Ferill 223. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 265  —  223. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)


1. gr.

    Á undan orðinu „námubifreiðar“ í 3. mgr. 1. gr. laganna kemur: belta- og.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      3. og 4. málsl. 1. mgr. B-liðar falla brott.
     b.      2. mgr. B-liðar verður svohljóðandi:
             Kílómetragjald ökutækja skv. 1. mgr. þessa stafliðar skal vera sem hér segir:

Leyfð heildar-
þyngd ökutækis, kg
Kílómetragjald,
kr.
Leyfð heildar-
þyngd ökutækis, kg
Kílómetragjald,
kr.
4.000–4.999 7,11 18.000–18.999 17,09
5.000–5.999 7,56 19.000–19.999 18,40
6.000–6.999 8,17 20.000–20.999 19,38
7.000–7.999 8,58 21.000–21.999 20,50
8.000–8.999 8,96 22.000–22.999 21,79
9.000–9.999 9,36 23.000–23.999 22,83
10.000–10.999 9,93 24.000–24.999 23,86
11.000–11.999 10,30 25.000–25.999 25,02
12.000–12.999 11,20 26.000–26.999 26,13
13.000–13.999 12,00 27.000–27.999 27,30
14.000–14.999 12,93 28.000–28.999 28,46
15.000–15.999 13,92 29.000–29.999 29,62
16.000–16.999 15,03 30.000–30.999 30,78
17.000–17.999 16,12 31.000 og yfir 31,94

     c.      3. mgr. B-liðar fellur brott.
     d.      4. mgr. B-liðar fellur brott.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „en eindagi síðasti dagur sama mánaðar“ í 2. málsl. 1. mgr. A-liðar kemur nýr málsliður er orðast svo: Eindagar skattsins eru 15. febrúar og 15. ágúst ár hvert.
     b.      5. málsl. 1. mgr. A-liðar fellur brott.
     c.      Orðin „í a.m.k. 15 daga samfellt“ í 1. málsl. 3. mgr. A-liðar falla brott.
     d.      Orðin „í jafnlangan tíma“ í 2. málsl. 3. mgr. A-liðar falla brott.
     e.      Í stað orðanna „er ríkisskattstjóra heimilt að“ í 3. málsl. 3. mgr. A-liðar kemur: skal ríkisskattstjóri.
     f.      Í stað orðanna „en eindagi síðasti dagur sama mánaðar“ í 1. málsl. 1. mgr. B-liðar kemur nýr málsliður er orðast svo: Eindagar skattsins eru 15. mars, 15. júlí og 15. nóvember ár hvert.
     g.      3. málsl. 1. mgr. B-liðar fellur brott.
     h.      3. mgr. B-liðar fellur brott.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „gjaldfallinn er“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: fallinn er í eindaga.
     b.      Orðin „og fast gjald þungaskatts skv. B-lið 4. gr. greitt til þess dags er eigendaskipti eru skráð í ökutækjaskrá“ í 2. málsl. 2. mgr. falla brott.

5. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
    Hinn 11. febrúar 2000 skal lagt á 33.333 kr. fast árgjald þungaskatts á bifreiðar sem eru að leyfðri heildarþyngd 14.000 kg eða meira, sbr. 3. málsl. 1. mgr. B-liðar 4. gr. laganna, fyrir gildistöku laga þessara.
    Ný gjaldskrá B-liðar 4. gr. tekur gildi 11. febrúar 2000. Nýja gjaldið fyrir hvern ekinn kílómetra tekur gildi strax að loknu öðru álestrartímabili sem er frá 20. janúar til 10. febrúar 2000, sbr. 2. mgr. B-liðar 7. gr. Sé ekki komið með ökutæki til álestrar á réttum tíma skal reikna út meðaltal ekinna kílómetra á dag á tímabilinu milli álestra. Þá skal hið nýja gjald innheimt eftir meðaltalsakstri eftir lok fyrrgreinds álestrartímabils.
    Þeir sem sótt hafa um heimild til ríkisskattstjóra til að greiða gjald fyrir gjaldárið 2000 er tekur mið af 95.000 km akstri í stað gjalds fyrir hvern ekinn kílómetra auk 100.000 kr. fasts árgjalds, sbr. 4. mgr. B-liðar 4. gr., fyrir gildistöku laga þessara, skulu halda rétti sínum til greiðslu áðurgreinds gjalds.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í 4. mgr. B-liðar 4. gr. laga nr. 3/1987, eins og þau giltu fram að breytingu með lögum nr. 83/1998, var að finna heimild til handa ráðherra til þess að veita afslátt af greiðslu þunga skatts sem innheimtur var samkvæmt ökumæli og féll á akstur vöruflutningabifreiða, þ.m.t. festi- og tengivagna. Afslátturinn jókst eftir því sem aksturinn var meiri og nam afslátturinn 10% hjá þeim er óku umfram 25.000 km á ári, 20% hjá þeim sem óku umfram 35.000 km á ári og 50% hjá þeim sem óku umfram 45.000 km á ári. Af akstri annarra bifreiða nam afsláttur 10% af akstri yfir 25.000 km á ári og 20% af akstri umfram 45.000 km á ári.
    Í áliti samkeppnisráðs, nr. 4/1997, kemur fram að ákvæði um að veita skuli stighækkandi afslátt af þungaskatti sem innheimtur er af eigendum eða umráðamönnum vöruflutninga bifreiða eftir því hversu mikið þeim er ekið mismuni og raski samkeppnisstöðu atvinnubif reiðastjóra. Það að veita meiri afslátt á greiðslu þungaskatts eftir því hve mikið er ekið leiðir að mati samkeppnisráðs, til þess að þeim sem aka mikið er tryggt forskot á nýja og smærri aðila á markaðinum. Með opinberum aðgerðum væri verið að draga úr samkeppni á þann hátt að aðgangur nýrra keppinauta væri heftur. Á þessum tíma stóð til að taka upp olíugjaldskerfi með lögum nr. 34/1995, um vörugjald af olíu. Með lögum nr. 90/1997 var gildistöku laganna frestað um ár og með lögum nr. 83/1998 var ákveðið að falla frá upptöku olíugjalds og lög nr. 34/1995 felld úr gildi.
    Með lögum nr. 83/1998 var afsláttakerfið afnumið, þ.e. felld voru niður ákvæði laga nr. 3/1987 sem veittu eigendum ökutækja, sem greiða þungaskatt samkvæmt ökumæli, rétt til afsláttar þegar að tiltekinni akstursvegalegnd var náð. Í stað þeirra voru sett ný ákvæði þar sem kveðið er á um að auk gjalds fyrir hvern ekinn kílómetra skuli greiða fast árgjald þunga skatts, 100.000 kr., af bifreiðum og eftirvögnum sem eru 14.000 kg eða meira að leyfðri heildarþyngd. Aðrar breytingar á lögunum voru gerðar með hliðsjón af þessari breytingu, t.d. að gjald vegna ekinna kílómetra lækkaði um 5% af ökutækjum sem eru undir 14.000 kg að leyfðri heildarþyngd en um 30% af ökutækjum sem eru 14.000 kg og þyngri, þ.e. af þeim bifreiðum sem greitt er af fast árgjald.
