Ferill 144. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 165  —  144. mál.



Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Flm.: Svanfríður Jónasdóttir, Sighvatur Björgvinsson,


Jóhann Ársælsson, Lúðvík Bergvinsson.


1. gr.

    2. málsl. ákvæðis til bráðabirgða XXVI í lögunum orðast svo: Skal þeim úthlutað í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir sem geta ákveðið að aflaheimildirnar verði boðnar út, enda renni andvirði þeirra til uppbyggingar atvinnumála í viðkomandi sveitarfélagi.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í lögum um stjórn fiskveiða er bráðabirgðaákvæði XXVI, sem bætt var við lögin fyrri hluta árs 1999, þess efnis að Byggðastofnun hafi til og með fiskveiðiárinu 2005/2006 árlega til ráðstöfunar 1.500 þorskígildislestir til að styðja byggðarlög sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og skal þessum aflaheimildum ráðstafað í samráði við viðkomandi
sveitarstjórnir. Breytingin sem hér er lögð til er að sveitarstjórnirnar geti ákveðið að aflaheimildirnar verði boðnar út og andvirðið renni til uppbyggingar atvinnumála í sveitarfélaginu.
    Aflaheimildum Byggðastofnunar samkvæmt bráðabirgðaákvæði var öllum ráðstafað fyrir yfirstandandi fiskveiðiár, og raunar til næstu fimm ára, og skiptust þær sem hér segir:

