Ferill 95. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 96  —  95. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á umferðarlögum, nr. 50 30. mars 1987, með síðari breytingum.

Flm.: Gísli S. Einarsson.



1. gr.

    38. gr. laganna orðast svo:
    Ökuhraði bifreiðar, sem er meira en 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd, má aldrei vera meiri en 90 km á klst.
    Ökuhraði bifreiðar með eftirvagn eða skráð tengitæki má aldrei vera meiri en 90 km á klst.
    Dómsmálaráðherra getur sett reglur um að ákveða megi sérstakan lægri hámarkshraða vélknúins ökutækis en segir í 37. gr. og 1. og 2. mgr. þessarar greinar ef hönnun ökutækis krefst þess.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er flutt til að bregðast við aðstæðum á ökuleiðum landsins. Ljóst er að flestar bifreiðar eru þannig búnar að unnt er að aka þeim á hámarkshraða alls staðar á íslenskum vegum. Gildir það bæði um vöruflutninga- og fólksflutningabifreiðar. Gert er ráð fyrir að sami hámarkshraði gildi í þéttbýli fyrir allar gerðir bifreiða. Rökrétt er að sama gildi úti á þjóðvegum og ekki ástæða til að rökstyðja það frekar í greinargerð.
    Mörg umferðaróhöpp hafa orðið við framúrakstur. Megintilgangur þessa frumvarps er að stuðla að fækkun umferðaróhappa. Þar sem mismunandi umferðarhraði gildir fyrir mismunandi tegundir ökutækja er hættan sérstaklega mikil, ekki síst þegar umferðin er mjög þung, t.d. í nálægð þéttbýlis víða á landinu, sér í lagi í nágrenni Reykjavíkur. Tillitsleysi við framúrakstur hefur valdið alvarlegum óhöppum, t.d. þegar bifreiðastjóri ökutækis sem aka skal fram úr gefur merki um að umferð sé á móti er þeirri viðvörun ekki alltaf sinnt og stendur þá oft tæpt. Við slíkar aðstæður hafa orðið alvarleg slys. Þá er og á leiðum þar sem lítið er um að stórar bifreiðar þurfi að draga úr hraða vegna aðstæðna, svo sem á Keflavíkurvegi og víða á Suður- og Norðurlandi, mjög óeðlilegt að hámarksökuhraði bifreiða sé misjafn.
    Umferðarslys á Íslandi eru of mörg og alvarleg. Þeim verður að fækka. Rétt er að vekja athygli á að víða á vegamótum og í nágrenni þéttbýlis er gert ráð fyrir að dregið skuli úr hraða. Þau fyrirmæli eru vafasöm í mörgum tilvikum. Áhrifaríkara væri t.d. að vara við hættu þar sem aðstæður gera ökumönnum skylt að draga úr hraða jafnvel enn meira en hámarkshraði segir til um. Þær aðstæður sem vísað er til eru m.a. við Grundarhverfi á Kjalarnesi, afleggjara að Vogum á Vatnsleysuströnd og víðar.
    Langt mál má hafa um hámarksökuhraða á Íslandi. Líklega eru gildandi lög í flestum tilvikum viðunandi en sú breyting sem hér er lögð til gæti að margra mati stuðlað að fækkun slysa.