Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 18:20:54 (1667)

1999-11-17 18:20:54# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[18:20]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það kann vel að fara svo að ekkert verði af þessu verkefni, það hefur alltaf legið fyrir. Það eru engin ný sannindi sem hv. þm. er að færa fram. En auðvitað er hans sterkasta von að svo verði ekki. Ég held hins vegar að það sé ekki sterkasta von Austfirðinga og mjög margra landsmanna.

Þær tölur sem hv. þm. fór með um orkuverð og annað slíkt afgreiddi hann bara með einu orði, þær eru einfaldlega rangar og þar hefur hv. þm. ekkert fyrir sér. Hins vegar er alveg rétt að gert er ráð fyrir í umhverfismati fyrir álver að þar sé um að ræða 480 þús. tonna álver. Hins vegar er það líka svo, hv. þm., að engar skuldbindingar eru í þeirri yfirlýsingu sem er frá Hallormsstað um afhendingu á raforku nema til 120 þús. tonna álvers vegna þess að aðrar framkvæmdir á orkusviðinu verða að fara í mat á umhverfisáhrifum og þær munu líka falla undir þá rammaáætlun sem nú er í undirbúningi af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Varðandi áhættu í verkefninu talar hv. þm. eins og gert sé ráð fyrir að ríkið komi með stórkostlega fjármuni inn í þetta verkefni. Svo er ekki. Gert er ráð fyrir því að þetta verkefni geti orðið að 75--80% hluta í eigu íslenskra fjárfesta til þess að byrja með, 20--25% hluta í eigu norskra aðila eða Norsk Hydro. Þessir aðilar munu ekki taka þá áhættu að setja peninga sína í verkefnið ef ekki verður af því arður fyrir viðkomandi aðila. Það verður hv. þm. að hafa í huga. Fjárfestarnir munu ekki taka áhættuna af verkefninu nema af því verði arður.

Það sem snýr að Landsvirkjun í því er hins vegar fjárfestingin í orkumannvirkinu og þar má hv. þm. ekki reyna, sem hann er auðvitað að, hann veit betur, rugla þessum hlutum tveimur saman, annars vegar álverinu og hins vegar orkuverinu til þess að rugla menn í ríminu í þessu máli. Það er Landsvirkjun sem sér um virkjunina sem slíka. Það kemur síðan í ljós hvort þeir aðilar á markaði, bankar, séu ekki tilbúnir til að taka áhættuna af því að lána í verkefnið sem slíkt. (Forseti hringir.)

Við skulum bara sjá og bíða og athuga hvort það verði ekki niðurstaðan að Landsvirkjun hafi það lánstraust sem hún þarf til að taka þau lán vegna þess að allar lagaheimildir eru til staðar fyrir verkefninu sem slíku.