Ísafjarðarbær
     Flateyri
115 tonn
     Suðureyri
102 tonn
     Þingeyri
170 tonn
Breiðdalsvík
181 tonn
Fáskrúðsfjörður
113 tonn
Stöðvarfjörður
94 tonn
Vesturbyggð
205 tonn
Seyðisfjörður
67 tonn
Kaldrananeshreppur
63 tonn
Hofsós
114 tonn
Grímsey
92 tonn
Bakkafjörður
72 tonn
Borgarfjörður eystri
112 tonn
Alls
1.500 tonn
    Byggðastofnun setti reglur fyrir úthlutun. Meginatriði þeirra voru þessi:
     1.      Kvótatap staðarins síðustu fimm ár. 5% reiknast sem 2 punktar, mest 30 punktar og mátti kvóti ársins 1998 ekki vera meiri en 4.000 tonn. Kvótaaukning, steinbítur þó ekki talinn með, mátti ekki vera meiri en 800 tonn sl. fimm ár og ekki miklar aðrar breytingar orðið í veiðum og vinnslu á tímabilinu.
     2.      Hlutur fiskveiða og fiskvinnslu í atvinnulífi staðarins. 2% reiknast sem einn punktur, mest 20 punktar. Einungis staðir með hærra hlutfall en 20% komu til greina við úthlutun. Þar skal vera bolfiskvinnsla við upphaf úthlutunartímabils.
     3.      Fækkun ársverka í fiskvinnslu og veiðum á fimm ára tímabili (1991–96). 2% reiknast sem einn punktur. Mest 15 punktar.
     4.      Frávik meðaltekna á íbúa frá landsmeðaltali. 2% reiknast sem 1 punktur. Mest 15 punktar.
     5.      Fólksfækkun síðustu fimm ár. Fækkun um hver 3% reiknast sem 1 punktur. Samtals mest 10 punktar.
     6.      Íbúafjöldi. 100 íbúar reiknast sem 1 punktur. Mest 10 punktar.
    Kvótanum var úthlutað til fimm ára og skulu forsendur skoðaðar árlega. Þá var kvótanum úthlutað til byggðarlaga á atvinnuþróunarsvæðum 1 og 2 á grundvelli skýrslu Byggðastofnunar um skiptingu landsins í atvinnuþróunarsvæði. Samkvæmt upplýsingum frá Byggðastofnun var úthlutun kvótans hugsuð til að treysta bæði veiðar og vinnslu og til að auka aflahlutdeild þessara byggðarlaga. Þá setti Byggðastofnun reglur um meðferð úthlutaðs kvóta þar sem segir m.a. að aflaheimildir skuli bundnar við vinnslu í viðkomandi byggðarlagi og,,eftir því sem við verður komið og hagkvæmt kann að teljast, veiddar af skipum í þeim byggðarlögum sem um ræðir. Þær eru afhentar án endurgjalds og má ekki selja eða leigja milli byggðarlaga … Það skip sem fær úthlutað kvóta frá sínu heimabyggðarlagi skal landa eins miklum hluta afla síns og mögulegt er í viðkomandi byggðarlagi á umræddu fiskveiðiári. Það skip sem fær úthlutað byggðakvóta frá sínu heimabyggðarlagi skal skuldbinda sig til að selja hvorki né leigja frá sér aflaheimildir í viðkomandi tegundum út fyrir byggðarlagið á því fiskveiðiári.“
    Tillögur sveitarfélaganna hafa verið mismunandi og hafa ráðist af mismunandi aðstæðum í sveitarfélögunum. Er skemmst frá því að segja að sterk viðbrögð hafa komið fram, bæði við úthlutun Byggðastofnunar og einnig því hvernig sveitarfélögin hafa lagt til að farið yrði með þessar aflaheimildir. Sjávarútvegsráðuneytið sendi frá sér minnisblað vegna úthlutunar Byggðastofnunar þar sem segir m.a.: ,,Ráðuneytið telur einsýnt að Byggðastofnun beri að taka afstöðu til úthlutunar aflaheimildanna, á hverju fiskveiðiári næstu sjö árin, enda ljóst að á þeim tíma getur ýmsilegt gerst sem getur haft áhrif á stöðu einstakra byggðarlaga í sjávarútvegi.“
    Eitt þeirra sveitarfélaga sem lent hafa í vanda með tillögur um hverjir ættu að fá úthlutað þeim takmörkuðu gæðum sem felast í aflaheimildunum er Vesturbyggð. Niðurstaða sveitarstjórnarinnar þar var sú að leggja til við Byggðastofnun að Vesturbyggð yrði heimilt að leigja byggðakvótann samkvæmt tillögum sem bæjarstjórn samþykkti en þær voru eftirfarandi:
     I.      Kvótinn verði leigður hæstbjóðanda.
     II.      Leigugjald kvótans renni í Atvinnuþróunarsjóð Vesturbyggðar sem yrði stofnaður fáist heimild Byggðastofnunar fyrir framangreindri málsmeðferð.
     III.      Rétt til þess að fá kvóta leigðan hafa allir bátar í aflamarks- og aflahámarkskerfi sem skráðir eru í Vesturbyggð og hafa veiðileyfi en aðrir bátar ekki.
     IV.      Skilyrt er að leigutaki landi eða hafi landað á fiskveiðiárinu a.m.k. jafnmiklu magni af eigin kvóta eða öðrum leigukvóta er að leigu byggðakvóta kemur.
     V.      Afla úr byggðakvóta ásamt skilyrtri tvöföldun skal landað til vinnslu í Vesturbyggð.
     VI.      Byggðastofnun gerir samning við fiskvinnslustöðvar í Vesturbyggð um móttöku aflans. Leitast skal við að skipta aflanum milli þeirra fiskvinnslustöðva sem starfandi eru í sveitarfélaginu.
     VII.      Bæjarstjórn beinir því til Byggðastofnunar að taka tillit til vilja þeirra íbúa í Vesturbyggð sem samkvæmt undirskriftalista óska þess að kvótanum verði skipt milli Bíldudals og Patreksfjarðar í tilteknu hlutfalli.
    Í greinargerð sem fylgir samþykkt bæjarstjórnar kemur m.a. fram að sveitarstjórnarmenn hafi ekki farið varhluta af því að úthlutun byggðakvóta er viðkvæmt mál enda um að ræða fá tonn en töluverð fjárhagsleg hlunnindi, sem margir vildu hlotið hafa. Aðkoma sveitarfélagsins að slíkri úthlutun sé vart til annars fallin en að veikja innri stoðir sveitarfélaga og, í einhverjum tilvikum, ala á tortryggni milli þeirra sem hljóta úthlutun og hinna sem ekkert fá. Bæjarstjórn telur þá leið sem hún leggur til vera þá farsælustu fyrir sveitarfélagið og að nauðsynlegt sé við meðferð byggðakvótans ,,að taka tillit til aðstæðna í hverju sveitarfélagi fyrir sig og njörfa ekki úthlutunarreglur með sama hætti hringinn í kringum landið, enda aðstæður mjög misjafnar og óvíst að það sem hentar á einum stað sé þeim næsta fyrir bestu“.
    Við þetta má bæta að við setningu aðalfundar Landssambands smábátaeigenda hvatti Örn Pálsson, framkvæmdastjóri félagsins, félaga sína til að fylkja sér um sameiginlega lausn á úthlutun byggðakvótans. Sagði hann að við úthlutunina ætti að fara að dæmi Vesturbyggðar og úthluta veiðiheimildum til útgerða sem gerðar eru út frá viðkomandi stöðum og óska eftir tilboðum frá þeim. Ekki ætti að búa til reglur um úthlutun, slíkt mundi ávallt vekja upp öfund, gremju og sundurlyndi í byggðarlögunum. Sagði Örn ekkert athugavert við það að veiðiheimildum væri úthlutað með þeim hætti að sem mestar tekjur rynnu til viðkomandi sveitarfélags, enda væri tilgangurinn að efla byggðina.
    Þrátt fyrir þetta er staðan sú að tillögu Vesturbyggðar hefur verið hafnað af hálfu formanns stjórnar Byggðastofnunar og hefur stofnunin nú sjálf tekið það í sínar hendur að gera tillögu að úthlutun kvótans, án atbeina bæjarstjórnar.
    Það er hins vegar mat flutningsmanna að heimila eigi sveitarfélögunum að bjóða veiðiheimildirnar út og sveitarfélögin fái andvirði þeirra til uppbyggingar atvinnumála í sveitarfélaginu. Aðstaða byggðarlaga og afstaða sveitarstjórna um landið er mismunandi þegar kemur að tillögugerð um úthlutun kvóta. Það er vandaverk að úthluta hlunnindum eins og ókeypis kvóta án þess að vekja upp tortryggni og deilur. Til þess eru hagsmunirnir einfaldlega of miklir. Það er því rétt að sveitarstjórnir eigi þann möguleika að bjóða kvótana út enda útboð löngu viðurkennd aðferð þegar vinna þarf tiltekin verk eða deila út takmörkuðum gæðum. Því er hér lögð til sú breyting að sveitarfélög geti ákveðið að aflaheimildir verði boðnar út, enda renni andvirði þeirra til uppbyggingar atvinnumála í viðkomandi sveitarfélagi.
    Jafnframt má rökstyðja nauðsyn þess að sveitafélög með fábreytt atvinnulíf fái með þessum hætti stuðning til þess að byggja sig upp á öðrum sviðum, ekki síst í ljósi þess að m.a. vegna tæknibreytinga hefur störfum í fiskvinnslu verið að fækka á undanförnum árum og er gert ráð fyrir að sú fækkun haldi áfram næstu ár. Þeim stöðum sem í meginatriðum hafa byggt á sjávarútvegi er því nauðsynlegt að breikka atvinnugrundvöll sinn ef þau eiga að halda í fólkið og veita því góð lífskjör.