Ferill 41. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1177  —  41. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um undirritun Kyoto-bókunarinnar.

Frá 2. minni hluta umhverfisnefndar.



    Íslenska ríkisstjórnin gerir mikil mistök með því að undirrita ekki Kyoto-bókunina við loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna. Ísland stendur eitt OECD-ríkja þar eð öll önnur hafa þegar undirritað bókunina. Fyrir liggur að samningamenn umhverfisráðherra eru ósammála ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að undirrita ekki bókunina.
    Stefna ríkisstjórnarinnar að krefjast frekari tilslakana en Ísland fékk í Kyoto er röng. Hún byggist á þeirri stóriðjustefnu sem er helsta flagg ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum. Vegna þessarar stefnu hafa Íslendingar þegar gengið gegn markmiðum sjálfs loftslagssamningsins þess efnis að takmarka losun árið 2000 við það sem var árið 1990. Stóriðjuáform ríkisstjórn­arinnar hleypa losun gróðurhúsalofttegunda hérlendis upp úr öllu valdi á sama tíma og flestar aðrar ríkar þjóðir taka á sig skuldbindingar um samdrátt.
    Ísland sem eitt best stæða ríki heims og sem var úthlutað meira svigrúmi til losunar gróðurhúsalofttegunda en nokkru öðru iðnríki í Kyoto gerir nú kröfu um að fá stóriðju hér­lendis tekna út fyrir sviga. Fyrir því eru hvorki efnahagsleg né siðræn rök. Með ákvörðun sinni taka íslensk stjórnvöld mikla áhættu að því er varðar heildarhagsmuni landsins.
    Aðild að Kyoto-bókuninni kemur ekki í veg fyrir að Íslendingar nýti endurnýjanlegar orkulindir sína, eins og skilja má af málflutningi ríkisstjórnarinnar og meiri hluta hennar á Alþingi. Íslendingar þurfa á þessum orkulindum að halda til annarra nota en binda hana í málmbræðslum í hálfa öld eða lengur. Umfang þessara orkulinda er ekki meira en svo að þær munu verða fullnýttar um miðja næstu öld að teknu eðlilegu tilliti til verndar náttúru lands­ins.
     Þingflokkur óháðra flutti í þingbyrjun tillögu um sjálfbæra orkustefnu. Þar er sýnt fram á með skýrum rökum að sé ætlunin að láta innlenda, vistvæna orku koma í stað innflutts jarð­efnaeldsneytis eiga menn fullt í fangi með að reisa tilheyrandi virkjanir, án þess að ganga óhóflega á náttúru landsins. Allt tal ráðamanna um að okkur beri að hlaupa undir bagga með heimsbyggðinni og taka hér við mengandi stóriðjurekstri er rökleysa.
    Því miður er það ekki aðeins ríkisstjórnin sem styður áframhaldandi uppbyggingu þunga­iðnaðar með málbræðslum. Fulltrúar Samfylkingarinnar sem hér flytja tillögu um undirritun Kyoto-bókunarinnar eru þessa dagana með stuðningi við frumvarp ríkisstjórnarinnar um raf­orkuver að skrifa upp á virkjanir sem fóðra eiga stóriðjuver með orku. Talsmenn Samfylk­ingarinnar í einstökum kjördæmum, meðal annars á Austurlandi, Reykjanesi og Vesturlandi, tala fyrir áframhaldandi stóriðjuuppbyggingu. Álbræðsla á vegum Norsk Hydro með 480 þúsund tonna framleiðslugetu á ári mundi losa nær 1 milljón tonna af gróðurhúsalofttegund­um, en heildarlosun hérlendis er nú um 2,8 milljónir tonna. Það er þannig engin samkvæmni í kröfu Samfylkingarinnar um undirritun Kyoto-bókunarinnar og algjörlega holt undir stuðn­ingi þeirra við þau mörk sem Íslandi var úthlutað í Kyoto.
    Vinstrihreyfingin – grænt framboð er eina stjórnmálaaflið sem er sjálfu sér samkvæmt í loftslagsmálunum. Þingflokkur óháðra styður að sjálfsögðu undirritun Kyoto-bókunarinnar fyrir 15. mars nk. Meðfylgjandi er samþykkt þingflokksins sem gerð var 23. febrúar 1999, strax og fréttist af ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Þá fylgir álitinu til fróðleiks skriflegt svar umhverfisráðherra við fyrirspurn undirritaðs á 122. löggjafarþingi um stefnumörkun vegna Kyoto-bókunarinnar. Einnig fylgir grein eftir undirritaðan um loftslagsráðstefnuna í Buenos Aires sem birtist í Morgunblaðinu 1. desember 1998.
    Annar minni hluti styður þingmálið eindregið.
    

