Ferill 183. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 213  —  183. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um samræmt svæðisskipulag fyrir suðvesturhluta landsins.

Flm.: Helga Guðrún Jónasdóttir, Sturla D. Þorsteinsson, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson,


Árni Johnsen, Kristján Pálsson, Guðjón Guðmundsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að stuðla að gerð samræmds svæðisskipulags fyrir suðvesturhluta landsins í heild, í samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög, allt frá Borgarbyggð í vestri að Reykjanesbæ í suðri og til Árborgar í austri, enda sé fullur vilji fyrir slíku samstarfi innan þeirra.

Greinargerð.


    Fyrirsjáanleg þróun atvinnu- og byggðamála felur í sér skýr merki um mikilvægi þess að skipulagsmál standi á landfræðilega breiðari grunni en tíðkast hefur. Þetta á við um landið í heild, enda yrði slíkt landshlutaskipulag fyrir suðvesturhorn þess fyrirmynd að sams konar skipulagi fyrir aðra landshluta. Með því að mynda stærri ramma um skipulagsvinnu sveitarfélaga er unnt að móta samræmda stefnu sem tekur til þriggja meginþátta samgangna, þ.e. vega- og loftsamgangna og hafnarmannvirkja, þannig að úr verði heild sem styrkir til mikilla muna hagþróun á viðkomandi svæðum. Jafnframt getur slík skipulagsvinna fætt af sér frjórra samstarf og fjölþættari samvinnuverkefni sveitarfélaga en nú tíðkast.