    Með lögum nr. 151/1998 var fast árgjald af tengi- og festivögnum fellt niður og lögfest sérstök gjaldskrá fyrir þá þannig að innheimt skyldi gjald fyrir hvern ekinn kílómetra sem væri breytilegt eftir leyfðri heildarþyngd vagnanna. Auk þess var eigendum og umráðamönn um ökutækja heimilað að velja, áður en gjaldár hæfist, að greiða gjald sem samsvaraði 95.000 km akstri á gjaldári í stað gjalds fyrir hvern ekinn kílómetra.
    Í áliti samkeppnisráðs nr. 8/1999 kemur fram það álit ráðsins að áðurgreindar breytingar sem gerðar voru á lögum nr. 3/1987 með lögum nr. 83/1998 og lögum nr. 151/1998 gangi þvert á þá hugsun sem fram hafi komið í áliti ráðsins nr. 4/1997 að afsláttur af þungaskatti leiði til samkeppnislegrar mismununar og aðgangshindrunar að markaðinum. Það fastagjald sem lagt er á bifreiðar 14.000 kg og þyngri valdi því að af þeim bifreiðum sé greiddur lægri skattur á hvern ekinn kílómetra í hlutfalli við þyngd en af þeim bifreiðum sem léttari eru og ekið er minna. Breytingarnar dragi úr samkeppnishæfni sambærilegra atvinnubifreiða til að þjóna sama markaði þar sem gjaldtakan hygli þeim sem aka mikið á kostnað þeirra sem minna aka. Sú röskun sem þannig eigi sér stað dragi verulega úr möguleikum nýrra keppi nauta á markaðinum jafnframt því að takmarka aðgang sem sé andstætt markmiði samkeppn islaga, nr. 8/1993, sbr. 1. gr. þeirra.
    Þeim breytingum sem fram koma í þessu frumvarpi er meðal annars ætlað að koma til móts við athugasemdir samkeppnisráðs. Lagt er til að afnumin verði skylda til greiðslu fasts árgjalds, 100.000 kr., af bifreiðum sem eru að leyfðri heildarþyngd 14.000 kg eða meira. Jafnframt er gerð tillaga um að gjaldskrár bifreiða og festi- og tengivagna verði sameinaðar að nýju og gefin út ný gjaldskrá sem tekur mið af því að fast árgjald er fallið brott. Einnig að afnumin verði heimild til handa eigendum eða umráðamönnum ökutækja til þess að velja, áður en gjaldár hefst, að greiða gjald sem samsvari 95.000 km akstri á gjaldári í stað gjalds fyrir hvern ekinn kílómetra.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Vegna breytinga sem gerðar hafa verið á reglugerðum um gerð og búnað ökutækja og skráningu þeirra hafa snjótroðarar sem ætlaðir eru til fólksflutninga og snjóbílar verið fluttir úr vinnuvélaskrá í ökutækjaskrá og eru þar skráðir sem beltabifreiðar. Við flutninginn yfir í ökutækjaskrá ættu beltabifreiðar, samkvæmt ákvæðum laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, að vera þungaskattsskyldar ef þær eru knúnar dísilolíu, sbr. 1. gr. laganna. Belta bifreiðar eru hins vegar tæki sem sérstaklega eru sniðin til að aka á snjó og þar af leiðandi utan vega. Lagt er til að beltabifreiðar sem eingöngu eru til nota utan vega verði undanþegnar greiðslu þungaskatts líkt og námubifreiðar sem eingöngu eru notaðar utan vega.