Alþingi, 10. mars 1999.

Hjörleifur Guttormsson.




Fylgiskjal I.


FÁDÆMA SKAMMSÝNI



Ályktun þingflokks óháðra vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar


um að undirrita ekki Kyoto-bókunina.


(Fréttatilkynning 23. febrúar 1999.)



    Þingflokkur óháðra fordæmir þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að undirrita ekki Kyoto-bókunina við loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna fyrir tilskilinn frest 15. mars nk. Með því er ríkisstjórnin að skerast úr leik í alþjóðlegri viðleitni ríkja heims að koma í veg fyrir háskalegar loftslagsbreytingar af manna völdum.
     Í Kyoto var Íslendingum úthlutað hæstu losunarmörkum meðal iðnríkja. Í stað þess að draga úr mengun er Íslandi í bókuninni heimiluð 10% aukning frá viðmiðunarmörkum. Sjálf hefur ríkisstjórnin óskað eftir langtum rýmri losunarheimildum með vísun til stóriðjustefnu sinnar. Aðilar að samningnum frestuðu því á ársþingi sínu í Buenos Aires í nóvember 1998 að taka afstöðu til þeirrar málaleitunar.
    Þingflokkur óháðra telur ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að skerast úr leik í þessu afdrifa­ríka máli bera vott um fádæma skammsýni og ganga gegn hagsmunum Íslendinga í bráð og lengd. Með því sendir ríkisstjórnin þau skilaboð til umheimsins að hún meti meira þrönga eiginhagsmuni en að sýna samstöðu með öðrum þjóðum í glímunni við sameiginlegan vanda. Enn óskiljanlegri er þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar í ljósi kröfu hennar um enn frekari los­unarheimildir. Þessi ákvörðun mun einnig óhjákvæmilega hafa neikvæð áhrif á möguleika Íslands til áhrifa í samningum á alþjóðavettvangi um umhverfismál, til dæmis í yfirstandandi viðræðum um að draga úr mengun heimshafanna með þrávirkum lífrænum efnum.




Fylgiskjal II.


Svar umhverfisráðherra við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar
um stefnumörkun vegna Kyoto-bókunarinnar.

(Þskj. 960 — 472. mál 122. löggjafarþings.)



     1.      Hvernig hljóðar það „sérstaka ákvæði“, kennt við Ísland, sem tekið var inn í skjal L.7 á ráðstefnunni í Kyoto 1.–10. desember 1997 og með hvaða hætti að formi til er fyrir­hugað að það tengist samningnum um loftslagsbreytingar?
    Á 3. aðildarríkjaþingi rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, sem haldið var í Kyoto í Japan dagana 1.–11. desember 1997, var samþykkt sérstök bókun við samninginn, svokölluð Kyoto-bókun. Í d-lið 5. gr. lokasamþykktar þingsins er að finna um­rætt ákvæði sem sumir hafa viljað kenna við Ísland. Ákvæðið hljóðar svo í íslenskri þýðingu:
    „Þing aðila …
    5.        Fer þess á leit við formann undirnefndar fyrir vísinda- og tækniráðgjöf og formann undirnefndar fyrir framkvæmd samningsins, að teknu tilliti til samþykktrar fjár­hagsáætlunar fyrir árin 1998 og 1999 og viðeigandi áætlunar um starfsemi skrif­stofunnar (FCCC/CP/1997/INF.1), að þeir leiðbeini skrifstofunni við nauðsynlegan undirbúning vegna 4. þings aðila í eftirfarandi málaflokkum og feli viðeigandi undirnefndum störf eins og við á: …
    (d)    Skoða og, eftir því sem við á, ákveða viðeigandi aðferðir til að taka á aðstæðum aðila sem skráðir eru í viðauka B í bókuninni þar sem einstök verkefni mundu hafa umtalsverð hlutfallsleg áhrif á losun á skuldbindingartímabilinu …“

