Iðnaðarlög

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 11:35:26 (153)

1999-10-07 11:35:26# 125. lþ. 5.8 fundur 22. mál: #A iðnaðarlög# (meistarabréf, útgáfa sveinsbréfa o.fl.) frv. 133/1999, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[11:35]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhanni Ársælssyni fyrir ágætis ábendingar og góðar undirtektir við málið. Ég held að það sé rétt sem fram kom hjá hv. þm. og full ástæða til að gera breytingar, enda gengur þetta frv. út á það annars vegar að skilja á milli þeirra krafna sem gerðar eru til menntunar iðnaðarmanna og hins vegar þeirra veitinga á starfsleyfum sem verða þá eftir þetta gefin út af iðnrh.

Ég gerði mér ekki grein fyrir því að þessi reglugerð hefði ekki verið sett, ég skal bara fúslega viðurkenna það, og leit svo á að á grundvelli hennar væri hægt að halda áfram eða að iðnrh. gæfi síðan út reglugerð í samræmi við þá reglugerð sem í gildi væri.

Ég held hins vegar að þetta sé ekkert stórmál og við eigum ekki að gera neitt stórmál úr því vegna þess að áður var í gildi reglugerð, áður en lögunum var breytt 1996. Ég vil líta svo á að sú reglugerð, þrátt fyrir að hún sé ekki nákvæmlega í samræmi við þau lög eða lagabreytingarnar sem við gerðum, sé í gildi og skapi þann ramma um það sem við getum talað um sem löggiltar iðngreinar. Ég vonast til að við getum orðið sammála um það.

En á þessu þarf að gera bragarbót og af þeirri ástæðu er þetta frv. flutt í fullu samráði menntmrh. og iðnrh. Ég tek undir að þar þurfa þessi tvö ráðuenyti að eiga gott samstarf, bæði gagnvart því sem snýr að menntuninni og hins vegar því sem snýr að starfsréttindunum. Það er skynsamlegt að koma því fyrir þannig að það sé sitt hvort ráðuneytið sem gefur þetta út, annars vegar það sem sér um starfsréttindin og hitt sem sér um menntunina, en það þarf líka að vera mjög náið samstarf þar á milli og ég mun leita eftir því að það verði gert.