Ferill 613. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1210  —  613. mál.




Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Sigríðar Jóhannesdóttur um sölu Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi.

     1.      Hvert var söluverðmæti þess áburðar sem lá tilbúinn til sölu og afhendingar þegar sala Áburðarverksmiðjunnar fór fram?
    Hreint söluverðmæti fullunnins áburðar, tilbúins til sölu og afhendingar 1. mars sl. var u.þ.b. 750 millj. kr. Áburðarsala á sér eingöngu stað á vorin og miðast birgðastaða 1. mars við að nægjanlegur áburður hafi verið framleiddur og sé til staðar þegar sú sala fer fram. Eitt og sér segir söluverðmæti fullunnins áburðar ekkert til um hvert er hugsanlegt verð hluta­bréfa fyrirtækisins. (Sjá nánar svar við 3. lið þar sem fjallað er um upplausnar- og tekjuvirði fyrirtækisins.)

     2.      Hver var sjóðstaða fyrirtækisins þegar sala þess fór fram?
    Sjóðsstaða er samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu handbært fé. Hún var 1. mars u.þ.b. 19 millj. kr.

     3.      Hvert var verðmæti þeirra fasteigna sem fylgdu með við sölu Áburðarverksmiðjunnar?
    Fasteignamat húsa og lóða er 629,7 millj. kr. samkvæmt Fasteignamati ríkisins frá 31. desember 1998 og brunabótamat 1.940 millj. kr. Bókfært verð fasteigna 1. mars 1999 var 414 millj. kr. Engin þessara talna segir til um raunvirði fasteignanna. Verðmæti, eða raun­virði fasteigna, byggist annars vegar á því á hvaða verði einhver er reiðubúinn að kaupa þær, einar og sér, og hins vegar á notagildi þeirra miðað við þá starfsemi sem fasteignirnar hýsa og þjóna í nútíð og framtíð. Flestar fasteignir í eigu Áburðarverksmiðjunnar hf. eru sérhæfð­ar byggingar fyrir áburðarframleiðslu og hafa margar hverjar eingöngu notagildi sem slíkar. Verðmæti þeirra er því háð því hvort áburðarframleiðslu verður haldið áfram. Þegar hluta­bréf í fyrirtæki sem ætlað er að halda áfram í rekstri eru keypt eru einstakar eignir sjaldnast metnar til verðs heldur er svokallað tekjuvirði fjárfestingarinnar lagt til grundvallar kaup­verði, þ.e. hvaða hagnaði gert er ráð fyrir að fjárfestingin skili í framtíðinni. Miðist kaupverð hlutabréfanna hins vegar við að hætta innan tíðar starfsemi viðkomandi fyrirtækis er áætlað upplausnarvirði lagt til grundvallar. Þá skiptir söluverð einstakra eigna máli en einnig, og ekki síður, hvað kostar að rífa og fjarlægja sérhæfðar byggingar og annan búnað sem engum nýtist lengur. Upplausnarvirði Áburðarverksmiðjunnar hf. var metið áður en hlutabréfin í fyrirtækinu voru auglýst til sölu. Niðurstaðan var 1.000 millj. kr., sem er sama tala og selj­andi áskildi sem lágmarksverð hlutabréfanna. Söluverð reyndist hins vegar 1.257 millj. kr.

     4.      Hverjir eru möguleikar núverandi eiganda til að ráðstafa lóðarréttindum á því landi sem Áburðarverksmiðjan hefur umráðarétt yfir ef hún verður ekki lengur starfrækt?
    Lóðarsamningur Áburðarverksmiðjunnar hf. er við Reykjavíkurhöfn f.h. Reykjavíkur­borgar. Í honum segir: „Lóðin er leigð til þess að reisa á henni og reka verksmiðju til vinnslu áburðar, áburðargeymslu og annarrar starfsemi leigutaka, að meðtalinni verslun með tilbúinn áburð.“ Breyting á nýtingu lóðar utan þessa ramma er háð samþykki lóðareiganda, þ.e. Reykjavíkurhafnar, og er bundin hafnsækinni starfsemi sem útilokar m.a. íbúðabyggð. Þegar aðalskipulag var samþykkt 1990 var lóð Áburðarverksmiðjunnar hf. færð á framtíðarhafnar­svæði við Eiðsvík. Aðalskipulag sem samþykkt var 1996 staðfesti þetta. Deiliskipulag er fyrir hendi en komi til breytingar á nýtingu lóðarinnar þarf að gera nýtt deiliskipulag og leggja fyrir skipulagsnefnd Reykjavíkur.