    Þrátt fyrir að með Kyoto-bókuninni hafi verið stigið mikilvægt skref í þá átt að setja laga­lega bindandi losunarheimildir fyrir iðnríkin eru enn ýmis atriði sem þarf að útfæra nánar þar sem ekki vannst tími til þess í Kyoto. Í því sambandi má m.a. nefna nánari reglur um við­skipti með losunarheimildir, bindingu koltvíoxíðs í gróðri og vanefndir aðildarríkja. Í Kyoto varð nokkur umræða um sérstöðu ríkja þar sem einstök verkefni geta haft hlutfallslega mjög mikil áhrif á heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í viðkomandi ríki. Ýmsar leiðir voru ræddar til að taka á þessum vanda en ekki vannst tími til að leysa málið. Á næsta aðildarríkjaþingi rammasamningsins, sem haldið verður í Buenos Aires í Argentínu í nóvember næstkomandi, verður m.a. rætt frekar um fyrrgreint ákvæði og hvernig það muni tengjast samningnum. Í lokasamþykkt þingsins í Kyoto er tekið fram að leitast skuli við að ná niðurstöðu eigi síðar en á þinginu í Buenos Aires. Í Kyoto var m.a. rætt um að setja sérstakt ákvæði þessa efnis í bókunina eða undantekningarákvæði í tengslum við efndir samningsaðila, sbr. 18. gr. bók­unarinnar. Þá var einnig rætt hvort leysa mætti málið með sérstakri viðbótarsamþykkt.

     2.      Hvaða ríki studdu framlagningu þessa ákvæðis og frá hvaða ríkjum er einkum að vænta áframhaldandi stuðnings við að það verði hluti af eða tengist Kyoto-bókuninni?
    Umrætt ákvæði var að finna í tillögu formanns allsherjarnefndar þingsins, Raul Estrada frá Argentínu, að lokasamþykkt þess. Tillagan og þar með umrætt ákvæði var samþykkt sam­hljóða. Ekki er á þessu stigi hægt að fjölyrða um frekari útfærslu þess eða hvaða stuðning slík útfærsla muni hljóta.


     3.      Hvaða röksemdir færa íslensk stjórnvöld einkum fram til stuðnings þessu ákvæði sem komi til viðbótar þeirri sérstöðu um losun gróðurhúsalofttegunda sem Ísland fékk viðurkennda í Kyoto?

    Ein áhrifaríkasta leiðin til að draga úr uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu er að nýta hreina og endurnýjanlega orku, sem lágmarkar t.d. losun gróðurhúsalofttegunda frá ýmsum iðnaðarferlum á heimsvísu. Í núverandi mynd kann Kyoto-bókunin að torvelda slíkt, en það er í andstöðu við meginmarkmið rammasamningsins um loftslagsbreytingar. Lítil ríki, sem ráða yfir endurnýjanlegri orku, geta vegna smæðar sinnar staðið frammi fyrir því að einstök verkefni hafi mjög afgerandi áhrif á heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í viðkomandi ríki á meðan þau hefðu hlutfallslega lítil sem engin áhrif í stærri ríkum jafnvel þótt þar væri notað kolefnaeldsneyti til orkuframleiðslu. Stærri ríki geta því betur beitt al­mennum stjórnunaraðgerðum til að taka á slíkum verkefnum þó að þau noti ekki endurnýjan­lega orku til verkefnisins. Til fróðleiks má geta þess að losun frá 180.000 tonna álveri Norð­uráls hf. á Grundartanga mun auka losun hér á landi um tæp 13% frá því sem var árið 1990.

     4.      Hvernig má gera ráð fyrir að unnið verði úr þessu „sérstaka ákvæði“ af aðilum samningsins um loftslagsbreytingar og í hvaða áföngum að því er varðar málsmeðferð og hugsanlega afgreiðslu?
    Málið verður undirbúið og unnið af skrifstofu rammasamningsins, væntanlega í góðri samvinnu við formann viðkomandi undirnefndar sem fær málið til umfjöllunar á undirbún­ingsfundi í Bonn í júní næstkomandi. Íslensk stjórnvöld munu síðar í þessum mánuði senda skrifstofu samningsins hugmyndir sínar um hugsanlega útfærslu ákvæðisins. Þá hafa fulltrúar íslenskra stjórnvalda átt og munu á næstunni eiga tvíhliða fundi með fulltrúum annarra ríkja til að kanna hug þeirra um hvaða leiðir eru fýsilegastar til lausnar þessu máli.

