Ferill 181. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 210  —  181. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um Viðlagatryggingu Íslands, nr. 55/1992.

Flm.: Björgvin G. Sigurðsson, Einar Már Sigurðarson, Lúðvík Bergvinsson.



1. gr.

    1. gr. laganna orðast svo:
    Hlutverk Viðlagatryggingar Íslands er að vátryggja gegn tjóni af völdum náttúruhamfara sem nefndar eru í 4. gr. laga þessara og að veita styrki til rannsókna og framkvæmda sem ætlað er og sýnt er fram á að varni og dragi úr tjóni af völdum náttúruhamfara.

2. gr.

    21. gr. laganna orðast svo:
    Stjórn stofnunarinnar skal veita fé til rannsókna og til að styrkja framkvæmdir sem ætlað er að varna eða draga úr tjóni af völdum náttúruhamfara sé sannanlega sýnt fram á að um virkar forvarnir sé að ræða. Enn fremur er stjórninni heimilt að veita styrki til fræðslu- og þjálfunarmála þeirra landssamtaka sem hafa samstarfssamning við Almannavarnir ríkisins um skipun hjálparliðs. Árleg heildarfjárveiting í þessu skyni má þó ekki vera meiri en 8% af bókfærðum iðgjöldum síðasta árs.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er lagt fram í því skyni að koma í veg fyrir þær miklu og ófyrirséðu hörmungar sem náttúruhamfarir geta valdið með tilheyrandi eignatjóni og mannskaða. Með náttúruhamförum er m.a. átt við jarðskjálfta, skriðuföll, vatnsflóð og snjóflóð. Mikilvægt er að öflugt forvarnastarf verði unnið á þessu sviði svo að koma megi í veg fyrir eða minnka hættuna á eignatjóni og mannskaða. Sérstaklega er brýnt að afstýra tjóni sem orðið getur á heilbrigðisstofnunum, skólum og elliheimilum. Í mörgum tilfellum er einnig mikilvægt að veita einstaklingum styrki til slíkra forvarna sé sannanlega sýnt fram á að yfir lífi þeirra og eignum vofi vá náttúruhamfara.
    Það hefur margoft komið í ljós að náttúruhamfarir hafa valdið meira tjóni en orðið hefði ef forvarnastarfi hefði verið betur sinnt og meira fé runnið til þess. Viðlagatrygging Íslands ætti að hafa skýrara hlutverki að gegna í þessu sambandi og því er mikilvægt að umboð hennar og hlutverk til þess að veita fé til forvarna sé skýrara en það er nú. Því er lagt til í frumvarpi þessu að hún skuli veita fé til forvarna gegn náttúruhamförum sé sannanlega sýnt fram á að þær séu virkar.
    Í tíð Íslandsbyggðar hafa náttúruhamfarir margoft valdið gríðarlegu tjóni. Það eina sem komið getur í veg fyrir og minnkað hættuna sem af þeim stafar er fé til forvarna. Sem dæmi má nefna að hægt er að veita stofnunum og einstaklingum á jarðskjálftasvæðum fé til að styrkja gler í gluggum og til að koma upp neyðarútgönguleiðum úr byggingum og eins þyrfti að tryggja að þær byggðir landsins sem eru á snjóflóðasvæðum séu varðar sem skyldi.
    Í frumvarpinu er lagt til að hlutverk Viðlagatryggingar Íslands sé aukið í þá veru að hún virki sem forvörn gegn yfirvofandi náttúruhamförum auk þess að vátryggja gegn tjóni af völdum náttúruhamfara sem nefndar eru í 4. gr. laganna. Því er einnig mikilvægt að árleg heildarfjárveiting til Viðlagatryggingar Íslands megi vera hærri og lagt til að hún sé hækkuð í 8% af bókfærðum iðgjöldum síðasta árs svo að stofnunin geti sinnt þessu aukna hlutverki sínu.