Ferill 124. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 144  —  124. mál.




Beiðni um skýrslu



frá umhverfisráðherra um framkvæmd alþjóðlegra samninga á sviði náttúruverndar.

Frá Þórunni Sveinbjarnardóttur, Ástu R. Jóhannesdóttur, Björgvini G. Sigurðssyni, Bryndísi Hlöðversdóttur, Einari Má Sigurðarsyni, Gísla S. Einarssyni,


Guðmundi Árna Stefánssyni, Jóhanni Ársælssyni, Jóhönnu Sigurðardóttur,
Kristjáni L. Möller, Lúðvík Bergvinssyni, Merði Árnasyni,
Rannveigu Guðmundsdóttur, Sighvati Björgvinssyni, Sigríði Jóhannesdóttur,
Svanfríði Jónasdóttur og Össuri Skarphéðinssyni.


    Með vísan til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að umhverfisráðherra flytji Alþingi skýrslu um framkvæmd alþjóðlegra samninga sem íslenska ríkið er aðili að á sviði náttúruverndar.

Greinargerð.


    Nauðsynlegt er að ríkisstjórnin greini Alþingi frá því hvernig alþjóðlegum samningum á sviði umhverfismála, sem íslenska ríkið er aðili að, er framfylgt hér á landi. Íslenska ríkið er bundið ýmsum lagaákvæðum, alþjóðasamningum og öðrum skuldbindingum á sviði náttúruverndar, ekki síst er varðar vernd lífríkis og landslags. Má þar sérstaklega nefna samninginn um líffræðilega fjölbreytni sem lagður var fram til undirritunar ásamt rammasamningnum um loftslagsbreytingar á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun í Rio de Janeiro árið 1992. Ramsar-samþykktin um verndun votlendis frá árinu 1971 og Bernarsamningurinn frá 1979 um verndun villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu eru einnig mjög mikilvæg á sviði náttúruverndar. Íslenska ríkið hefur fullgilt alla þessa samninga með heimild frá Alþingi og ber þjóðréttarlega og pólitíska skyldu til að framfylgja ákvæðum þeirra. Einnig mætti nefna áætlun Evrópuríkja um verndun landslags og líffræðilegrar fjölbreytni sem íslenska ríkið hefur samþykkt með undirritun og 17. kafla „dagskrár 21“ sem samþykkt var á Ríó-ráðstefnunni 1992 og felur í sér pólitískar skyldur á sviði umhverfismála.
    Markmið samningsins um líffræðilega fjölbreytni er að vernda þá fjölbreytni, stuðla að sjálfbærri nýtingu lífrænna náttúruauðlinda og réttlátri skiptingu ávinnings sem hlýst af nýtingu þeirra. Í samningnum er m.a. kveðið á um að öll aðildarríki skuli gera áætlun um verndun líffræðilegrar fjölbreytni og sjálfbæra nýtingu hennar sem taki mið af þeim aðgerðum sem mælt er fyrir um í samningnum. Einnig ber aðildarríkjum að láta verndun líffræðilegrar fjölbreytni og sjálfbæra nýtingu hennar ná til allra þátta þjóðlífsins og veita fundi aðildarríkja upplýsingar um aðgerðir heima fyrir í skýrslu. Samþykkt var að fyrstu skýrslunni skyldi skilað fyrir 1. janúar 1998. Mikil umræða hefur orðið hér á landi um framkvæmd systursamningsins um loftslagsbreytingar en hljótt hefur verið um þennan samning, sem bendir til að honum hafi ekki verið sinnt eins og lög og samþykktir gera ráð fyrir. Rétt þykir því að óska eftir að umhverfisráðherra geri í skriflegri skýrslu grein fyrir því hvernig þessi samningur hafi verið kynntur og hvernig staðið hefur verið að framkvæmd hans í þau fimm ár sem liðin eru frá því að hann tók gildi hér á landi.
    Bernarsamningnum er ætlað að stuðla að verndun evrópskra tegunda villtra plantna og dýra og lífsvæða þeirra, einkum þeirra tegunda og lífsvæða sem fjölþjóðlega samvinnu þarf til að vernda. Sérstök áhersla er lögð á verndun lífsvæða þeirra tegunda sem talin eru upp í viðaukum samningsins en þar á meðal eru t.d. íslenskir andfuglar og fleiri fuglar sem nú er ógnað með áætlunum um framkvæmdir á Eyjabökkum og við Mývatn. Rétt þykir að fá upplýst hvernig þessum samningi er framfylgt og hvaða skorður hann setur framkvæmdum hér á landi.
    Með Ramsar-samþykktinni er stuðlað að verndun votlendis í heiminum, sérstaklega með tilliti til votlendisfugla. Samkvæmt honum ber íslenska ríkinu ekki aðeins að setja eitt eða fleiri svæði á skrá samningsins yfir alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði eins og gert hefur verið heldur einnig að framfylgja margvíslegum öðrum ákvæðum samþykktarinnar, svo sem að semja og hrinda í framkvæmd áætlun sem stuðlar að skynsamlegri nýtingu allra votlendissvæða. Óskað er eftir að umhverfisráðherra geri grein fyrir því hvernig staðið hefur verið að framkvæmd samþykktarinnar hér á landi og helstu ályktana og tilmæla sem samþykkt hafa verið á fundum aðildarríkja.
    Umhverfisráðherrar 55 ríkja, þar á meðal umhverfisráðherra Íslands, samþykktu 25. október 1995 í Sófíu í Búlgaríu umfangsmikla 20 ára áætlun um verndun líffræðilegrar fjölbreytni og fjölbreytni landslags í Evrópu. Áætluninni er skipt í fjögur fimm ára tímabil, það fyrsta nær til áranna 1996–2000 og var samþykkt aðgerðaáætlun fyrir það tímabil. Nú þegar því er að ljúka er eðlilegt að umhverfisráðherra geri grein fyrir framkvæmd þessarar áætlunar hér á landi.
    Mikilvægt er að stjórnvöld fylgi gerðum samningum eftir með setningu laga, útgáfu reglugerða þar um og öðrum stjórnvaldsaðgerðum sem kveðið er á um í þeim. Einnig er mikilvægt að framfylgja ályktunum og tilmælum sem samþykktar hafa verið á fundum aðildarríkja. Yfirlit um framkvæmd þessara samninga og helstu ályktana sem samþykktar hafa verið á fundum aðildarríkja óskast því í formi skýrslu frá umhverfisráðherra.