     5.      Hvenær er þess að vænta að niðurstaða fáist í mál þetta þannig að hugsanleg viðbót þar að lútandi á grundvelli samningsins og Kyoto-bókunarinnar við hann verði orðin viðurkenndur hluti af samningnum?
    Íslensk stjórnvöld gera sér vonir um að hægt verði að ljúka málinu efnislega á næsta aðildarríkjaþingi rammasamningsins sem haldið verður í Buenos Aires í nóvember næst­komandi.

     6.      Hvaða tillögur hefur ráðherra gert eða fyrirhugar að gera til ríkisstjórnar Íslands um það hvernig staðið verði að framgangi og framkvæmd mála í framhaldi af Kyoto-ráðstefnunni?
    Ríkisstjórnin hefur að tillögu umhverfisráðherra samþykkt að skipa sérstakan stýrihóp ráðuneytisstjóra sem hafi yfirumsjón með málinu í heild. Hópurinn hefur það hlutverk að aðstoða ríkisstjórnina við almenna stefnumörkun, hefur umsjón með gerð og framfylgd nýrrar framkvæmdaáætlunar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, skipuleggur samn­ingaviðræður við önnur ríki og fjallar um afleiðingar loftslagsbreytinga hér á landi. Í stýri­hópnum sitja fulltrúar umhverfis-, fjármála-, forsætis-, iðnaðar-, landbúnaðar-, samgöngu-, sjávarútvegs- og utanríkisráðuneytis og er ráðuneytisstjóri umhverfisráðuneytis formaður hópsins. Til að styrkja starf stýrihópsins þarf að skipa ýmsar undirnefndir til að sinna sér­stökum verkefnum. Nú eru starfandi slíkar nefndir um aðgerðir í sjávarútvegi, samgöngum og til að auka bindingu koltvíoxíðs í gróðri. Þá er fyrirhugað að skipa nefnd til að fjalla um hagræna þætti og nefnd vísindamanna til að fjalla um hugsanlegar afleiðingar loftslagsbreytinga hér á landi, svo og sérstakan ráðgjafarhóp með fulltrúum atvinnulífs og sérfræðingum. Loks mun starfa undir stjórn stýrihópsins sérstök samninganefnd, undir forustu nýs sendi­herra auðlindadeildar utanríkisráðuneytis, sem mun undirbúa og annast tvíhliða viðræður og aðrar samningaviðræður í tengslum við 4. aðildarríkjaþing rammasamningsins í nóvember næstkomandi.

     7.      Hver er afstaða ráðherra til Kyoto-bókunarinnar og staðfestingar hennar sem hluta af samningnum sem liggur frammi til undirskriftar frá 15. mars 1998 til 15. mars 1999?
    Ráðherra leggur ríka áherslu á að Ísland gerist aðili að Kyoto-bókuninni, en að hans mati er þó ekki hægt að taka afstöðu til aðildar fyrr en fyrir liggur hver niðurstaða 4. aðildarríkja­þings rammasamningsins í Buenos Aires verður varðandi þau atriði sem fyrr eru nefnd, svo sem reglur um viðskipti með losunarheimildir, bindingu koltvíoxíðs í gróðri og umrætt ákvæði d-liðar 5. gr. í lokasamþykkt 3. aðildarríkjaþingsins í Kyoto.


Fylgiskjal III.


Hjörleifur Guttormsson:

Ísland og loftslagsþingið í Buenos Aires.
(Morgunblaðið 1. desember 1998.)

