Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 14:19:18 (1462)

1999-11-16 14:19:18# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[14:19]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er margt sem fram kom í ræðu hv. þm. sem rétt væri að gera athugasemdir við og þá aðeins eitt í upphafi sem ég vil minnast á. Hv. þm. gerði óskaplega mikið úr því að vitnað skyldi í flokksfélaga hv. þm., fyrrv. hæstv. iðnrh., Hjörleif Guttormsson. Þar var ég að vitna í gögn sem fyrir liggja í þinginu og ræðu sem hv. þm. og fyrrv. hæstv. ráðherra flutti í þinginu. Þetta var afskaplega ómaklega að verki staðið að mati hv. þm. Hann var ekki lengra kominn, hv. þm., í ræðu sinni en hann hóf heiftarlegar árásir á fyrrv. iðnrh. sem er ekki á meðal okkar í dag og er fjarstaddur, á bankastjóra Landsbankans og ýmsa starfsmenn sem hafa komið að málinu. Þetta lýsir betur en nokkuð annað öllum málflutningi þess hv. þm. sem hér var að tala áðan, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, og hann dæmir sig sjálfur.