Ferill 163. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 189  —  163. mál.




Frumvarp til laga



um breytingar á ýmsum lögum vegna tilkomu rafrænnar eignarskráningar á verðbréfum.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



I. KAFLI

Breyting á lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997.

1. gr.

    Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 15. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir sem orðast svo: Seðlabankanum er samkvæmt samningi við reikningsstofnun heimil veðtrygging í rafbréfum reikningsstofnunar til tryggingar á efndalokum viðskipta þeirra með rafbréf og skal skrá veðréttindin skv. IV. kafla laga þessara. Hafi reikningsstofnun ekki uppfyllt skyldur sínar innan þess frests, sem ákveðinn er í gildandi reglum um viðskipti samkvæmt þessari grein, er Seðlabankanum heimilt að innleysa þegar í stað þau rafbréf sem standa til tryggingar hlutaðeigandi efndalokum.

2. gr.

    Í stað orðsins „hennar“ í 2. mgr. 16. gr laganna kemur: þess.

3. gr.

    Við ákvæði til bráðabirgða II í lögunum bætist nýr málsliður er orðast svo: Að uppfylltum skilyrðum um innköllun samkvæmt reglugerð og að lokinni yfirfærslu og eignarskráningu í verðbréfamiðstöð eru hin áþreifanlegu verðbréf ógild.

II. KAFLI

Breyting á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991.

4. gr.

    Í stað orðanna „viðskiptabönkum og sparisjóðum“ í 2. málsl. 1. mgr. 82. gr. laganna kemur: viðskiptabönkum, sparisjóðum og verðbréfamiðstöðvum.

III. KAFLI

Breyting á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998.

5. gr.

    22. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:

Hlutkesti.


    Íbúðalánasjóður innheimtir afborganir og vexti af keyptum fasteignaveðbréfum og ráðstafar því fé sem þannig innheimtist til endurgreiðslu húsbréfa eftir hlutkesti sem sýslumaður hefur umsjón með.
    Íbúðalánasjóður yfirfærir eldri flokka húsbréfa í áþreifanlegu formi í rafbréf samkvæmt lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131 frá 1997. Í auglýsingu skal tekið fram:
     1.      Hvort yfirfærsla tiltekinna flokka húsbréfa eigi sér ekki stað.
     2.      Dagsetning yfirfærslu, svo og dagsetning fyrsta útdráttar húsbréfa í verðbréfamiðstöð og tilhögun á greiðslum síðari útdrátta þar.
     3.      Önnur atriði er varða yfirfærslu húsbréfa í verðbréfamiðstöð, svo sem réttarstöðu eigenda áþreifanlegra bréfa gagnvart útdrætti o.fl.
    Að liðnum auglýstum fresti fara útgreiðslur á hlutkesti samkvæmt þessari grein einungis fram fyrir milligöngu verðbréfamiðstöðvar. Rétthafi kröfu samkvæmt hinu áþreifanlega húsbréfi getur vitjað hennar hjá útgefanda eða reikningsstofnun sem útgefandi vísar til, hafi skírteini ekki verið yfirfært til skráningar í verðbréfamiðstöð. Skal nánar kveðið á um framkvæmd hlutkestis og yfirfærslu samkvæmt þessari grein í reglugerð sem félagsmálaráðuneytið setur.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í árslok 1997 samþykkti Alþingi lög um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997. Í kjölfar þess hefur verið unnið að undirbúningi stofnunar verðbréfamiðstöðvar sem fyrirhugað er að taki til skráningar helstu markaðsverðbréf sem gefin eru út á Íslandi. Þess er vænst að slík skráning geti hafist í upphafi næsta árs. Eins og getið var um í upphaflegu frumvarpi til laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa var ljóst að nauðsynlegt kynni að vera að breyta ákvæðum einstakra laga til samræmis við það nýmæli sem felst í rafrænni útgáfu verðbréfa. Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, og breytingar á lögum nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa, en breytingar á síðastnefndu lögunum varða tryggingaréttindi Seðlabanka Íslands við efndalok viðskipta.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Við undirbúning að stofnun verðbréfamiðstöðvar hefur komið í ljós að æskilegt væri að hafa ákvæði í 15. gr. laganna sem veiti Seðlabanka Íslands beinan innlausnarrétt á þeim rafbréfum sem reikningsstofnun kann að leggja fram til tryggingar á fullu uppgjöri viðskipta (efndalokum). Gert er ráð fyrir að í sérstökum samningi reikningsstofnunar og Seðlabanka Íslands verði nánar skilgreint hvaða rafbréf skuli standa til tryggingar efndalokum og skal Seðlabankinn skrá slík veðréttindi samkvæmt ákvæðum IV. kafla laganna, um réttaráhrif skráningar o.fl. Tilgangurinn með setningu þessa ákvæðis er að stuðla því að uppgjör viðskipta við rafræna eignarskráningu verðbréfa fari fram á greiðan og öruggan hátt. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringa.

