Ferill 264. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 335  —  264. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um lífskjarakönnun eftir landshlutum.

Flm.: Þuríður Backman, Árni Steinar Jóhannsson, Jón Bjarnason,


Kolbrún Halldórsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Ögmundur Jónasson.


    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að láta gera ítarlega könnun á lífskjörum landsmanna, sundurliðaða eftir helstu þáttum og flokkaða eftir landshlutum þannig að marktækur samanburður fáist. Kannaðir verði allir sömu þættir og skoðaðir hafa verið í neyslukönnunum Hagstofu Íslands svo að nota megi hana til að meta framfærslukostnað fjölskyldna. Auk þess verði metnir allir helstu þættir sem áhrif hafa á almenn lífskjör, svo sem laun, verðlag, kostnaður við skólagöngu barna og ungmenna, kostnaður við heilbrigðisþjónustu og samgöngur, húshitunarkostnaður og aðgangur að almennri þjónustu.

Greinargerð.


    Óþarft er að tíunda þá miklu umræðu sem farið hefur fram að undanförnu um byggðaþróun á Íslandi. Í þeirri umræðu hefur hins vegar náðst sá mikilsverði áfangi að nú er orðið viðurkennt að þessi mikla byggðaröskun er ekki einungis vandi landsbyggðarinnar heldur landsins alls. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar um sérstakar aðgerðir í byggðamálum (þskj. 10, 10. mál) þar sem fram koma hugmyndir þingflokksins um almennar aðgerðir í þessum málaflokki. Ljóst er að til viðbótar almennum aðgerðum verða að koma staðbundnar aðgerðir miðaðar við aðstæður í einstökum byggðarlögum.
    Í skýrslu sem Stefán Ólafsson vann fyrir Byggðastofnun um orsakir búferlaflutninga á Íslandi og gefin var út í nóvember 1997 kemur fram að einn helsti orsakavaldur byggðaröskunarinnar er mismunur á launakjörum og vöruverði milli landshluta. En þar að auki er nauðsynlegt að átta sig á því hvernig einstök byggðarlög eru í stakk búin til að tryggja almenna velferð íbúanna. Aðgangur að hvers kyns félagslegri þjónustu er snar þáttur í almennum lífskjörum og er vissulega misjafn eftir byggðarlögum. Nauðsynlegt er að draga þennan mun fram og í kjölfarið að stuðla að sem jöfnustum rétti allra landsmanna í þessum efnum sem öðrum.
    Til að bregðast markvisst við þessum vanda er nauðsynlegt að vinna úr traustum grunnupplýsingum. Mikilvægt er að fá fram vandaða skýrslu um alla þá þætti sem skapa aðstöðumun milli byggðarlaga þannig að í ljós komi til hvers konar aðgerða þarf að grípa á hverju svæði. Sem stendur liggja þessar upplýsingar ekki fyrir þótt finna megi ýmsar vísbendingar um ástand mála í eldri skýrslum. Þar má helst nefna síðustu neyslukönnun Hagstofu Íslands, sem unnin var árið 1995, og ýmsar tölfræðilegar upplýsingar frá sama ári sem fram koma í skýrslu þróunarsviðs Byggðastofnunar um forsendur stefnumótandi byggðaáætlunar 1998– 2002.
    Í neyslukönnun Hagstofunnar árið 1995 kom fram talsverður munur á meðalársútgjöldum heimila eftir búsetu. Meðalútgjöld heimilis á höfuðborgarsvæðinu voru 2.309.091 kr., í öðru þéttbýli 2.429.970 kr. og 1.985.888 kr. í dreifbýli. Jafnframt kom í ljós að meðalstærð heimila er mjög mismunandi eftir búsetu. Á höfuðborgarsvæðinu var hún að meðaltali 2,65 en 3,0 í öðru þéttbýli og 3,40 í dreifbýli. Ef helstu atriði í neysluvísitölunni eru sett upp í töflu og flokkuð eftir búsetu lítur taflan svona út:

Höfuðborgar- svæði Annað þéttbýli
Dreifbýli

Meðaltal
01
Matur og drykkjarvörur
16,8 17,3 21,3 17,4
02
Áfengi og tóbak
3,5 2,7 3,2 3,2
03
Föt og skór
6,8 7,0 7,4 6,9
04
Húsnæði, hiti og rafmagn
18,5 17,0 16,0 17,9
05
Húsgögn, heimilisbúnaður o.fl.
6,1 6,2 5,3 6,0
06
Heilsugæsla
3,0 3,3 2,8 3,1
07
Ferðir og flutningar
13,9 15,8 15,7 14,6
08
Póstur og sími
1,5 1,4 1,2 1,4
09
Tómstundir og menning
13,7 12,5 12,7 13,3
10
Menntun
1,0 1,1 0,5 1,0
11
Hótel og veitingastaðir
5,5 5,7 4,6 5,5
12
Ýmsar vörur og þjónusta
9,9 10,0 9,3 9,9
Alls
100,0 100,0 100,0 100,0
Fjöldi heimila 857 351 167 1.375
Fjöldi í heimili 2,65 3,00 3,40 2,82

    Í töflunni sést að í dreifbýli eru útgjöld til kaupa á mat og drykkjarföngum mun stærri liður í neyslunni en í þéttbýlinu og sama má segja um ferða- og flutningskostnað. Þarna eru vísbendingar um aðstöðumun en flokkunin er alltof gróf til að nokkuð megi af henni ráða um einstök svæði. Vitað er að kostnaður við framhaldsnám unglinga er mikill þar sem sækja verður menntunina í önnur byggðarlög. Sama máli gegnir um húshitunarkostnað á svokölluðum köldum svæðum landsins. Á þessum sviðum og fleirum er verulegur aðstöðumunur sem hefur mikil áhrif á viðhorf fólks til búsetu á tilteknum svæðum. Þetta kemur bæði fram í fyrrnefndri skýrslu sem unnin var af Stefáni Ólafssyni, Búseta á Íslandi, og nýrri skýrslu Byggðastofnunar sem nefnist Byggðir á Íslandi. Í þeirri síðarnefndu er sérstaklega lögð áhersla á nauðsyn þess að grípa til sértækra, svæðisbundinna aðgerða í þeim byggðarlögum sem standa hvað höllustum fæti í dag.
    Eins og áður sagði eru heildarútgjöld heimila í dreifbýli að meðaltali talsvert lægri en í þéttbýli. Það verður að sjálfsögðu að skoða í samhengi við tekjuskiptingu landsmanna. Í fyrrnefndri skýrslu þróunarsviðs Byggðastofnunar kemur fram að meðaltekjur árið 1995 voru mjög mismunandi eftir landsvæðum. Til að mismikil atvinnuþátttaka skekki ekki myndina eru reiknaðar meðaltekjur á íbúa. Þá kemur í ljós að tekjur á íbúa voru hæstar í Ísafjarðarsýslum og Vestmannaeyjum. Nánari sundurliðun sýnir þó að á Vestfjörðum og víðar þar sem sjávarútvegur vegur þungt eru það háar tekjur sjómanna sem hækka meðaltalið, en að þeim slepptum eru meðallaun lág. Lægstar voru tekjurnar í Vestur-Skaftafellssýslu, í Dalasýslu og Reykhólasveit. Frávik frá landsmeðaltali og hlutfallsleg breyting á fjölda ársverka eftir landsvæðum síðastliðin tíu ár voru sem hér segir:


Svæði
Frávik frá landsmeðaltekjum í % Breyting á fjölda ársverka 1985–95 í %
Höfuðborgarsvæðið
1 12
Suðurnes
3 1
Akranessvæði
3 -4
Borgarnessvæði
-17 -13
Snæfellsnes
3 -6
Dalir og Austur-Barðastrandarsýsla
-26 -31
Vestur-Barðastrandarsýsla
0 -24
Ísafjarðarsýslur
23 -12
Strandir
-7 -24
Vestur-Húnavatnssýsla
-22 -27
Austur-Húnavatnssýsla
-2 -26
Skagafjörður
-14 -9
Siglufjörður
6 -23
Eyjafjörður
-2 1
Suður-Þingeyjarsýsla
-7 -7
Norður-Þingeyjarsýsla
2 -1
Vopnafjörður og Skeggjastaðahreppur
-8 -16
Hérað
-13 -12
Miðfirðir Austfjarða
14 -13
Suðurfirðir Austfjarða
-11 -27
Austur-Skaftafellssýsla
2 13
Vestur-Skaftafellssýsla
-28 -20
Rangárvallasýsla
-22 -17
Vestmannaeyjar
20 0
Árnessýsla
-15 2

    Af framansögðu má ljóst vera að þörfin fyrir þá upplýsingasöfnun sem gert er ráð fyrir í tillögunni er brýn svo að hægt sé að sporna við byggðaröskuninni með markvissum aðgerðum sem taka mið af aðstæðum í hverju byggðarlagi.