Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 14:27:24 (1622)

1999-11-17 14:27:24# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[14:27]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Fyrir utan það að hv. þm. Ögmundur Jónasson er alþingismaður Reykvíkinga þá er hann jafnframt formaður Bandalags ríkis og bæja. Í málflutningi sínum þar og á þeim vettvangi hefur hv. þm. lagt höfuðáherslu á samstöðu í verkalýðshreyfingunni, verið talsmaður þess og ég fagna því og ég held að það sé styrkleiki verkalýðshreyfingarinnar að tala með þeim hætti að hún þurfi að standa saman, hvort sem menn skipast í raðir opinberra starfsmanna eða á hinum almenna vinnumarkaði.

Á 20. þingi Verkamannasambands Íslands var eftirfarandi ályktun samþykkt:

,,20. þing Verkamannasambands Íslands styður eindregið áform um virkjunarframkvæmdir á Austurlandi og nýtingu orkunnar til orkufreks iðnaðar í fjórðungnum.

Þingið leggur í þessu sambandi áherslu á eftirfarandi:

Fljótsdalsvirkjun ásamt álveri við Reyðarfjörð eru án efa áhrifamestu aðgerðir til að vinna gegn þeirri miklu byggðaröskun sem átt hefur sér stað mörg undanfarin ár á Austurlandi.

Álver við Reyðarfjörð mun hafa mikil áhrif á íbúa- og efnahagsþróun á Austurlandi auk jákvæðra áhrifa á íslenskt efnahags- og atvinnulíf.

Mikilvægt er að framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun hefjist að nýju sem fyrst þannig að ekki verði sett í uppnám áform um uppbyggingu álvers við Reyðarfjörð.``

Mér finnst einhvern veginn af málflutningi hv. þm. að ekki sé samhljómur í málflutningi hans á Alþingi og þeim hljómi sem kom frá þingi Verkamannasambands Íslands. Þar er ekki verið að tala um að þær framkvæmdir sem verið er að ráðast í séu glæfraspil. Þeir félagar sem þar eru eru líka eigendur að lífeyrissjóðunum í landinu og það verður að vera mat lífeyrissjóðanna í landinu hvort þeir telja að það verkefni sem þarna á að ráðast í sé arðbært eða ekki. (Forseti hringir.) Þess vegna skulum við ekki á þessari stundu vera með fullyrðingar út í loftið um það að ekki sé arður af þeim framkvæmdum sem á að fara í.