    Loftslagsþingið í Buenos Aires stóð í nær tvær vikur 2.–14. nóvember. Slíkt þing er árlegur viðburður samkvæmt ákvæðum rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslags­breytingar. Að þessu sinni snerist það að miklu leyti um niðurstöðu síðasta ársþings sem kennt er við Kyótó, þar sem sérstök bókun var gerð við samninginn. Hún fól meðal annars í sér lagalegar skuldbindingar af hálfu tilgreindra iðnríkja um að hafa á árunum 2008–2012 dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda sem svarar að meðaltali röskum 5% miðað við það sem var árið 1990. Þrjú ríki fá þó á sama tíma svigrúm til aukningar og er Ísland með hæsta hlutfallstölu eða 10% í því samhengi. Þess utan ákveður Evrópusambandið losun einstakra ríkja innan sinna vébanda, en gert er ráð fyrir 8% heildarniðurskurði af hálfu aðildarríkja þess. Þróunarríkjum er hins vegar ekki ætlað að taka á sig viðbótarskuldbindingar samkvæmt Kyótó-bókuninni en þau eru eftir sem áður aðilar að loftslagssamningnum og einnig gert ráð fyrir aðild þeirra að bókuninni.
    Nauðsynlegt er að hafa í huga að Kyótó-niðurstaðan er aðeins fyrsta skref af þeim niður­skurði í losun gróðurhúsalofts sem Alþjóðavísindanefndin (IPCC) gerir ráð fyrir að nauðsyn­legur sé til að komið verði í veg fyrir stórfellda vá samhliða hlýnun andrúmsloftsins af mannavöldum og viðunandi jafnvægi náist á næstu öld. Þegar árið 2005 á að hefja samninga um þar næsta niðurskurðartímabil og talað er um 50–60% samdrátt í losun sem æskilegt markmið fyrir miðja næstu öld.

Sæmilegur grundvöllur fenginn.
     Ekki var fyrirfram reiknað með stórtíðindum frá ársþinginu í Buenos Aires, en hins vegar stefnt að því að koma þar áleiðis fjölmörgum atriðum til útfærslu samningsins, sérstaklega Kyótó-bókunarinnar til að undirbúa aðgerðir eftir gildistöku hennar. Til að bókunin gangi í gildi þarf að liggja fyrir staðfesting 55 aðildarríkja að loftslagssamningnum og þar á meðal iðnríkja samkvæmt viðauka I, sem losa að minnsta kosti 55% þess koldíoxíðs sem til fellur hjá þeim sömu ríkjum. Þess er vænst að slík staðfesting liggi fyrir árið 2001 þannig að bókunin öðlist gildi.
     Mikið af umræðunni snýst um aðferðafræði, meðal annars um hlutdeild markaðslögmála og viðskipti með gróðurhúsaloft og um bindingu koltvíoxíðs í gróðri og jarðvegi. Miðaði því síðartalda nokkuð áleiðis í Buenos Aires. Fyrra atriðinu er ætlað að skapa sveigjanleika í útfærslu umfram beina losun innan marka hvers þjóðríkis. Þessi þáttur skýrðist lítið í Buenos Aires og er útfærsla á viðskiptum með gróðurhúsaloft í svipuðum sporum og fyrir þingið. Þó skýrðust málavextir nokkuð og fram komu viðhorf þjóða og ríkjasamtaka. Mikill meirihluti aðildarríkja samningsins vill að losunin fari sem mest fram heima fyrir, en Bandaríkin og nokkur önnur iðnríki vilja sem víðtækastar markaðslausnir. Þá er tækni- og fjárhagsaðstoð iðnríkja við þróunarlönd hluti af Kyótó-samþykktinni sem mikið er horft til en leikreglur vantar.
    Ýmsir munu halda því fram að þetta loftslagsþing, sem er hið 4. í röðinni (COP-4), hafi skilað litlu, en þó verður að telja að með niðurstöðu þess sé sæmilegur grundvöllur fenginn fyrir áframhaldandi vinnuferli og að margt liggi skýrar fyrir nú að því loknu.