Um 2. gr.


    Hér er lagt til að lagfært verði orðalag í 16. gr. laga nr. 131/1997 en þar hafa orðið mistök í orðanotkun við setningu laganna sem reyndar eru augljós við lestur greinarinnar. Rétt þykir þó að lagfæra orðanotkunina nú þegar frumvarp er flutt um breytingu á lögunum. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringar.

Um 3. gr.


    Í ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 131/1997 er að finna ákvæði sem varða yfirfærslu þegar útgefinna verðbréfa úr hinu áþreifanlegu formi á pappír í rafrænt form, þ.e. rafbréf sem eignarskráð eru í verðbréfamiðstöð. Við setningu laganna var talið að framangreint ákvæði væri fullnægjandi og nægilega skýrt varðandi yfirfærslu þegar útgefinna bréfa og ógildingu þeirra þegar eignarskráning réttindanna hefur átt sér stað í verðbréfamiðstöð. Ráðuneytinu hafa hins vegar borist ábendingar um að æskilegt sé að í lögum sé að finna ákvæði sem hnykki á því að hið áþreifanlega verðbréf sé ógilt þegar innköllun og eignarskráningu þess sé lokið samkvæmt lögum, reglugerðum og reglum sem um það munu gilda. Bent hefur verið á að t.d. hafi verið sett bein ákvæði um þetta atriði þegar Alþingi samþykkti lög nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Í þeim lögum segir í 132. gr. að „hlutabréf í hlutafélögum, sem verða einkahlutafélög, verða ógild“.
    Í ákvæði til bráðabirgða II er gert ráð fyrir því gefin verði út reglugerð í tengslum við yfirfærslu verðbréfa og hefur frá upphafi verið að því stefnt að þar yrði tekið fram að ógilda eigi hin áþreifanlegu verðbréf þegar slík yfirfærsla á sér stað. Augljóst er að frá og með þeim tíma eru slík „áþreifanleg“ verðbréf ógild og í stað þeirra hefur komið rafbréf sem gefið hefur verið út í verðbréfamiðstöð og nýtur fullkominnar verndar samkvæmt lögum nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa, frá og með eignarskráningu réttindanna þar. Sú viðbót sem gerð er hér tillaga um að verði bætt við ákvæði til bráðbirgða II miðar því að því sem fyrr segir að hnykkja á því að við yfirfærslu í rafbréf sé hið áþreifanlega verðbréf ógilt og um leið fæst traustari lagastoð fyrir ákvæðum sem munu einnig kveða á um þetta í þeirri reglugerð sem fyrirhugað er að setja samkvæmt ákvæðinu.

Um 4. gr.


    Í gjaldþrotalögum, nr. 21/1991, eru bankar og sparisjóðir sérstaklega nefndir og þykir rétt að bæta verðbréfamiðstöð inn í þá upptalningu til frekari áréttingar. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringa.