Um 2. gr.

    Um a og d-lið greinarinnar vísast til almennra athugasemda.
    Skv. b-lið greinarinnar er lögð til breyting á gjaldskrá kílómetragjalds fyrir ökutæki sem eru að gjaldþyngd 4.000 kg og yfir og skv. c-lið er lagt til að gjaldskrá fyrir kílómetragjald festi- og tengivagna sem sett var með lögum nr. 151/1998 verði afnumin. Þar sem lagt er til að afnema fast árgjald af bifreiðum sem eru að leyfðri heildarþyngd 14.000 kg eða meira þykir rétt að sameina að nýju gjaldskrár bifreiða og festi- og tengivagna og lögfesta eina gjaldskrá. Lagt er til að breyting verði gerð á kílómetragjaldi hvers þyngdarflokks ökutækja þannig að ekki komi til tekjurýrnunar og að gjaldið skili þeim tekjum sem fjárlög gera ráð fyrir. Miðað við akstur ársins 1998 og forsendur um aukinn akstur í vegáætlun fyrir árin 1998–2002 og forsendur fjárlaga er gert ráð fyrir að innheimta kílómetragjalds dísilbifreiða skili ríkissjóði 2.247 m.kr.

Um 3. gr.

    Í a og f-lið greinarinnar er lagt til að eindagi þungaskatts verði fimmtándi dagur næsta mánaðar eftir gjalddaga. Með breytingunni væri lengdur sá tími sem gjaldandi hefur til þess að inna greiðslu skattsins af hendi.
    Í b-lið greinarinnar er lagt til að afnumin verði sú álagningarregla að þungaskattur reiknist fyrir heila mánuði þannig að 15 dagar eða fleiri teljist heill mánuður en að færri dögum skuli sleppa. Í stað þess miðist álagning við þann dag er greiðsluskylda stofnast þannig að greitt sé í réttu hlutfalli við skráningartíma.
    Skv. c-lið er lagt til að afnuminn verði sá lágmarkstími sem skráningarmerki þurfa að vera í geymslu Skráningarstofunnar hf. en samkvæmt gildandi reglum myndast réttur til lækkunar eða endurgreiðslu þungaskatts vegna innlagnar skráningarmerkja fyrst eftir að skráningar merki hafa verið í geymslu Skráningarstofunnar hf. í 15 daga samfellt.
    Skv. d-lið er lagt til að breyting skv. c-lið nái einnig til þeirra sem framvísa útflutnings- og innflutningsskýrslum til sönnunar á tímabundnum útflutningi þannig að ekkert lágmark verði á þeim tíma sem bifreið er flutt úr landi.
    Skv. e-lið greinarinnar er lagt til að í stað heimildar ríkisskattstjóra til að lækka- eða endurgreiða eiganda eða umráðamanni bifreiðar sem sýnt getur fram á að bifreið hafi ekki verið í notkun hér á landi í a.m.k. þrjátíu daga samfellt vegna viðgerða verði ríkisskattstjóra það skylt í ljósi þeirra breytinga sem gerðar voru á stjórnarskránni með 15. og 16. gr. stjórnarskipunarlaga, nr. 97/1995.
    Um g- og h-lið vísast til almennra athugasemda.

Um 4. gr.

    Samkvæmt a-lið þessarar greinar er lagt til að rýmkaður verði sá tími sem eigandi eða umráðamaður bifreiðar hefur til þess að færa sönnur á að greiddur hafi verið gjaldfallinn þungaskattur við aðalskoðun. Eiganda eða umráðamanni verði þannig ekki meinað um aðal skoðun ef gjaldfallinn þungaskattur er ekki kominn á eindaga á skoðunardegi.
    Um b-lið vísast til almennra athugasemda.


Um 5. gr.

    Þar sem núgildandi gjaldskrá fyrir hvern ekinn kílómetra, sbr. ákvæði B-liðar 4. gr. laganna, tekur mið af föstu árgjaldi 1. mgr. B-liðar 4. gr. laganna og þar sem gjaldárið 2000 er hafið, en það hófst 11. október 1999 og lýkur 10. október 2000, er lagt til að 11. febrúar 2000 verði lagður á 1/3 hluti fasta árgjaldsins sbr. 1. mgr. B-liðar 4. gr. laganna. Á sama tíma muni ný gjaldskrá B-liðar 4. gr. laganna öðlast gildi fyrir annað og þriðja gjaldtímabil.
    Samkvæmt núgildandi lögum hafa eigendur eða umráðamenn ökutækja sem eru 4.000 kg eða meira að leyfðri heildarþyngd heimild til þess að velja, áður en gjaldár hefst, að greiða gjald sem tekur mið af áætluðum kílómetrafjölda er samsvari 95.000 km akstri í stað gjalds fyrir hvern ekinn kílómetra. Þeir eigendur og umráðamenn ökutækja sem ætla sér að nýta heimild til þess að greiða slíkt gjald í stað gjalds fyrir hvern ekinn kílómetra hafa nú þegar fengið heimild ríkisskattstjóra til þess. Það er meginregla íslensks réttar að lög skuli ekki vera afturvirk ef afturvirknin er íþyngjandi fyrir þá er við lögin eiga að búa. Verulegt óhagræði og kostnaður gæti hlotist af því fyrir áðurgreinda eigendur og umráðamenn ef reglan væri afnumin um leið og lögin öðlast gildi.

Um 6. gr.

    Grein þessi þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 3/1987,
um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum.

    Frumvarp þetta snýr að tekjuhlið ríkissjóðs og er ekki talið hafa áhrif á gjaldahlið verði það að lögum.