Ferill 266. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 349  —  266. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993.

Flm.: Ögmundur Jónasson, Þuríður Backman.



1. gr.

    37. gr. laganna orðast svo:
    Fyrir almenna tannlæknaþjónustu greiða sjúkratryggingar samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur. Gjaldskráin gildir bæði um tannlækningar sem starfræktar eru á vegum hins opinbera og annarra. Í stað gjaldskrár ráðherra er Tryggingastofnun þó heimilt að semja um gjaldskrá er gildi um almenna tannlæknaþjónustu.
    Greiðslur sjúkratrygginga skv. 1. mgr. skulu vera sem hér segir:
     1.      Fyrir almennar tannlækningar barna og ungmenna, 18 ára og yngri, 90% kostnaðar, en hver einstaklingur í þessum aldurshópi skal eiga kost á einni skoðun á ári hjá tannlækni sér að kostnaðarlausu.
     2.      Heimilt er að greiða 80% kostnaðar við gullfyllingar, gerð króna og brúa hjá börnum og ungmennum, 18 ára og yngri, samkvæmt reglum sem ráðherra setur að fengnum tillögum tryggingaráðs. Því aðeins kemur til greiðslna samkvæmt þessum tölulið að fyrir liggi sérstök umsókn og samþykki sjúkratrygginga.
     3.      Fyrir elli- og örorkulífeyrisþega 100% kostnaðar, þó er ekki greitt fyrir gullfyllingar, krónur, brýr eða tannplanta. Ráðherra er heimilt, að fengnum tillögum tryggingaráðs, að ákveða greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna þessara þátta.
    Reikningi fyrir tannlæknaþjónustu skal framvísað á reikningsformi sem Tryggingastofnun ákveður.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var flutt á 122. og 123. þingi og vísað til heilbrigðis- og trygginganefndar án þess að hljóta þar afgreiðslu. Það er nú endurflutt lítillega breytt. Komið hefur verið til móts við það sem lagt var til í frumvarpinu að því er varðar unglinga og elli- og örorkuþega og er það vissulega mikilvægt. Viðmiðunaraldursmörk hafa nú verið hækkuð í 17 ár eins og lagt var til en greiðsluhlutfallið var ekki hækkað í 90%. Þá fá elli- og örorkulífeyrisþegar sem ekki hafa tekjutryggingu nú 50% af kostnaði endurgreiddan en fengu enga endurgreiðslu áður. Elli- og örorkulífeyrisþegar með skerta tekjutryggingu fá nú greidd 75% af tannlækniskostnaði en fengu áður 50%. Elli- og örorkulífeyrisþegar sem eru langsjúkir og fá ekki vasapeninga fá nú 100% endurgreiðslu en fengu 75% áður. Þá fá börn í umönnunarflokki 3 nú 90% af kostnaði, eins og börn í flokkum 1 og 2, en fengu áður 75%.
    Í skýrslu landlæknisembættisins, Heilbrigðisþjónustan, árangur og skipulag í nútíð og framtíð, sem gefin var út í apríl 1997, er varað við þjónustugjöldum og hækkun gjalda í heilbrigðisþjónustunni því að í ljós hafi komið að meðal barnafólks með lægstar ráðstöfunartekjur á mánuði er allstór hópur sem hefur frestað eða hætt við að leita læknismeðferðar og taka út lyf vegna fjárskorts. Ekki virðast færri fara í aðgerðir á læknastofum en mun færri fara í meðferð hjá tannlækni sem reyndar hefur borið á áður. Flest bendir til þess að rekja megi þetta ástand til hækkandi þjónustugjalda á undanförnum árum. Í það minnsta eru þjónustugjöldin of há fyrir þá lægst launuðu. Hér hefur orðið grundvallarbreyting því að fyrri rannsóknir hafa ekki bent til misræmis í aðgengi fólks eftir stéttum og efnum.
    Vissulega ber að fagna mikilvægum úrbótum sem gerðar hafa verið. Þær úrbætur eru þó ekki nægar og jafna ekki aðstöðu þeirra hópa sem hér hafa verið nefndir, t.d. ef borið er saman við þær reglur sem gilda um sama efni hjá nágrannaþjóðum okkar.