Um 5. gr.


    Nú þegar er orðið mikið um húsbréf á verðbréfamarkaði. Því er mikilvægt að hagræðið sem felst í rafrænni skráningu þessara bréfa verði sem allra fyrst að veruleika. Í því skyni þykir rétt að gera þá breytingu sem hér er lögð til á 22. gr. laga nr. 44/1998 til að tryggja greiða og örugga yfirfærslu húsbréfa í rafrænt eignarskráð verðbréf. Hér er því lagt til að um leið og eignarskráningar í verðbréfamiðstöð verða tæknilega mögulegar fari fram yfirfærsla þegar útgefinna húsbréfa í áþreifanlegu formi í rafrænt eignarskráð rafbréf. Í því skyni mun verða birt auglýsing um dagsetningu yfirfærslunnar, svo og hvenær fyrsta greiðsla á útdregnum bréfum fari fram fyrir milligöngu verðbréfamiðstöðvar, sbr. 2. tölul. 2. mgr. þessarar greinar. Í 1. tölul. 2. mgr. er að finna heimild til þess að undanskilja einstaka flokka útgefinna húsbréfa frá yfirfærslu í rafrænt eignarskráð rafbréf. Hér er miðað við að sú staða komi aðeins upp í undantekningartilvikum, svo sem þegar stuttur tími er til þess að flokknum sé lokið eða fá bréf standa þar eftir, þannig að ekki sé hagkvæmt né ástæða til að yfirfæra flokkinn í rafrænt eignarskráð verðbréf eða því um líkt. Í 3. mgr. kemur fram að eftir að yfirfærsla hefur átt sér stað fara útgreiðslur fram samkvæmt útdrætti þannig að þær verði aðeins gerðar fyrir milligöngu verðbréfamiðstöðvar og mun það m.a. hvetja eigendur húsbréfa, svo og þá sem annast varðveislu slíkra bréfa, til að ganga frá eignarskráningu bréfanna í verðbréfamiðstöð innan þess frests sem kveðið verður á um í auglýsingu skv. 2. mgr. Hafi rétthafi kröfu að áþreifanlegu húsbréfi hins vegar ekki skilað inn hinu áþreifanlega verðbréfi sem dregið er út samkvæmt reglum um hlutkesti getur hann vitjað hennar hjá útgefanda eða þeirri reikningsstofnun sem Íbúðalánasjóður vísar til. Að ósk Íbúðalánasjóðs er ekki gert ráð fyrir því að breytt verði frá núverandi fyrirkomulagi varðandi útdrátt bréfa og því mun hann, hér eftir sem hingað til, fara fram hjá Raunvísindastofnun Háskólans, að viðstöddum fulltrúa sýslumanns og sjóðsins og niðurstöðurnar verða síðan sendar til verðbréfamiðstöðvar. Með því móti er verið að nýta áfram útdráttarforritið sem hingað til hefur verið notað, en það var hannað til að sjá um útdrátt fyrir happdrætti en nýtist fullkomlega fyrir útdrátt húsbréfa.

Um 6. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum


vegna tilkomu rafrænnar eignarskráningar á verðbréfum.


    Í frumvarpinu eru lagðar til smávægilegar breytingar á lögum nr. 131/1997 og 21/1991 sem ekki munu hafa kostnað í för með sér. Einnig eru lagðar til breytingar á lögum nr. 44/1998 í þeim tilgangi að auka hagræði og öryggi í viðskiptum með húsbréf og færa þau í nútímalegra form. Ætla má að stjórnsýslukostnaður við breytingu yfir í rafrænt kerfi verði um 500.000 kr. fyrsta árið eftir gildistöku laganna. Þó má gera ráð fyrir að þessi kostnaður skili sér strax á fyrsta ári í auknu hagræði og öryggi.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum ættu langtímaáhrif laganna að leiða til lækkunar á útgjöldum ríkissjóðs.