíkar reglur væru settar yrðu leyfileg meng­unarmörk mjög lág og þyrfti mjög öfluga loftræstingu til að framfylgja þeim. Það mundi að líkindum vernda starfsmenn betur en núgildandi reglur um loftræstingu á veitingahúsum og skemmtistöðum. Það er í höndum félagsmálaráðuneytis og Vinnueftirlitsins að stuðla að því að starfsfólk á vinnustöðum njóti þeirra almennu réttinda að vinnan leiði ekki til sjúkdóma, en ábyrgðin er vinnuveitenda.
    Síaukin vitneskja um skaðsemi reykinga hefur þó undanfarið leitt til almennari óska um reyklausa veitingastaði, einkum kaffistofur og matsölustaði, og hæg þróun hefur orðið án at­beina löggjafarvaldsins til að mæta þeim.

     3.      Viðurkennir heilbrigðisráðuneytið rétt starfsfólks veitinga- og skemmtistaða til skaðabóta frá ríkinu vegna þessarar mismununar þegar það fær sjúkdóma sem rekja má til óbeinna reykinga?
    Ef starfsmaður á veitingahúsi eða skemmtistað fær sjúkdóm sem rakinn er til óbeinna reykinga og hefur ekki reykt sjálfur fer um meðferð þess eins og annarra atvinnusjúkdómatil­fella. Í lögum eru ekki sérstök ákvæði um bótaskyldu ríkisins eða almannatrygginga gagnvart fólki sem fær atvinnusjúkdóma umfram aðra sjúkdóma nema að jafna megi þeim til vinnu­slysa. Það er atvinnurekandinn sem ber ábyrgð í slíkum tilvikum og ef samkomulag um bætur næst ekki verða starfsmenn að leita til dómstóla til að fá úrskurð um skaðabætur. Hægt er að sjá fyrir sér að hér á landi muni eins og í öðrum löndum rísa mál vegna kröfu um skaða­bætur þar sem starfsmaður telur að hann hafi fengið sjúkdóm af óbeinum reykingum á vinnu­stað, ekki síst ef reglur um tóbaksvarnir á vinnustöðum hafa verið brotnar. Verði í slíkum tilvikum unnt að sanna eða leiða sterk rök að því að sjúkdómur starfsmanns stafi af veru á vinnustað og að reglum um mengunarvarnir og tóbaksvarnir hafi ekki verið fylgt má búast við að vinnuveitendur geti orðið skaðabótaskyldir.