Ferill 22. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 22  —  22. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á iðnaðarlögum, nr. 42 18. maí 1978, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



1. gr.

    1. mgr. 8. gr. laganna orðast svo:
    Iðngreinar, sem reknar eru sem handiðnaður og löggiltar hafa verið í reglugerð iðnaðarráðherra, skulu ávallt reknar undir forstöðu meistara. Um löggildingu skal hafa samráð við menntamálaráðherra og landssamtök meistara og sveina.

2. gr.

    1. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
    Hver maður getur leyst til sín meistarabréf ef hann fullnægir skilyrðum 3. gr., hefur lokið sveinsprófi, unnið síðan undir stjórn meistara í iðngrein sinni eitt ár minnst og jafnframt lokið meistaraprófi í iðninni frá meistaraskóla. Eigi sveinn ekki völ á starfi undir stjórn meistara í nýrri iðngrein sinni fyrstu fimm árin eftir löggildingu hennar telst tveggja ára starf hans í þeirri grein jafngilt starfi hjá meistara en lögreglustjóri skal gefa viðkomandi félagi iðnaðarmanna, m.a. landssamtökum meistara og sveina, kost á að segja álit sitt á því hvort völ sé á slíku starfi. Sama gildir í iðngreinum þar sem ekki er starfandi meistari eða þar sem sveinn á af öðrum ástæðum sannanlega engan kost á starfi undir stjórn meistara.

3. gr.

    3. og 4. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
    Iðnaðarráðherra gefur út sveinsbréf.
    Greiða skal gjald samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs fyrir iðnaðarleyfi, meistarabréf og sveinsbréf.

4. gr.

    Í stað orðanna „til missis iðnaðarleyfis og meistarabréfs“ í 16. gr. laganna kemur: til missis iðnaðarleyfis, meistarabréfs og sveinsbréfs.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Samtímis fellur úr gildi 2. málsl. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 80/1996, um framhaldsskóla, varðandi reglugerð menntamálaráðherra að því er snertir löggiltar iðngreinar.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarpið var lagt fram á síðasta löggjafarþingi og er nú lagt fram á ný óbreytt.
    Markmiðið með frumvarpi þessu er tvíþætt. Annars vegar er ætlunin að leysa úr vanda sveina við að fá meistarabréf í iðngrein sinni ef eigi er völ á meistara í greininni (breyting á 1. mgr. 10. gr. iðnaðarlaga). Hins vegar er skilið á milli hlutverks menntamálaráðherra varðandi menntun í löggiltum iðngreinum og hlutverks iðnaðarráðherra við að veita mönnum síðan starfsréttindi. Breytingar á löggjöf að þessu leyti er gerð í samvinnu iðnaðarráðuneytisins og menntamálaráðuneytisins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er gert ráð fyrir því að iðnaðarráðherra ákveði í reglugerð hvaða iðngreinar séu löggiltar. Skv. 5. gr. frumvarpsins fellur við gildistöku laga á grundvelli frumvarpsins úr gildi ákvæði í lögum um framhaldsskóla en menntamálaráðherra hefur á grundvelli þess ákveðið í reglugerð hvaða iðngreinar séu löggiltar. Eðlilegra þykir að iðnaðarráðherra taki ákvarðanir þar að lútandi þar eð starfsréttindi í iðnaði heyra undir hann en ekki menntamálaráðherra sem sér hins vegar um menntun þeirra sem starfa í löggiltum iðngreinum. Gert er ráð fyrir að iðnaðarráðherra hafi samráð við menntamálaráðherra við mat á löggildingu enda getur löggildingin tengst kennslu, t.d. í fámennum iðngreinum, svo og að samráð sé haft við landssamtök meistara og sveina.

Um 2. gr.


