Ferill 242. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 295  —  242. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um sjónvarpssendingar á öll heimili á Íslandi.

Flm.: Hjálmar Jónsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Jón Bjarnason, Einar K. Guðfinnsson, Kristinn H. Gunnarsson, Tómas Ingi Olrich, Gísli S. Einarsson,


Einar Oddur Kristjánsson, Valgerður Sverrisdóttir,
Einar Már Sigurðarson, Guðjón Guðmundsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera framkvæmdaáætlun um uppbyggingu dreifikerfis Ríkisútvarpsins þannig að öll heimili í landinu nái sjónvarpsútsendingum þess fyrir árslok árið 2000.

Greinargerð.


    Ein af merkum uppfinningum 20. aldarinnar er sjónvarpið. Sjónvarpsmenningin er hluti af alþjóðamenningu síðari hluta þessarar aldar. Ríkisútvarpið hóf sjónvarpssendingar árið 1966 og þá sjónvarpaði ein stöð nokkrar klukkustundir á dag. Nú, 33 árum síðar, er sjónvarpað á mörgum stöðvum, jafnvel allan sólarhringinn, og stöðvunum fjölgar sífellt. Nú er ekki spurt hvort sjónvarp sé á heimilinu, heldur hversu mörg. Þrátt fyrir þessa hröðu þróun eru enn, 33 árum síðar, 77 heimili á Íslandi sem alls ekki ná sjónvarpssendingum Ríkisútvarpsins. Dreifikerfið nær því miður ekki til allra landsmanna. Þessi staða er óviðunandi og snertir alla landsmenn. Mismunun fólks eftir búsetu er hér auðsæ. Því hlýtur það að vera kappsmál þjóðarinnar að allir landsmenn njóti sjálfsagðra þæginda 20. aldar um það bil sem 21. öldin gengur í garð. Lauslegt mat á kostnaði við þetta verkefni er samkvæmt upplýsingum frá tæknideild RÚV allt að 230 millj. kr. Öll þessi 77 heimili eru í dreifbýli. Á síðustu þremur árum hafa verið gerðar úrbætur sem koma tíu sveitabæjum til góða en ástandið er samt sem áður óviðunandi.
    Dreifikerfi sjónvarpsins er að stofni til 30 ára gamalt. Eins og flutningsmenn þessarar tillögu benda á er það frumskilyrði að öll heimili í landinu nái útsendingum ríkissjónvarpsins. Annað mikilvægt verkefni næstu ára er að endurnýja dreifikerfið eða leita annarra lausna til þess að bæta útsendingar- og móttökuskilyrði því að víða búa áhorfendur í þéttbýli og dreifbýli við mjög slök myndgæði þótt þau teljist viðunandi samkvæmt viðmiðunarreglum.
    Það hlýtur að vera metnaðarmál þjóðarinnar að allir sitji við sama borð og enn fremur er það ein meginforsendan fyrir ríkissjónvarpi að ekki sé um lokaða dagskrá að ræða heldur sé hún opin öllum landsmönnum, óháð búsetu og efnahag.