Stóraukinn skilningur á loftslagsbreytingum.
    Í umræðunni í Buenos Aires kom fram nær undantekningalaust sá skilningur í máli manna, ekki síst ráðherra sem áttu sviðið næstsíðasta dag þingsins, að ekki sé lengur vafi á að nú þegar sé tekið að gæta breytinga á loftslagi af mannavöldum með tilheyrandi áhrifum á veðurfar. Bent var á margar staðreyndir úr mælingum og athugunum síðustu ára því til stuðn­ings. Má segja að stjórnmálamennirnir gangi nú lengra í staðhæfingum en Alþjóðavísinda­nefndin (IPCC) taldi rétt að gera í áliti sínu 1995. Margir telja hins vegar fullvíst að nefndin muni taka mun dýpra í árinni í þriðju skýrslu sinni til samningsaðila sem nú er unnið að og væntanlega birtist á árinu 2001. Hafa ber í huga að niðurstaða vísindanefndarinnar 1995 var sameiginlegt álit hundruða ef ekki þúsunda tilkvaddra vísindamanna um loftslagsmálefni og því í eðli sínu varfærin. Fáir efast hins vegar um að áhrifa gróðurhúsalofts með tilsvarandi hlýnun að meðaltali á jörðinni muni gæta í auknum mæli á komandi áratugum. Í ljósi þessa ber að skoða málflutning þeirra sem ala á tortryggni í garð loftslagsfræðanna og álits Alþjóðavísindanefndarinnar. Þær raddir heyrast bæði hérlendis og erlendis en mega nú teljast hjáróma og fátt bitastætt í fræðilegum rökstuðningi. Forsætisráðherra Íslands og fleiri ráðherrar í ríkisstjórninni virðast hins vegar leggja sérstaklega eyru við þessum málflutningi.
    Einhliða kröfur vegna stóriðju Ísland er á margan hátt á sérkennilegu spori sem aðili að loftslagssamningnum. Hérlendis er losað viðlíka mikið af gróðurhúsalofttegundum á mann og að meðaltali í Vestur-Evrópu og Japan. Málflutningur stjórnvalda hefur hins vegar aðal­lega snúist um að leggja áherslu á meinta sérstöðu Íslands á sviði loftslagssamningsins og leita eftir undanþágum frá Kyótó-bókuninni með vísun til aðstæðna hérlendis. Er þá einkum tíunduð smæð íslensks samfélags og gnótt endurnýjanlegra orkulinda sem kjörnar séu til að knýja málmbræðslur. Frá því ríkisstjórnin markaði sér stefnu um framkvæmd loftslagssamn­ingsins hérlendis síðla árs 1995 hefur meginmarkmið hennar verið að Ísland fái rétt til að taka losun frá stóriðju hérlendis út úr almennu bókhaldi. Fyrir þrábeiðni íslenskra stjórn­valda var fallist á það með sérstakri bókun í Kyótó að taka mál þetta til athugunar síðar. Í aðdraganda þingsins í Buenos Aires leitaðist ríkisstjórnin við að undirbyggja þessa kröfu og á þinginu þar snerist vinna embættismanna mest um þetta atriði að ósk ríkisstjórnarinnar.
    Niðurstaðan varð sú sem kunnugt er að ekki var á tillögu Íslands fallist og málinu vísað til frekari meðferðar með það fyrir augum að afstaða verði tekin til tillögunnar að ári, án efnislegra skuldbindinga þegar til afgreiðslu kemur.

