Ferill 35. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 92  —  35. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur um Kyoto-bókunina.

     1.      Hver eru skilyrði þau og fyrirvarar sem íslensk stjórnvöld setja fyrir væntanlegri aðild Íslands að Kyoto-bókuninni, með vísan til þeirrar stefnu ríkisstjórnarinnar að „Ísland gerist aðili að Kyoto-bókuninni þegar fyrir liggur ásættanleg niðurstaða í sérmálum þess“, sbr. stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar?
    Það er stefna ríkisstjórnarinnar að Ísland gerist aðili að Kyoto-bókuninni þegar viðunandi lausn fæst á vanda Íslendinga varðandi hana.
    Íslendingar lýstu því yfir þegar Kyoto-bókunin kom til lokaafgreiðslu aðildarríkjaþingsins í Kyoto að Ísland gæti ekki tekið á sig þær skuldbindingar sem bókunin felur í sér. Ekki var talið raunhæft að standa við þær sökum sérstöðu Íslands, fyrst og fremst sökum smæðar hagkerfisins og hlutfallslega mikilla áhrifa einstakra framkvæmda á heildarlosun gróðurhúsalofttegunda. Þessi sérstaða Íslands var viðurkennd í Kyoto þar sem aðildarríkjaþingið samþykkti að taka skyldi til skoðunar og, eftir atvikum, gera ráðstafanir vegna stöðu ríkja þar sem einstakar framkvæmdir geta haft veruleg hlutfallsleg áhrif á heildarlosun viðkomandi ríkis.
    Í framhaldi af þessari samþykkt lagði Ísland fram tillögu til lausnar þessu vandamáli sumarið 1997. Tillagan hefur verið til skoðunar hjá aðildarríkjum loftslagssamningsins. Í henni felst að losun frá iðnverum sem leiðir til meira en 5% aukningar í heildarlosun einstaks ríkis verði haldið utan við losunarmörk Kyoto-bókunarinnar með tilteknum skilyrðum. Þessi skilyrði eru í fyrsta lagi að heildarlosun viðkomandi ríkis sé ekki meiri en 0,05% af heildarlosun allra ríkja sem skráð eru í Annex I miðað við losun þeirra árið 1990, í öðru lagi að endurnýjanlegir orkugjafar séu notaðir til framleiðslu þeirrar orku sem notuð er í iðnverinu og í þriðja lagi að notast sé við bestu umhverfisvenjur við framleiðsluna.
    Samþykkt þessarar tillögu eða annars fyrirkomulags sem gerir Íslandi mögulegt að auka nýtingu endurnýjanlegra orkulinda mundi gera Íslandi kleift að gerast aðili að bókuninni.

     2.      Hvaða horfur eru taldar á að á þau verið fallist þannig að Ísland verði aðili að bókuninni?
    Sjónarmið Íslands hafa mætt vaxandi skilningi meðal aðildarríkja loftslagssamningsins. Hvort fallist verður á þau ræðst hins vegar ekki eingöngu af viðhorfum ríkja til sérstöðu Íslands heldur einnig af niðurstöðu yfirstandandi samningaviðræðna um framkvæmd sveigjanleikaákvæðanna svokölluðu. Lausn á okkar málum er háð lyktum þeirra samninga.

     3.      Hvað hefur gerst í þessu máli í framhaldi af fjórða aðildarríkjaþingi rammasamnings Sameinuðu þjóðanna sem haldið var í nóvember 1998?
    Tillaga Íslands hefur verið til athugunar hjá aðildarríkjum loftslagssamningsins. Skriflegar athugasemdir bárust í framhaldi af fjórða aðildarríkjaþinginu frá nokkrum löndum og hefur þeim verið svarað. Svörin voru birt sem þingskjal á fundum undirnefnda loftslagssamningsins í Bonn sl. vor. Utanríkisráðherra og aðrir ráðherrar hafa átt fjölda tvíhliða viðræðufunda við önnur ríki um tillögu Íslands. Sendinefnd Íslands hefur einnig kynnt sérstöðu landsins fyrir ESB-ríkjunum, framkvæmdastjórn ESB, öðrum Norðurlöndum og OECD-ríkjum, samstarfsríkjunum í „regnhlífarhópnum“ svonefnda og alþjóðlegum umhverfisverndarsamtökum. Einnig hafa farið fram óformlegar viðræður við fulltrúa einstakra þróunarríkja á vinnunefndafundum rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.

     4.      Hvers vænta íslensk stjórnvöld af fimmta aðildarríkjaþinginu sem fram undan er?
    Þess er vænst að árangur náist í sambandi við framkvæmd sveigjanleikaákvæðanna sem greiði fyrir niðurstöðu á 6. aðildarríkjaþinginu. Þá vænta íslensk stjórnvöld þess að þar ljúki tæknilegri umfjöllun um íslensku tillöguna þannig að samningaviðræður um lausn málsins geti hafist.

     5.      Hvenær er þess að vænta að endanleg afstaða verði tekin til „íslenska ákvæðisins“?
    Endanlegrar afstöðu til „íslenska ákvæðisins“ er að vænta á 6. aðildarríkjaþinginu, sem haldið verður í árslok árið 2000 eða fyrri hluta árs 2001, samhliða ákvörðun um sveigjanleikaákvæðin.