Athugasemdir Samkeppnisstofnunar um samkeppni á fjarskiptamarkaði

Miðvikudaginn 16. júní 1999, kl. 11:46:27 (371)

1999-06-16 11:46:27# 124. lþ. 8.92 fundur 70#B Athugasemdir Samkeppnisstofnunar um samkeppni á fjarskiptamarkaði# (umræður utan dagskrár), PHB
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 124. lþ.

[11:46]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ef Landssíminn hefði verið metinn á 10 milljarða meira hefði það verið viðskiptavild sem hefði þurft að afskrifa á fimm árum, þ.e. um tvo milljarða á ári. Við það hefðu skattskyldar tekjur fyrirtækisins lækkað sem því nemur um tvo milljarða, nánast þurrkast út. Það hefði þýtt að fyrirtækið hefði greitt 600 milljónir minna á ári í skatta næstu fimm árin, sem þýðir að það hefði haft þessar 600 milljónir í ,,cash`` til þess að berja á samkeppnisaðilum sínum. Ég sé því ekki hvernig samkeppnisstaða fyrirtækisins batnar við það að vera metið minna.

Vilji menn hins vegar finna út raunverulegt virði fyrirtækisins þá er til ákaflega einföld aðferð til þess og það er hreinlega að selja það. Þá kemur í ljós hvert er raunverulegt virði fyrirtækisins og þá kemur í ljós hver viðskiptavildin raunverulega er. Hinn væntanlegi kaupandi mun hjálpa okkur við að meta fyrirtækið.