Lagaskil á sviði samningaréttar

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 15:53:06 (326)

1999-10-11 15:53:06# 125. lþ. 6.3 fundur 70. mál: #A lagaskil á sviði samningaréttar# frv. 43/2000, viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[15:53]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um lagaskil á sviði samningaréttar sem er 70. mál þingsins á þskj. 70. Frv. þetta var áður flutt á 123. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga vegna mikilla anna þess þings.

Á undanförnum árum hefur viðskiptafrelsi stóraukist á Íslandi. Útrás íslenskra fyrirtækja og alþjóðavæðing íslensks athafnalífs er því orðin staðreynd. Eftir því sem viðskipti einstaklinga og fyrirtækja yfir landamæri verða algengari eykst nauðsyn þess að í lögum sé að finna skýrar reglur um hvaða lög eigi að leggja til grundvallar í viðskiptum tveggja aðila sem ekki eru búsettir innan sama ríkis.

Meginreglan sem byggt er á í íslenskum lagaskilarétti á sviði fjármunaréttar er sú að aðilum sé frjálst að semja um það hvers lands lögum skuli beita um lögskipti þeirra.

Ég vil þá, með leyfi forseta, víkja að einstökum ákvæðum frv.

Í 1. gr. er gildissvið frv. afmarkað. Samkvæmt þeirri grein eiga ákvæði þessa frv. við um allar einkaréttarlegar samningsskuldbindingar sem tengjast fleiri en einu landi í þeim tilvikum þegar ákveða þarf hvers lands lögum skuli beitt. Frá þessu eru þó nokkrar undantekningar sem taldar eru upp í 1. gr. frv. Til dæmis eiga ákvæði þessa frv. ekki við samninga milli hjóna um fjármál, skuldbindingar sem varða erfðir, gerhæfi einstaklinga eða sérákvæði laga um skráningu og skipulag félaga, heimildir til prókúru þegar um er að ræða lögpersónur og fleira því um líkt. Ákvæði frv. taka heldur ekki til vátryggingarsamninga eða samninga sem varða endurtryggingar.

Í 2. gr. kemur fram að frv. hefur víðfeðmt gildissvið. Ákvæði þess er því ekki bundið við það að beita þurfi lögum lands sem er innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Í 3. gr. er staðfest sú meginregla sem hér hefur áður verið vikið að, þ.e. að virða beri samning aðila um val á lögum og hafi þeir tekið ákvörðun um það atriði í samningnum sín á milli. Reglan sækir stoð sína í grundvallarregluna um samningsfrelsi og styðst við augljós rök sem ekki þarf frekar að rökstyðja hér.

Í 1. mgr. 4. gr. kemur fram sú regla að þegar aðilar hafa ekki samið um lagaskil og ekki verður með neinni vissu ráðið af samningum eða að öðru leyti hvers lands lögum aðilar ætlast til að verði beitt þá skuli beita lögum þess lands sem samningurinn hefur sterkust tengsl við.

Mælikvarðinn sem þannig er notaður í 1. mgr. 4. gr. er vissulega matskenndur en þessari reglu hefur þó verið talið að eigi að beita í öðrum Evrópuríkjum. Af þessum sökum hefur þótt nauðsynlegt að leggja til nokkrar leiðbeinandi reglur sem hafa skal til hliðsjónar við þetta mat, sbr. ákvæði 2.--5. mgr. 4. gr. frv. sem eru nánar skilgreindar í grg. þess.

5. gr. frv. hefur að geyma sértæka lagaskilareglu varðandi neytendasamninga en það hugtak á sér samsvörun í Lugano-samningnum sem lögfestur var með lögum nr. 68/1995. Tilgangur ákvæðisins er að vernda neytendur og samninga þeirra við þá sem selja vöru og þjónustu í atvinnuskyni og eru því í sterkari stöðu við samningsgerðina.

Í 2. mgr. 5. gr. er að finna takmarkanir á frelsi til að semja um það hvaða lög skuli gilda ef um er að ræða samninga við neytendur.

Í 6. gr. eru ákvæði um fela í sér vissar takmarkanir á frelsi til að semja um lagaskil þegar um er að ræða vinnusamninga og miða þær að vernd launþega.

Í 7. gr. er að finna ákvæði sem eiga að stuðla að því að ekki sé unnt að komast hjá beitingu ófrávíkjanlegra reglna þegar málsatvik eru með þeim hætti að eðlilegt er talið að beita ófrávíkjanlegum reglum í því landi sem samningurinn hefur náin tengsl við eða þar sem mál er rekið fyrir dómstóli.

Í 8. og 9. gr. frv. er að finna nánari reglur um efnislegt og formlegt gildi samninga ef ágreiningur kemur upp um það atriði.

Í 10. gr. er kveðið á um að í öllum aðalatriðum skuli farið eftir þeim lögum sem gilda um samninginn svo sem við túlkun samningsins, efndir, afleiðingar vanefnd, svo nokkur atriði séu nefnd.

Í 11., 12. og 13. gr. er fjallað um gerhæfisskort, framsal og innlausn réttinda.

Í 16. gr. er tekið fram að því aðeins sé heimilt að láta hjá líða að beita lögum tiltekins lands sem ákvæði þessa frv. vísa til að þau teljist augljóslega andstæð góðum siðum og allsherjarreglu. Þessa reglu má finna í lagaskilarétti flestra ríkja og er að sjálfsögðu undantekningarregla sem beita á með varúð.

Í 17. gr. kveðið á um afturvirkni og í 18. gr. er skýrð staða þessa frv. gagnvart öðrum reglum.

Herra forseti. Ég legg til að að aflokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. efh.- og viðskn.