Fjölmörgum spurningum ósvarað.
    Skoðanir eru skiptar hérlendis um þessa málafylgju stjórnvalda. Alls ekki er ljóst að hald sé í þeirri röksemdafærslu sem borin hefur verið fram til stuðnings kröfu ríkisstjórnarinnar. Vissulega er íslenskt hagkerfi lítið á mælikvarða stórþjóða, en á fleira er að líta í samhengi við loftslagsmálin. Með samþykktunum frá Kyótó ætla flest velstæð ríki að axla skuld­bindingar um niðurskurð í losun gróðurhúsalofts. Ísland fær heimild til nokkurrar aukningar og það meira en nokkrir aðrir í þessum hópi. Hefðbundin stóriðja vegur ekki aðeins þungt í losun gróðurhúsalofts heldur einnig í útflutningstekjum á mann hérlendis. Sá mælikvarði er sjaldan nefndur á sama tíma og rætt er um um 500 þúsund tonna álbræðslu til viðbótar þeirri stóriðju sem fyrir er. Eðlilegt er að spyrja hvers vegna Íslendingar geta ekki unað við þær almennu leikreglur sem Kyótó-bókunin gerir ráð fyrir. Í þeim er meðal annars gert ráð fyrir viðskiptum með losunarheimildir landa í milli, jafnvel með beinni þátttöku fyrirtækja. Ljóst er að verðmæti endurnýjanlegra orkulinda hefur hækkað vegna Kyótó- bókunarinnar. Að mörgu er að hyggja í sambandi við sérkröfu ríkisstjórnarinnar. Hvert er samhengi undan­þáguheimilda fyrir stóriðju hér á landi með tilliti til fjölþjóðlegra viðskiptasamninga? Hver verða áhrifin af slíkri undanþágu á viðleitni til að fá aðrar atvinnugreinar hérlendis til að draga úr losun, þar á meðal sjávarútveginn? Hvert er magn þeirrar orku sem líklegt er að geti verið til ráðstöfunar á næstu öld og hversu stóran hluta þess telja menn rétt að binda í málm­iðnaði til langs tíma? Hefur þjóðin ekki þörf á að nýta orkulindirnar til annarra þarfa, að svo miklu leyti sem það verður talið ásættanlegt vegna umhverfissjónarmiða? Og hvaða áhrif getur stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar haft á möguleika Íslands til að gæta á alþjóðavettvangi annarra og þýðingarmeiri hagsmuna, bæði á sviði viðskipta og umhverfismála? Rækileg út­tekt á öllum þessum atriðum hefði þurft að liggja fyrir áður en íslensk stjórnvöld komu fram með undanþágukröfu sína, en það er þó enn ekki um seinan að endurmeta málið út frá heild­stæðum sjónarmiðum.

Undirritun þolir ekki bið.
    Sú sérkennilega staða er nú komin upp að Ísland hefur eitt velstæðra ríkja enn ekki undirritað niðurstöðuna frá Kyótó. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa verið með yfirlýsingar þess efnis að það komi ekki til greina nema fallist verði á undanþágukröfuna fyrir stóriðju. Kyótó-bókunin liggur frammi til undirritunar til 15. mars 1999. Þótt unnt sé að gerast aðili að bókuninni síðar tel ég að íslensk stjórnvöld væru að misstíga sig herfilega undirriti þau ekki bókunina fyrir umræddan frest og helst sem fyrst. Samkvæmt okkar stjórnskipunar­venjum þarf samþykki Alþingis að liggja fyrir áður en bókunin yrði staðfest, en í undirritun hennar felst í reynd viðurkenning viðkomandi stjórnvalds á því að það stefni að staðfestingu, í þessu tilviki að fylgja niðurstöðunni frá Kyótó. Afar óráðlegt væri fyrir Ísland að skilyrða væntanlega staðfestingu við það að sérkrafan um undanþágu fyrir losun frá stóriðju nái fram að ganga, enda með öllu óvíst að á hana verði fallist. Ég tel það ekki aðeins óráðlegt heldur fráleitt með tilliti til heildarhagsmuna Íslendinga að standa utan við Kyótó-bókunina, en með því yrðum við viðskila við þróun og markmið loftslagssamningsins.


Forsendur búsetu gætu verið í húfi.

    Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru slíkt alvörumál fyrir heimsbyggðina þar á meðal fyrir Íslendinga, að okkur ber siðferðisleg skylda til að leggja okkar af mörkum til að hamla gegn þeim. Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra benti sérstaklega á það í grein í Morgunblaðinu 29. ágúst 1997 hvaða áhrif hlýnun gæti haft á straumakerfi Norður-Atlants­hafsins samkvæmt sumum spádómum sérfræðinga. Golfstraumurinn gæti breytt verulega ferli sínu frá því sem nú er og afleiðingin gæti orðið kólnun á norðurslóðum. Slíkar áhyggjur voru einnig viðraðar af fræðimönnum á þinginu í Buenos Aires. Í þessu er enginn hræðsluáróður fólginn heldur aðeins bent á að loftslagsbreytingar varða ekki aðeins andrúmsloft heldur einnig hafstrauma og geta þannig haft allt önnur áhrif en halda mætti fljótt á litið. Við Íslend­ingar eigum að leggjast fast á sveif með öðrum þjóðum sem ætla nú og á næstu áratugum að bregðast við hugsanlegri vá vegna loftslagsbreytinga. Þar verða minni hagsmunir að víkja fyrir því sem meira máli skiptir byggt á víðtæku og vitrænu mati.