Ferill 203. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1102  —  203. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um stofnun þjóðbúningaráðs.

Frá menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið. Umsagnir bárust frá Kvenfélagasambandi Íslands, Þjóð­minjasafni Íslands, Elsu E. Guðjónsson, textíl- og búningafræðingi, Árbæjarsafni og Heim­ilisiðnaðarfélagi Íslands.
    Íslenskir búningar eru hluti af íslenskri menningu og setja svip á hátíðisdaga þjóðarinnar. Séu þeir bornir af kunnáttu eru þeir vel til þess fallnir að vekja athygli á íslenskri menningu. Þeir eru arfleifð sem ber að vernda og virða og því mikilvægt að varðveita þekkingu á þeim og gerð þeirra.
    Í tillögunni er lagt til að þjóðbúningaráði verði falið að setja upp ráðgjafarþjónustu sem afli heimilda um íslenska þjóðbúninginn og sinni á sem aðgengilegastan hátt miðlun upplýs­inga til almennings. Auk þess verði því falið að stuðla að því að sérfræðingur með menntun á sviði búninga og textíla verði ráðinn hið fyrsta við Þjóðminjasafn Íslands. Verkefni sér­fræðingsins yrði m.a. að vinna úr og ganga frá skrám, sýnishornum og upplýsingum sem safnið fengi frá leiðbeiningarþjónustunni sem ráðinu yrði falið að starfrækja, auk þess að vinna að rannsóknum á sviði búninga og textíla.
    Í tillögunni er enn fremur lagt til að ráðinu verði falið að beita sér fyrir því að markviss fræðsla um íslenska þjóðbúninga verði tekin upp í grunnskólum landsins jafnframt því að kennurum og kennaraefnum verði séð fyrir staðgóðri þekkingu á þeim. Til að viðhalda þekk­ingu á íslenskum þjóðbúningum verður að telja æskilegt að kynning á þeim fari fram á ein­hverju stigi grunnskólans, t.d. í tengslum við kennslu í sögu eða samfélagsfræði.
    Nefndin mælir með að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 9. mars 1999.



Sigríður A. Þórðardóttir,


form., frsm.


Hjálmar Árnason.


Arnbjörg Sveinsdóttir.



Kristín Ástgeirsdóttir.


Guðný Guðbjörnsdóttir.