Ferill 154. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 294  —  154. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Páls Magnússonar um byggingu þjóðarleikvanga.

     1.      Hvernig hefur verið farið með tillögur um byggingu þjóðarleikvanga sem komu fram í skýrslu nefndar um eflingu íþróttastarfs í desember 1997?
    Skýrsla nefndar um eflingu íþróttastarfs var að tilhlutan menntamálaráðuneytisins kynnt þeim aðilum sem tillögur nefndarinnar beindust að, þar á meðal heildarsamtökum íþróttamanna og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Íþróttanefnd ríkisins var falið að taka þær hugmyndir og ábendingar sem fram koma í skýrslunni til umfjöllunar og gera raunhæfar tillögur til ráðuneytisins um hvernig nefndarstarfinu yrði fylgt eftir. Að því er varðar hugmyndina um þjóðarleikvanga taldi ráðuneytið nauðsynlegt að skilgreint yrði nánar hvað fælist í því hugtaki og hvernig staðið yrði að framkvæmd hugmynda um slíka leikvanga án þess að horfið væri frá gildandi reglum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Var þess óskað að íþróttanefnd tæki það mál til sérstakrar athugunar og léti ráðuneytinu í té umsögn sína. Í umsögn íþróttanefndar frá 30. mars 1998 segir m.a.:
    „Varðandi hugmyndir og umræður um þjóðarleikvanga er það skoðun íþróttanefndar ríkisins að þegar séu fyrir hendi hér á landi fjölmörg slík mannvirki sem uppfylli kröfur um alþjóðlega keppni fyrir ýmsar fjölmennustu íþróttagreinarnar. Má þar t.d. nefna Laugardalsvöllinn fyrir knattspyrnu og frjálsar íþróttir, Laugardalshöllina fyrir handknattleik og körfuknattleik, Vetraríþróttamiðstöð Íslands á Akureyri fyrir vetraríþróttir.
    Benda má jafnframt á að við smáþjóðaleikana, sem fram fóru sl. vor, var almennt keppt við aðstæður sem uppfylltu alþjóðlegar kröfur þeirra 10 íþróttagreina sem leikarnir náðu til. Segja má því að umræðan að undanförnu um þjóðarleikvanga hafi þannig fyrst og fremst beinst að því að koma þurfi upp aðstöðu innan húss fyrir sund, frjálsar íþróttir og knattspyrnu.“

     2.      Er gert ráð fyrir fjármunum í byggingu þjóðarleikvanga á kjörtímabilinu, sbr. þau orð í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að stuðningur við íþrótta- og æskulýðsstarf verði aukinn á kjörtímabilinu?
    Ekki hefur verið tekin ákvörðun um sérstakar fjárveitingar til nýrra þjóðarleikvanga. Stefnu ríkisstjórnarinnar um stuðning við íþrótta- og æskulýðsstarf hefur hins vegar verið fylgt eftir m.a. með stuðningi við uppbyggingu íþóttasvæða í Borgarnesi og á Egilsstöðum og endurbætur íþróttamannavirkja í Vesturbyggð. Þá hefur verið samið um framlög ríkisins í afreksmannasjóð ÍSÍ en í framangreindri skýrslu var lögð áhersla á eflingu hans.

     3.      Hafa sveitarfélög kynnt ráðherra hugmyndir að þjóðarleikvöngum á grunni tillagna sem fram komu í fyrrnefndri skýrslu?
    Tilteknar hugmyndir að þjóðarleikvöngum á grundvelli skýrslunnar hafa ekki verið kynntar menntamálaráðuneytinu af hálfu sveitarfélaga að því frátöldu að Reykjavíkurborg hefur kynnt áform sín um byggingu yfirbyggðrar sundlaugar í Laugardal.