Ferill 273. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 374  —  273. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 12/1952, um ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkissjóðs til vinnuheimila, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



1. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 1. gr. laga nr. 12/1952, um ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkissjóðs til vinnuheimila, með síðari breytingum, skulu tekjur af erfðafjárskatti árið 2000 umfram 235 millj. kr. renna í ríkissjóð.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2000.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Að venju byggist frumvarp til fjárlaga á ákveðnum forsendum um að lögum verði breytt til að markmið þeirra nái fram að ganga.
    Á undanförnum árum hefur verið unnið að því að afnema þá tilhögun sem fest hafði rætur of víða og fólst í því að framlög og útgjöld til ýmissa viðfangsefna voru bundin í lög, ýmist með eða án sérstakra tekjustofna. Með slíkum ákvæðum er fjárveitingarvald Alþingis í raun fyrir fram bundið þegar að fjárlagagerðinni kemur, en það dregur um leið úr þeim áhrifum sem fjárstjórnarvaldi Alþingis er með fjárlögum ætlað að hafa á hagstjórn ríkisins, til að gæta aðhalds í ríkisrekstri og ná jafnvægi í ríkisbúskap. Ákvæði um lögmælt framlög er þó enn víða að finna og kunna að vera réttlætanleg og jafnvel æskileg að nokkru marki í ákveðnum tilvikum. Slík framlög verða þó að sæta þeim skerðingum sem markmið fjárlagafrumvarpsins setja, enda þótt þörf fyrir sérstakar aðgerðir sé minni nú en oft áður. Af þeim sökum eru í frumvarpinu lagðar til tímabundnar skerðingar á ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár. Í ljósi þess hvern áskilnað 1. mgr. 42. gr. stjórnarskrárinnar gerir um efni fjárlaga þykir hins vegar verða að leita eftir heimild til þessara skerðinga í almennum lögum jafnframt.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Samkvæmt lögum nr. 12/1952, um ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkissjóðs til vinnuheimila, skal erfðafjárskattur samkvæmt lögum nr. 83/1984, um erfðafjárskatt, og arfur samkvæmt erfðalögum, nr. 8/1962, renna í sérstakan sjóð er nefnist Erfðafjársjóður. Skv. 39. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, skulu tekjur Erfðafjársjóðs renna til Framkvæmdasjóðs fatlaðra.
    Til samræmis við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2000 er hér lagt til að tekjur af erfðafjárskatti umfram 235 millj. kr. renni í ríkissjóð.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 12/1952, um ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkissjóðs til vinnuheimila, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er lagt til að þrátt fyrir ákvæði 1. gr. laga nr. 12/1952, um ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkissjóðs til vinnuheimila, með síðari breytingum, skulu tekjur af erfðafjárskatti árið 2000 umfram 235 m.kr. renna í ríkissjóð. Frumvarpið snýr að breytingum á teknahlið ríkissjóðs og hefur ekki áhrif á gjaldahliðina.