Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 19:28:11 (1697)

1999-11-17 19:28:11# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[19:28]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég heyrði á ræðu hv. þm. að hann er að ég hygg einlægur aðdáandi og stuðningsmaður þess að byggja upp landsbyggðina. Það er ég líka og tel það vera mjög mikilvægt. Mér finnst hins vegar gæta mjög mikils misskilnings í málflutningi hv. þm. þegar hann spyr: ,,Hafa Austfirðingar verið spurðir að því hvað þeir gætu gert við 60 milljarða kr.?`` Hver er að bjóða fram 60 milljarða kr.? Ég veit ekki til þess að nokkur sé að því. Ríkisstjórnin er ekki að því. Þetta verkefni kostar hugsanlega 60 milljarða kr. Fjárfestar eru hugsanlega tilbúnir til þess að taka þá áhættu að binda sína fjármuni með því að leggja fram eða taka að láni 60 milljarða kr. og ganga í ábyrgðir fyrir það af því að þeir meta það að arður verði af verkefninu. Ef menn gætu bent á önnur verkefni sem vel mundu henta inn í atvinnulíf á Austurlandi og sem bæru annan eins arð og er mat þessara fjárfesta af þessu verkefni, þá væru þeir peningar til reiðu. Á því leikur ekki nokkur einasti vafi. Þessu mega menn ekki rugla saman. Ég hef margoft tekið eftir því, því miður, við þessa umræðu að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er að reyna að rugla þjóðina (Forseti hringir.) og hefur tekist að rugla einstaka þingmenn vinstri grænna, því miður. (Gripið fram í: Ertu að segja að Jón sé ruglaður?)