Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 15:52:55 (2282)

1999-12-03 15:52:55# 125. lþ. 35.12 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[15:52]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Mér þykir miður ef svona mörgum spurningum er ósvarað. Þar hefur valdið þar mestu tímaskortur í annarri ræðu minni. Varðandi ráðstöfun peninganna þá sagði ég: Þetta á ekki að fara í eyðslu. Og ég vona að hv. þm. sé mér sammála (JóhS: Í fjárfestingu.) í þeim efnum. Þetta getur farið í fjárfestingu, einhverja fjárfestingu sem pólitísk samstaða yrði um í þinginu. Í öðru lagi getur þetta farið til að greiða niður skuldir. En það hefur einfaldlega ekki verið tekin ákvörðun um það nákvæmlega hvernig þessu skuli ráðstafað. Ég get því ekki svarað því nákvæmar heldur en þetta.

Hvað varðar áhrifin á þensluna og mat í þeim efnum og vitnað er í Seðlabankann sem slíkan, þ.e. að við höfum ekki haft beint samráð við hann um þetta. En ef maður les ársskýrslu Seðlabankans og þessa ársfjórðungsskýrslu sem kom út þá hefur það verið áhersluatriði Seðlabankans að þessir eignarhlutir í bönkunum væru seldir sem allra fyrst í þeim tilgangi að slá á þensluna. Ég býst því við að Seðlabankinn verði þessu mati okkar sammála þegar upp er staðið, en sjálfsagt er að ræða það í efh.- og viðskn.

En af hverju er tíminn svona mikilvægur? Ég vil bæta einu atriði við í þeim efnum. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. að viss hætta er fólgin í því að ef að salan fer fram núna og bankarnir lána kannski 100% fyrir sölunni og síðan verði selt með ábata, sem við skulum vona að allir geti, þá mundi það auka fjármagn í umferð. En ef við gerum þetta núna og þeir sem kaupa nýta sér þetta tækifæri til langtímafjárfestingar --- hlutabréfakaup eru langtímafjárfesting --- nýta kaupin sem langtímafjárfestingu og nýta sér skattafsláttinn sem slíkan, þá er búið samkvæmt þeim reglum að binda menn í fimm ár. (JóhS: En kennitölufárið?) Ég kem að því seinna. Þetta vildi ég bara skýra að þess vegna er svo mikilvægt að nýta þennan tíma þannig að menn séu bundnir í fimm ár. Við missum það tækifæri frá okkur eftir áramótin.

Þá kem ég að kennitölufárinu eins og hv. þm. nefndi það. Mér fannst hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ekki mikið gera úr skýringu minni á því að ég tel að það sé liðið hjá, en reynslan var sú að þeir sem skráðu sig eða létu skrá nöfn sín til þátttöku í hlutabréfakaupum eða afsöluðu sér kennitölu sinni til annarra og fengu síðan greitt fast verð í sölunni fyrir það sem selt var til baka, þ.e. sömdu um það fyrir fram, urðu fyrir skaða. Þeir höfðu ekki jafnmikinn ábata út úr sínum viðskiptum og þeir sem gerðu þetta á eigin forsendum. Það liggur fyrir vegna þess að verðmæti viðkomandi fyrirtækja fór langt umfram það sem þarna var um að ræða.

Kaupverð til starfsmanna var það fyrsta sem starfsmennirnir spurðu um á þessum fundi á mánudagsmorguninn. Skýrt svar var að svo er ekki. Þeir fengu mjög góðan ávinning á sínum tíma af þessu. Það er regla einkavæðingarnefndarinnar, og staðið hefur verið við hana, að í annarri umferð eða þegar til frekari sölu komi séu ekki nein sérkjör til starfsmanna.

Hv. þm. spurði einnig um eiginfjárstöðuna. Þar er velt upp mjög mikilvægum hlut. Ég er nú reyndar ekki þeirrar skoðunar að við eigum að afhenda Fjármálaeftirlitinu fullt og óskorað vald í þeim efnum. Við þurfum í fyrsta lagi að fara að alþjóðlegum skuldbindingum í þessum efnum, þ.e. að til íslenskra banka séu að lágmarki gerðar sömu kröfur og gerðar eru til annarra fjármálastofnana í heiminum í þeim efnum, þ.e. hvaða kröfur eru gerðar um eiginfjárhlutfall. Ég tel hins vegar að við getum gert stífari kröfur og eigum jafnvel að gera stífari kröfur. Ég tek undir þær hugmyndir sem uppi hafa verið og ég hef heyrt frá Fjármálaeftirlitinu í þeim efnum. En það er ekki þar með sagt að við eigum að taka það út úr lögum um viðskiptabanka og sparisjóði. Við eigum ekki að afhenda það Fjármálaeftirlitinu. Við getum vel sett stífari kröfur í þeim efnum og það er alveg óvitlaust að hugsa það miðað við lítinn, þröngan markað eins og er á Íslandi, hvort við eigum, til að tryggja öryggið enn frekar, að gera harðari kröfur. En um leið og við gerum það þá skulum við líka gera okkur grein fyrir því að við værum að vissu leyti að leggja aðrar kvaðir á íslenskar fjármálastofnanir en fjármálastofnanir í löndunum í kringum okkur búa við.

Nú vonast ég til að ég hafi svarað öllum spurningum (JóhS: Nei.) hv. þm. Ef eitthvað er eftir þá gefst mér enn eitt tækifæri til að koma upp í andsvari til að fylla enn frekar út í myndina.