Ferill 608. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1226  —  608. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Arnbjargar Sveinsdóttur um jöfnun námskostnaðar.

     1.      Hver hefur árleg hækkun á „jöfnun námskostnaðar“ verið á nemanda frá árinu 1995, hlutfallslega og í krónum talið, skipt eftir:
                  a.      ferðastyrkjum,
                  b.      dvalarstyrkjum?

    Reglubundnir styrkir eru húsnæðisstyrkir, fæðisstyrkir og ferðastyrkir.
    Niðurgreiðsla kostnaðar við akstur í framhaldsskóla er talin hluti af jöfnun námskostnað­ar.
    Fjárveitingar hafa verið sem hér segir:

Ár Styrkir,
millj. kr.
Skólaakstur,
millj. kr.
Samtals,
millj. kr.
Hækkun frá fyrra
ári, millj. kr.
Hækkun frá fyrra ári, %
1995 96,5 13,7 110,2
1996 96,5 15,0 111,5 1,3 1,2
1997 106,5 30,0 136,5 25,0 22,4
1998 160,0 31,0 191,0 54,5 39,9
1999 228,2 31,6 259,8 68,8 36,0

    Styrkir til nemenda í fullu námi hafa verið sem hér greinir, en vísað er til svara við 2. og 3. lið varðandi ferðastyrk og nánari útskýringar á styrktilhögun.


Ár
Fæðisstyrkur,
kr.
Hækkunfrá fyrra ári, kr. Hækkun frá fyrra ári, % Húsnæðisstyrkur, meðaltal, kr. Hækkun frá fyrra ári, kr. Hækkun frá fyrra ári, %
1995 37.000 15.000
1996 37.000 0 0,0 15.000 0 0,0
1997 40.000 3.000 8,1 21.000 6.000 40,0
1998 56.000 16.000 40,0 23.500 2.500 11,9
1999 70.000 14.000 25,0 27.500 4.000 17,0

    Styrkur til nemanda sem stundaði nám í Reykjavík var (án ferðastyrks) 53.000 kr. árið 1995, en er nú 100.000 kr.

     2.      Hver er upphæð þessara styrkja nú og hvað má reikna með að hún sé hátt hlutfall framfærslukostnaðar nemenda?
    Skólaárið 1998–99 er fæðisstyrkur 70.000 kr., húsnæðisstyrkur á höfuðborgarsvæðinu er 30.000 kr. og 25.000 kr. utan þess, sbr. svar við 1. lið.
    Ferðastyrkir eru allt að 30.000 kr.
    Hlutfall styrksins af framfærslukostnaði nemenda sem stunda nám utan heimabyggðar er að líkindum nokkuð breytilegt. Sé tekið mið af áætluðum kostnaði við skólagöngu fjarri heimabyggð samkvæmt úttekt Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá júní 1998 má ætla að styrkur vegna skólaársins 1998–99 nemi 37–45% af lægri kostnaðaráætlun, en 27–29% af meðaltali þeirrar áætlunar.

     3.      Hvaða reglur eru lagðar til grundvallar við úthlutun þessara styrkja?
    Styrkir eru veittir samkvæmt lögum um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði, nr. 23/1989, sbr. lög nr. 143/1998.
    Í 2. gr. laganna eru grundvallarreglur um hverjir teljast styrkhæfir en hún er svohljóðandi: „Réttar til námsstyrkja samkvæmt lögum þessum njóta íslenskir nemendur sem stunda reglu­bundið framhaldsnám hér á landi sem ekki er á háskólastigi eða gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi og verða að vista sig utan lögheimilis og fjarri fjölskyldu sinni vegna námsins. Skilyrði styrkveitingar er að ekki sé unnt að stunda sambærilegt nám frá lögheimili eða öðrum dvalarstað sem námsstyrkjanefnd metur jafngild­an. Eigi skulu þeir njóta styrks samkvæmt lögum þessum er nýta rétt til láns úr Lánasjóði ís­lenskra námsmanna eða njóta hliðstæðrar fyrirgreiðslu.“
    Menntamálaráðherra skipar fimm manna námsstyrkjanefnd sem sér um úthlutun til styrk­hæfra nemenda. Auk þess að ákveða upphæð styrkja ár hvert verður námsstyrkjanefnd að meta hvað telst „sambærilegt“ nám, sbr. 2. gr. laganna.
    Fæðisstyrkur er veittur öllum styrkhæfum umsækjendum, en styrkþegar árin 1996–98 voru að jafnaði rúmlega 2.400. Húsnæðisstyrk hljóta þeir sem ekki eiga þess kost á námstíma að búa í foreldrahúsum eða í heimavist.
    Ferðastyrki skal skv. a-lið 3. gr. laganna veita þeim nemendum sem bera verulegan ferða­kostnað vegna búsetu sinnar. Námsstyrkjanefnd ákveður upphæð ferðastyrks frá heimasveit­arfélagi nemanda til sveitarfélags viðkomandi skóla, sé nemandi á annað borð styrkhæfur.
    Veittur er ferðastyrkur til fjögurra ferða á ári milli heimilis og skóla. Styrkur er veittur til ferða í þann skóla sem er styst frá lögheimili styrkþega og telst bjóða sambærilegt nám á við það sem styrkþegi stundar. Eðli málsins samkvæmt njóta þeir hæstu ferðastyrkja sem lengst þurfa að fara frá lögheimili sínu til að geta lagt stund á sitt nám.