Ferill 106. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 183  —  106. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur um kostun dagskrár Ríkisútvarpsins.

    Ráðuneytið leitaði til Ríkisútvarpsins og svar við fyrirspurninni er byggt á upplýsingum þaðan.

     1.      Hvaða reglur gilda um kostun dagskrárliða Ríkisútvarpsins:
                  a.      á Rás 1,
                  b.      á Rás 2,
                  c.      í Sjónvarpinu?

    Um kostun dagskrárliða hjá Ríkisútvarpinu, þ.e. í Sjónvarpinu og Rás 1 og Rás 2 í Útvarpinu, gilda reglur sem útvarpsstjóri gefur út. Voru þær síðast endurskoðaðar og endurútgefnar 9. mars 1999. Samkvæmt þeim er kostun dagskrárefnis skilgreind sem hvers kyns framlag lögaðila eða einstaklings til framleiðslu eða sýningar dagskrárliða í útvarpi eða sjónvarpi með það fyrir augum að vekja athygli á nafni hans, vörumerki eða ímynd. Ríkisútvarpinu er heimilt að láta kosta dagskrárefni innan ramma útvarpslaga og í samræmi við þær reglur sem í gildi eru hverju sinni innan stofnunarinnar og skal þess gætt að kostað dagskrárefni sé ljóslega auðkennt sem slíkt. Þá segir m.a. í reglunum að kostandi megi aldrei hafa áhrif á innihald eða efnistök við gerð kostaðs dagskrárliðar. Með öllu er óheimilt að leita kostunar á fréttum eða fréttatengdum þáttum og blanda saman kostun og auglýsingum. Reglurnar í heild eru í fylgiskjali.

     2.      Sinna einhverjir starfsmenn stofnunarinnar kostunarmálum eingöngu? Ef svo er, hversu margir?
    Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisútvarpinu sinna starfsmenn markaðssviðs Ríkisútvarpsins kostunarmálum með öðrum verkefnum, sem fyrst og fremst lúta að öflun auglýsinga. Þess eru dæmi að markaðssvið hafi ráðið fólk tímabundið til sérverkefna á þessu sviði, t.d. vegna heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu árið 1998.

     3.      Hversu miklar tekjur hefur Ríkisútvarpið haft af kostun dagskrárliða?
    Áætlaðar tekjur Ríkisútvarpsins af kostun dagskrárliða á þessu ári eru alls 44 millj. kr., þar af 33 millj. kr. í Sjónvarpinu, aðallega tengt íþróttum, en 11 millj. kr. í Útvarpinu af dagskrárliðum á Rás 2. Áætlað er að slíkar tekjur muni nema 1,7% af heildartekjum Ríkisútvarpsins á árinu.

     4.      Gilda einhverjar reglur um það hvernig slíkum tekjum er ráðstafað? Nýtur Rás 2 t.d. þeirra tekna sem þannig er aflað þar?
    Kostunartekjum er varið beint til gerðar einstakra dagskrárliða og gildir það um dagskrárþætti á Rás 2 sem aðra.
Fylgiskjal.


Reglur um kostun dagskrárefnis í Ríkisútvarpinu.



     1.      Kostun dagskrárefnis telst hvers konar framlag lögaðila eða einstaklings til framleiðslu eða sýningar dagskrárliða í útvarpi eða sjónvarpi, með það fyrir augum að vekja athygli á nafni hans, vörumerki eða ímynd. Ríkisútvarpinu er heimilt að láta kosta dagskrárefni innan ramma útvarpslaga, og í samræmi við þær reglur sem í gildi eru hverju sinni innan stofnunarinnar.
     2.      Kostandi má aldrei hafa áhrif á innihald eða efnistök við gerð kostaðs dagskrárliðar.
     3.      Efni kostaðs dagskrárliðar má ekki fela í sér beina hvatningu til kaupa eða leigu á vörum eða þjónustu kostanda eða annarra aðila.
     4.      Með öllu er óheimilt að leita kostunar á fréttum og fréttatengdum þáttum.
     5.      Allir kostunarsamningar skulu vera skriflegir. Markaðsstjóri annast gerð þeirra í samráði við hlutaðeigandi framkvæmdastjóra og hefur eftirlit með framkvæmd þeirra. Réttindi og skyldur samkvæmt kostunarsamningum má ekki framselja.
     6.      Ekki má tengja kostun vöru eða þjónustu, sem bannað er að auglýsa, sbr. 3. tölul. 2. gr. reglugerðar nr. 611/1989 um auglýsingar í útvarpi. Hið sama gildir um stjórnmála- og trúarsamtök hvers konar.
     7.      Kostað dagskrárefni skal ljóslega auðkennt sem slíkt með eftirfarandi hætti:
         Sjónvarp: Eitt skilti eða eitt ósamsett (óklippt) myndskeið með nafni kostunaraðila og/eða vörumerki frá honum birtist í upphafi og/eða lok útsendingar (3–5 sek.). Heimilt er að geta kostunaraðila í hvert sinn. Heimilt er einnig að geta um kostunina í kynningarstúfum á sambærilegan hátt. Fjöldi þeirra birtinga getur verið allt að fimm í sjónvarpi og allt að tíu í útvarpi fyrir hvern kostaðan dagskrárlið.
         Hljóðvarp: Kostunaraðila skal getið við upphaf og/eða lok útsendingar auk þess sem það er heimilt einu sinni á hverjum klukkutíma inni í viðkomandi dagskrárlið. Þá er heimilt að geta um kostunina í kynningarstúfum fyrir útsendingu samkvæmt nánari ákvörðun markaðsstjóra. Heimilt er að nota einkennisstef kostunaraðila í tilkynningu um kostun.
     8.      Óheimilt er að blanda saman kostun og auglýsingum, bæði í samningsgerð og útsendingu dagskrárefnis. Enn fremur er óheimilt að nota skilti, myndskeið eða hjóðrás úr auglýsingum þegar kostunaraðila er getið umfram það sem áður er tilgreint í 7. lið.
     9.      Verði ágreiningur vegna túlkunar á þessum reglum skal þeim ágreiningi vísað til útvarpsstjóra.
     10.      Ofanskráðar reglur taka til þeirra kostunarsamninga, sem undirritaðir eru eftir daginn í dag.

Reykjavík, 9. mars 1999,
Markús Örn Antonsson.