    1. málsl. er efnislega óbreyttur.
    Þegar ný iðngrein er löggilt geta þeir sem fyrstir ljúka sveinsprófi í greininni ekki snúið sér til meistara í greininni og þannig fullnægt því skilyrði 1. mgr. 10. gr. iðnaðarlaga að starfa eitt ár undir stjórn meistara eftir sveinspróf. Það er með öðrum orðum ómögulegt. Úr þessu og jafnvel fleiri tilvikum, þegar ekki er völ á meistara í nýrri iðngrein, svo sem þegar nýr meistari annar ekki eftirspurn frá sveinum í iðngreininni, er ætlunin að bæta í 2. málsl. þessarar greinar frumvarpsins. Þar segir að eigi sveinn ekki völ á starfi undir stjórn meistara í nýrri iðngrein sinni fyrstu fimm árin eftir löggildingu hennar teljist tveggja ára starf hans í iðngreininni, sjálfstætt eða hjá öðrum, jafngilt starfi hjá meistara enda skuli lögreglustjóri í slíkum tilvikum gefa viðkomandi félagi iðnaðarmanna, m.a. landssamtökum meistara og sveina, kost á að segja álit sitt á því hvort völ sé á slíku starfi. Samkvæmt þessu miðast 2. málsl. við fyrstu fimm árin eftir löggildingu iðngreinarinnar en eftir þann tíma á 3. málsl. við. Eðlilegt þykir að gera kröfu um tveggja ára starf í þessum tilvikum þar eð ætla má að starf hjá meistara sé notadrýgra. Þá dregur slíkt skilyrði úr hættu á því að þess sé freistað að sniðganga ákvæðið um árs starf hjá meistara.
    Ákvæðum 3. málsl. greinarinnar er ætlað að leysa úr vanda ef ekki er starfandi meistari í iðngrein eða sveinn á af öðrum ástæðum sannanlega engan kost á starfi undir stjórn meistara, svo sem ef meistari í fámennri iðngrein er að vísu til en hann getur ekki, t.d. vegna aldurs eða heilsuleysis, tekið svein til starfa. Hér er eins og í 2. málsl. þörf á tveggja ára starfi og leita skal álits viðkomandi félags iðnaðarmanna.
    Stundum getur verið mikið matsatriði hvort völ sé á meistara. Almennt kann að mega líta svo á að völ sé á meistara ef meistari í iðngrein viðkomandi sveins er til hér á landi þannig að leita verði til hans en í sérstökum undantekningartilvikum má þó telja að ekki sé völ á meistara, t.d. ef fyrsti meistari í nýrri iðngrein getur ekki annað eftirspurn af hálfu sveina eða meistari færist undan að taka svein til starfa. Sakir þessara erfiðleika við matið er ráðgert að bæta inn í lögin ákvæði um að lögreglustjóri skuli gefa viðkomandi félagi iðnaðarmanna, m.a. landssamtökum meistara og sveina, kost á að segja álit sitt á málum, sbr. samsvarandi ákvæði um álit á viðurkenningu á starfi og starfsþjálfun í iðnaði í öðru EES-ríki skv. 3. mgr. 2. gr. laganna. Ágreining um synjun lögreglustjóra um meistarabréf, að fenginni umsögn iðnráðs að auki í tilvikum sem þessum, getur viðkomandi skv. 12. gr. iðnaðarlaga borið undir iðnaðarráðherra og enn fremur getur hann leitað úrskurðar dómstóla sem hafa síðasta orðið.
    Þar eð meistaraskóli er nú ávallt fyrir hendi er núverandi 2. málsl. felldur niður samkvæmt frumvarpinu.

Um 3. gr.


    Hér er kveðið á um það að iðnaðarráðherra skuli gefa út sveinsbréf en útgáfa sveinsbréfa er nú í höndum menntamálaráðherra á grundvelli 11. gr. reglugerðar nr. 278/1997, um sveinspróf. Jafnframt er í þessari grein frumvarpsins vísað til þess að samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs skal greiða gjald fyrir iðnaðarleyfi (nú 25.000 kr.), meistarabréf (nú 5.000 kr.) og sveinsbréf (nú 5.000 kr.). Breytist gjaldtaka ekki við flutning á útgáfu sveinsbréfa frá menntamálaráðherra til iðnaðarráðherra.

Um 4. gr.


    Hér er gert ráð fyrir nauðsynlegum breytingum á viðurlagaákvæðum 16. gr. iðnaðarlaga vegna ítrekaðs brots á lögunum. Geta slík brot samkvæmt frumvarpinu ekki einungis leitt til missis iðnaðarleyfis og meistarabréfs eins og nú er kveðið á um í iðnaðarlögum heldur einnig missis sveinsbréfs.

Um 5. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um gildistöku og jafnframt fellt niður ákvæði í lögum um framhaldsskóla, sbr. athugasemd við 1. gr. frumvarpsins.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á iðnaðarlögum, nr. 42/1978.


    Tilgangur frumvarpsins er tvíþættur, annars vegar að leysa úr vanda iðnsveina við að fá meistararéttindi í iðngrein ef ekki er völ á meistara og hins vegar að færa veitingu starfsleyfa í löggiltum iðngreinum frá menntamálaráðherra til iðnaðarráðherra.
    Í 2. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að umsóknir sveina sem sækja um meistarabréf og ekki eiga völ á að starfa undir stjórn meistara fari til umsagnar hjá viðkomandi félagi iðnaðarmanna áður en lögreglustjóri gefur út leyfið. Talið er að þetta fyrirkomulag hafi óveruleg áhrif á kostnað ríkissjóðs. Áfram er gert ráð fyrir að greitt sé gjald fyrir iðnaðarleyfi, meistarabréf og sveinsbréf samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs, en samkvæmt gildandi lögum er tekið 5 þús. kr. gjald fyrir meistarabréf.