Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 11:38:43 (2674)

1999-12-10 11:38:43# 125. lþ. 42.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[11:38]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir getur treyst því, og ég mun leita eftir því, að haft verði jafngott samráð við starfsmenn þessara fyrirtækja og Samband ísl. bankamanna eins og ég hef haft í gegnum tíðina, og undirstrikað hefur verið á fundum efh.- og viðskn. hve gott það samstarf hefur verið. Og þegar þeir eru ánægðir og ég er ánægður með samstarfið þá getum við ekkert haft það betra en það.

Varðandi hitt atriðið sem snýr að aðkomu Alþingis að málinu þá ítreka ég aftur að þó svo að lögfræðingar kæmust að þeirri niðurstöðu að ekki þyrfti að leggja málið fyrir þingið þá tel ég eðlilegt að það sé gert. En hvort það verður gert eftir að slíkir samningar hafa verið gerðir eða ekki um einhvers konar sameiningu er útilokað að segja til um á þessari stundu. Ég tek dæmi: Flestallir slíkir stórir samningar hafa verið undirritaðir með fyrirvara um samþykki Alþingis og þeir síðan bornir undir Alþingi. Allir stórir alþjóðasamningar, stórir samningar um byggingu stóriðjuvera hafa allir verið undirritaðir með slíkum fyrirvara. Það er í raun og veru óframkvæmanlegt að ég hygg, þó er rétt að skoða hinn þáttinn, að gera slíka samninga nema þá að þeir séu staðfestir af ríkisstjórn með fyrirvara um samþykki Alþingis.

Ég veit að hv. þm. veit eftir að hafa setið mörg ár í ríkisstjórn, að slíka samninga er tæpast hægt að gera. 63 þingmenn geta ekki staðið í samningum við einhverja tiltekna aðila, einn eða tvo aðila um hagsmuni þjóðarinnar. Það verður að treysta ríkisstjórn til þess, en auðvitað kemur Alþingi að slíkum hlutum. Það er óframkvæmanlegt að 63 þingmenn standi í slíkum samningaviðræðum.