Verkefni sem sinna má á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 03. nóvember 1999, kl. 15:27:30 (1085)

1999-11-03 15:27:30# 125. lþ. 18.8 fundur 51. mál: #A verkefni sem sinna má á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 125. lþ.

[15:27]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Á þskj. 51 sem er 51. mál þingsins spyr hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir um verkefni sem sinna má á landsbyggðinni. Fsp. hv. þm. er í tveimur liðum. Í fyrsta lagi spyr hv. þm.:

,,Hafa verkefni iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta eða undirstofnana og fyrirtækja þeirra sem unnt er að sinna á landsbyggðinni verið skilgreind, sbr. 6. lið í þingsályktun um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999--2001?``

Í öðru lagi er spurt:

,,Hvenær er gert ráð fyrir að ,,tillögur þar að lútandi sem meðal annars geri ráð fyrir að möguleikar upplýsingatækninnar verði nýttir til hins ýtrasta`` verði lagðar fram?``

Hv. þm. svaraði í raun og veru spurningunni hér sjálf í ágætri framsöguræðu, þ.e. efniviðurinn er kominn í skýrslu Iðntæknistofnunar. Ég tek undir það með hv. þm. að ráðuneytin þurfa að fara í að skilgreina hvernig hrinda eigi slíku í framkvæmd og ég kem aðeins inn á það síðar í þessu svari. En ég vonast til að hv. þm. sætti sig við að ég svari báðum þessum spurningum með einu svari.

Fyrst ætla ég að fá að lýsa hvað felst í 6. lið þál. en þar segir, með leyfi forseta:

,,Lögð verði áhersla á að opinberum störfum fjölgi eigi minna hlutfallslega á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Því markmiði verði meðal annars náð með því að leitast við að staðsetja nýja starfsemi hins opinbera utan höfuðborgarsvæðisins. Skilgreind verði eftir föngum þau verkefni einstakra ráðuneyta, stofnana og opinberra fyrirtækja sem unnt er að sinna á landsbyggðinni. Hvert ráðuneyti fyrir sig leggi fram tillögur þar að lútandi sem meðal annars geri ráð fyrir að möguleikar upplýsingatækninnar verði nýttir til hins ýtrasta.``

Eins og ég sagði áðan þá er tækið komið, gögnin liggja fyrir í þeirri skýrslu sem Iðntæknistofnun vann. Það er auðvitað frumgagn í þessu en var unnið fyrir Byggðastofnun og forsrn. Næsta skref tel ég vera, og það starf er hafið í iðnrn. og viðskrn. af því hv. þm. spyr um það, að skilgreina hvernig megi gera. Sú vinna er farin af stað og ég vonast til að um áramót liggi fyrir, betur skilgreint en nú er, hvernig hægt er að koma ýmiss konar starfsemi fyrir úti á landsbyggðinni.

[15:30]

Eins og hér hefur komið fram hefur hin nýútkomna skýrsla Iðntæknistofnunar, sem ber heitið Nýsköpun í gagna- og fjarvinnslu á landsbyggðinni, hlotið verðskuldaða athygli, en þar koma fram 211 hugmyndir um verkefni sem hugsanlega gætu hentað til gagna- eða fjarvinnslu á landsbyggðinni. Þessar hugmyndir hafa allar verið skoðaðar í iðn.- og viðskrn. og að mati sérfræðinga ráðuneytanna teljum við að verulegs ávinnings megi vænta af þeim verkefnum sem þarna eru upp talin. Verkefnin eru hins vegar sett í marga mismunandi flokka sem erfitt og misjafnlega hratt er hægt að hrinda í framkvæmd.

Tökum dæmi um símsvörun einstakra ráðuneyta. Hún gæti verið hvar sem er á landsbyggðinni, en að taka eitt ráðuneyti og ákveða að símsvörun þess skuli staðsett einhvers staðar úti á landi væri að mínu viti ekki skynsamlegt. Þess vegna ættu ráðuneytin að koma sér saman um að símsvörun fyrir nokkuð mörg ráðuneyti færi á sama stað. Nú þarf að vinna sameiginlega að slíkum verkefnum á vegum ráðuneytanna og skilgreina hvernig flytja mætti samstæð verkefni sem kannski falla undir mörg verkefni.

Ég tel að næsta skref til áramóta sé að Iðntæknistofnun ætti í samvinnu við Byggðastofnun að vinna að því með ráðuneytunum að skilgreina þessi verkefni og skilgreina þau þannig að þau væru í raun flutningshæf fljótlega upp úr næstu áramótum. Þetta tel ég að eigi að vera forgangsverkefnið og þetta mun ég leggja áherslu á.

Hv. þm. spyr bara um þetta eina verkefni en sem betur fer kemur nú fleira fram í þessari þáltill. Þar eru þrír aðrir liðir sem beinlínis snúa að iðn.- og viðskrn. Það er liður 7, þar sem um er getið að nýjum stóriðjuverkefnum skuli fundinn staður utan höfuðborgarsvæðisins. Nú veit ég að hv. þm. fagnar því sérstaklega að nú er unnið hörðum höndum að því að koma upp á Austurlandi byggingu álvers og tengja það við uppbyggingu orkufreks iðnaðar þar.

Í 8. liðnum er gert ráð fyrir að fram fari greining á möguleikum einstakra landshluta m.a. með tilliti til auðlindanýtingar. Sérstök nefnd er í gangi undir kjörorðinu maður, nýting, náttúra, sem er undir forustu Sveinbjörns Björnssonar, um að skilgreina nýtingu vatnsafls og jarðvarma til langs tíma.

Þriðji þátturinn sem undir viðskrn. heyrir snýr m.a. að þeim fjármunum sem ætlaðir eru til niðurgreiðslu á rafhitun til að auka notkun á jarðvarma til húshitunar, reglur um það voru settar í gær og gert ráð fyrir 90 millj. kr. Ég svara því reyndar í fyrirspurn næst á eftir þessari sem nú er til umfjöllunar.