Ferill 175. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 202  —  175. mál.



                             

Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 80/1996, um framhaldsskóla, með síðari breytingum.

Flm.: Svanfríður Jónasdóttir, Sigríður Jóhannesdóttir.



1.      gr.

    3. mgr. 7. gr. laganna fellur brott.

    2.      gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Á Alþingi ungmenna sem haldið var í Alþingishúsinu við Austurvöll dagana 29.–31. mars 1999 var samþykkt ályktun um ungt fólk og menntun á 21. öldinni. Ályktunin er um margt athyglisverð en hún hefst á þessum orðum: „Alþingi ungmenna ályktar að stuðlað skuli að því að á nýrri öld hafi allir landsmenn jafnan aðgang og rétt til náms óháð búsetu, námsgetu, fötlun, efnahag eða öðrum aðstæðum.“ Fjallað er um það í tíu liðum til hvers skuli sérstaklega litið og eitt þeirra atriða er að endurinnritunargjöld í framhaldsskólum skuli „með öllu afnumin“.
    Menntamálaráðherra gaf út reglugerð um endurinnritunargjald 16. maí 1997, nr. 333/1997. Setning reglugerðarinnar byggist á 3. mgr. 7. gr. laga um framhaldsskóla, en málsgreinin fellur brott verði frumvarpið að lögum. Gjald þetta hefur verið nefnt fallskattur en samkvæmt reglugerðinni er framhaldsskólum heimilt að innheimta sérstakt gjald af nemendum við endurinnritun í bekkjardeild eða námsáfanga. Ekki hafa allir skólar nýtt sér heimild til innheimtu gjaldsins. Samkvæmt svörum menntamálaráðherra við fyrirspurn á 123. löggjafarþingi, en þá hafði gjaldið verið innheimt í þrjár annir, nam upphæðin í heild um 6 millj. kr. þannig að ekki er um háa fjárhæð að ræða. Í umræðum um gjaldið á Alþingi ungmenna kom berlega fram að framhaldsskólanemum var engan veginn ljóst hver tilgangurinn með innheimtu gjaldsins var, nema þá sem fallskatts sem þau efuðust um að ætti að leggja á nemendur því að ýmislegt, svo sem gæði kennslu og framboð á viðeigandi námi, gæti haft áhrif á námsframvindu einstaklings. Niðurstaða þeirra var því sú að rétt væri að afnema endurinnritunargjöld með öllu, eins og segir í ályktuninni um ungt fólk og menntun á 21. öld.
    Með þessu frumvarpi er lagt til að fella burt þá lagagrein sem endurinnritunargjaldið hvílir á og mæta þannig vilja ungmennanna sem töluðu svo skýrt á Alþingi ungmenna síðasta vor.