Ferill 58. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.




125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 58 — 58. mál.



Frumvarp til laga



um breytingar á lagaákvæðum er varða húsaleigubætur.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Bryndís Hlöðversdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir,


Ásta R. Jóhannesdóttir, Sigríður Jóhannesdóttir.


I. KAFLI

Breytingar á lögum nr. 117 20. desember 1993,
um almannatryggingar, með síðari breytingum.

1. gr.

    3. málsl. 2. mgr. 11. gr. laganna orðast svo: Til tekna í þessu sambandi teljast ekki bætur almannatrygginga, tekjur úr lífeyrissjóðum eða bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.

2. gr.

     3. málsl. 4. mgr. 12. gr. laganna orðast svo: Til tekna í þessu sambandi teljast ekki bætur almannatrygginga, tekjur úr lífeyrissjóðum eða bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
a.      1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Ef aðrar tekjur ellilífeyrisþega en lífeyrir almannatrygginga og bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð fara ekki fram úr 217.319 kr. á ári skal greiða uppbót á lífeyri hans að upphæð 272.208 kr. á ári.
b.      1. málsl. 2. mgr. orðast svo: Ef aðrar tekjur örorkulífeyrisþega en lífeyrir almannatrygginga og bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð fara ekki fram úr 217.319 kr. á ári skal greiða uppbót á lífeyri hans að upphæð 279.840 kr. á ári.

II. KAFLI

Breyting á lögum nr. 118 23. desember 1993,
um félagslega aðstoð, með síðari breytingum.

4. gr.

    Orðin „aðrar en húsaleigubætur, eftir því sem við á“ í 2. málsl. 2. mgr. 1. gr. laganna falla brott.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 138 23. desember 1997,
um húsaleigubætur.

5. gr.

    Orðin „og húsaleigubætur fyrra árs“ í 2. mgr. 9. gr. laganna falla brott.

IV. KAFLI
Gildistaka.
6. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2000.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er flutt samhliða frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt en þar er lagt til að húsaleigubætur verði undanþegnar skattskyldu líkt og vaxtabætur. Verði það frumvarp að lögum er nauðsynlegt að gera lagfæringar á öðrum lögum þar sem vísað er til húsaleigubóta.
    Í lögum um félagslega aðstoð, nr. 118/1993, og lögum um almannatryggingar, nr. 117/ 1993, hafa húsaleigubætur verið teknar út úr tekjustofni til viðmiðunar, en þess gerist ekki lengur þörf ef húsaleigubætur teljast ekki til tekna í skilningi skattalaga, verði fyrrnefnt frumvarp að lögum. Sama gildir um lög um húsaleigubætur, nr. 138/1997, en þar er að finna sérákvæði um að húsaleigubætur fyrra árs myndi ekki tekjustofn til skerðingar á bótum.