Greiðsluhlutdeild hins opinbera.
    Greiðsluhlutdeild hins opinbera í tannlækniskostnaði hefur tekið miklum breytingum á undanförnum áratugum. Á áttunda og níunda áratugnum var kostnaðarhlutdeild Tryggingastofnunar í útgjöldum heimilanna aukin jafnt og þétt og var svo fram á þennan áratug.
    Þá seig mjög á ógæfuhliðina í þessu efni. Kostnaðarhlutdeild notenda, aldraðra og öryrkja hafði verið aukin. Börn og unglingar undir 16 ára aldri fengu allan tannlækniskostnað sinn endurgreiddan. Á árunum 1992–93 var endurgreiðslan færð í áföngum niður í 75%. Á þessum árum var framlag Tryggingastofnunar við tannlækniskostnað elli- og örorkulífeyrisþega sem njóta óskertrar tekjutryggingar lækkað úr 100% í 75% og hlutur þeirra sem búa við skerta tekjutryggingu var lækkaður í 50%. Aðrir elli- og örorkulífeyrisþegar sem höfðu fengið greidd 50% af tannlækniskostnaði sínum fengu nú engan stuðning. Fleiri ráðstafanir voru gerðar í skerðingarátt, einkum á sviði tannréttinga. Á þessu ári hafa verið stigin framfaraspor eins og fram kemur í upphafi greinargerðarinnar því að elli- og örorkulífeyrisþegar með skerta tekjutryggingu fá nú 75% greidd og þeir sem ekki hafa tekjutryggingu fá nú 50% af tannlækniskostnaði endurgreiddan.
    Athyglisvert er að skoða kostnaðarskiptingu Tryggingastofnunar og sjúklinga og breytingar á henni á liðnum árum. Þar kemur fram að þegar dregið var úr stuðningi hins opinbera á árunum 1992–93 jókst greiðslubyrði heimilanna að sama skapi eða úr 62% af heildarútgjöldum í 75%, sbr. skýrslu Hagsýslu ríkisins, Tannlækningar, skipulag og stjórnsýsla, sem gefin var út í júlí 1997. Árið 1996 var kostnaðarhlutdeild ríkisins 856 millj. kr., þar af 620,8 millj. kr. vegna 37. gr. laga nr. 117/1993, en útgjöld heimilanna voru 2.412 millj. kr. Ljóst er að þessar breytingar höfðu það jafnframt í för með sér að samanlögð útgjöld heimila og ríkisins vegna tannlæknaþjónustu drógust saman. Þar sem hvorki var um það að ræða að verð á tannlækningum hefði lækkað eða að tannheilsan hefði batnað má draga þá ályktun að þessar breytingar hafi haft það í för með sér að fólk veigri sér við því að leita lækninga eða fyrirbyggjandi ráðstafana, enda staðhæfir fólk að svo sé samkvæmt skýrslu landlæknis sem vísað var til að framan.

Breytt aldursmörk í áföngum.
    Með frumvarpinu er gert ráð fyrir breyttu greiðsluhlutfalli hins opinbera í tannlækniskostnaði en einnig er aldursviðmiðunarmörkum breytt úr 17 árum í 18. Gert er ráð fyrir að fram að 18 ára aldri greiði fólk einvörðungu 10% af tannlækniskostnaði en brýnt er að endurmeta með tilliti til eftirlitsþáttarins hvenær rétt væri að endurgreiða kostnaðinn að fullu. Annars staðar á Norðurlöndunum eru aldursmörkin og þátttaka hins opinbera í tannlækniskostnaði meiri en hér. Í Danmörku er allur kostnaðurinn greiddur af hinu opinbera til 18 ára aldurs, í Finnlandi og Noregi til 19 ára aldurs og í Svíþjóð til 20 ára aldurs. Æskilegt er að innan fjögurra ára verði búið að hækka aldursmörkin í 20 ár og byggjum við þá við svipað fyrirkomulag og best gerist á Norðurlöndum að þessu leyti.

Dregið úr jaðaráhrifum á elli- og örorkulífeyrisþega.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að draga úr kostnaði elli- og örorkulífeyrisþega við tannlækningar en þess eru mörg dæmi að efnalítið fullorðið fólk og öryrkjar hafi ekki getað leitað sér lækninga. Með þeim breytingum sem hér eru lagðar til yrði dregið verulega úr jaðaráhrifum innan almannatryggingakerfisins á elli- og örorkulífeyrisþega.

Þátttaka ríkisins í kostnaði við tannréttingar.
    Samkvæmt frumvarpinu er sú breyting gerð á 1. mgr. 37. gr. laga um almannatryggingar að felld er niður tilvísun til tannréttinga og sama gildir um tilvísun til gullfyllinga, krónu- og brúargerðar í 1. tölul. 2. mgr. Í stað þess er vísað til almennra tannlækninga en það hugtak skýrir sig að nokkru leyti sjálft. Hér er um að ræða almennar viðgerðir og tannréttingar aðrar en þær sem gerðar eru með föstum tækjum en um slíkar tannréttingar gilda reglur sem vísað er til í 33. gr. almannatryggingalaga.

Áætlaður kostnaður.
    Erfitt er að áætla nákvæmlega kostnað við breytingarnar en þegar kostnaður við þær er metinn ber að hafa í huga hinn mikla fjárhagslega ávinning sem hlytist af því að bæta tannheilsu þjóðarinnar. Bætt tannheilsa og betri vitund ungs fólks um mikilvægi þess að vernda tennurnar mundi stórlega draga úr tilkostnaði þjóðarinnar við tannlækningar þegar fram líða stundir. Raunhæft er að ætla að kostnaður vegna barna muni aukast um rúmar 140 millj. kr. og vegna lífeyrisþega, þ.e. elli- og örorkulífeyrisþega, um rúmar 90 millj. kr. Heildarkostnaðaraukinn væri samkvæmt þessu um 230 millj. kr.