Ferill 276. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 390  —  276. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, með síðari breytingum.

Frá umhverfisnefnd.



1. gr.

    Við 40. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Sveitarstjórn er heimilt að víkja frá ákvæðum þessara laga um meðferð umsókna um byggingarleyfi og verksvið byggingarfulltrúa í sérstakri samþykkt, sbr. 5. og 6. mgr. 37. gr., og að fenginni staðfestingu ráðherra.

2. gr.

    Við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætast þrír nýir töluliðir, svohljóðandi:
     10.      Þeir einstaklingar sem fengu útgefið eða áttu rétt á að fá útgefið meistarabréf fyrir 1. janúar 1989 og ekki hafa lokið meistaraskóla eiga rétt á löggildingu til að bera ábyrgð á verkframkvæmdum fyrir byggingarnefnd skv. 2. mgr. 52. gr., enda hafi þeir sótt námskeið sem umhverfisráðuneytið stendur fyrir í samvinnu við prófnefnd skipulags- og byggingarmála og Samtök iðnaðarins. Heimilt er að taka gjald vegna kostnaðar við námskeiðahald. Gjöld skulu aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu. Ráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd þessa ákvæðis en heimild þessi gildir til 1. júlí 2001.
     11.      Deiliskipulagsáætlanir og breytingar á þeim sem gerðar hafa verið á grundvelli aðalskipulags og samþykktar af sveitarstjórn fyrir 1. janúar 1998 gilda án tillits til þess hvort þær hafa verið auglýstar, hlotið staðfestingu ráðherra eða samþykktar af skipulagsstjóra ríkisins samkvæmt eldri lögum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Þegar sótt er um byggingarleyfi í götureit eða reit þar sem framkvæmt hefur verið í verulegu ósamræmi við samþykkt deiliskipulag skal endurskoðun á deiliskipulagi fara fram áður en byggingarleyfisumsókn er afgreidd, enda sé um verulega framkvæmd að ræða. Að öðru leyti fer um málsmeðferð skv. 26. gr.
     12.      Samþykktir sem reynslusveitarfélög hafa sett sér með heimild í 16. gr. laga um reynslusveitarfélög, nr. 82/1994, halda gildi sínu til 1. mars 2000.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2000.




Prentað upp.


Greinargerð.


    Ný skipulags- og byggingarlög, nr. 73/1997, sbr. lög nr. 135/1997, öðluðust gildi 1. janúar 1998. Með þeim lögum voru sameinaðir tveir lagabálkar, skipulagslög og byggingarlög, og forræði í málaflokknum fært í ríkara mæli yfir til sveitarfélaganna. Þegar um svo viðamikil lög er að ræða hlýtur framkvæmdin að byggjast að verulegu leyti á setningu reglugerða og er þar einkum um að ræða tvær reglugerðir, annars vegar skipulagsreglugerð og hins vegar byggingarreglugerð en þær tóku gildi í júlí 1998. Við gerð þessara reglugerða, sérstaklega byggingarreglugerðar, komu í ljós ýmsir agnúar á lögunum sem nauðsynlegt er að sníða af. Auk þess hefur nær tveggja ára reynsla af framkvæmd laganna leitt í ljós nokkra vankanta en breyting sú sem gerð var á lögum með lögum nr. 58/1999 sneri eingöngu að skipulagi miðhálendisins.
    Þau atriði sem er lagt til að verði endurskoðuð nú eru:
     1.      Tekin verði upp í lögin efnislega ákvæði 16. gr. laga nr. 82/1994, um reynslusveitarfélög, hvað varðar starfsemi byggingarfulltrúa.
     2.      Tekið verði á löggildingarmálum iðnmeistara sem ekki hafa lokið meistaraprófi í ákvæði til bráðabirgða og ákveðinn frestur gefinn til að ljúka þeim málum.
     3.      Inn í lögin komi ákvæði til bráðabirgða um að deiliskipulagsáætlanir og breytingar á þeim sem gerðar hafa verið á grundvelli aðalskipulags og samþykktar af sveitarstjórn fyrir 1. janúar 1998 gildi án tillits til þess hvort þær hafi verið auglýstar, hlotið staðfestingu ráðherra eða verið samþykktar af Skipulagsstjórn ríkisins samkvæmt eldri lögum og reglugerðum.
     4.      Þær samþykktir sem reynslusveitarfélögin hafa sett sér samkvæmt heimild í 16. gr. laga um reynslusveitarfélög haldi gildi sínu til 1. mars 2000.
    Nánari grein er gerð fyrir þessum breytingum hér á eftir.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Við setningu laga nr. 82/1994, um reynslusveitarfélög, var sett inn ákvæði þar sem umhverfisráðherra var heimilað að víkja frá ákvæðum byggingarlaga um meðferð umsókna um byggingarleyfi og verksvið byggingarfulltrúa. Af þeim 12 sveitarfélögum sem fengu leyfi til þess að starfa sem reynslusveitarfélög nýttu sex sér þessa heimild og færðu verkefni byggingarnefnda yfir til byggingarfulltrúa með sérstökum samþykktum sem umhverfisráðherra staðfesti. Einstök sveitarfélög gengu mislangt í því að færa verkefni á milli en þau sveitarfélög sem hér eiga hlut að máli eru Reykjavík, Hafnarfjörður, Akureyri, Neskaupstaður/ Fjarðabyggð, Vestmannaeyjar og Garðabær. Það er eindregin ósk hlutaðeigandi sveitarstjórna og verkefnisstjórnar reynslusveitarfélaga að þetta ákvæði verði sett inn í skipulags- og byggingarlög og geti því átt við í öllum sveitarfélögum en ekki aðeins í þeim sex sem áður eru nefnd. Þetta ákvæði reynslusveitarfélagalaga rennur út 1. janúar nk. og er lagt til að það verði lögfest hér til frambúðar.

Um 2. gr.


    Um langt skeið hefur staðið styr um starfsleyfi iðnmeistara. Lagt er til (í 10. tölul.) að allir þeir sem hafa fengið útgefin meistarabréf eða átt rétt á að fá útgefin meistarabréf fyrir 1. janúar 1989 en hafa ekki lokið meistaraskóla eigi rétt á löggildingu til að bera ábyrgð á verkframkvæmdum fyrir byggingarnefnd, enda hafi þeir sótt námskeið sem umhverfisráðuneytið stendur fyrir í samvinnu við prófnefnd skipulags- og byggingarmála og Samtök iðnaðarins. Löggilding samkvæmt þessari tillögu mundi ná til landsins alls eins og löggilding skv. 2. mgr. 52. gr. laganna. Lagt er til að heimildin gildi til 1. júlí 2001. Mjög brýnt er að ljúka þessum málum í eitt skipti fyrir öll og að þeim verði lokið innan hálfs annars árs frá því að breytingin öðlast gildi. Heimilt er að taka gjald vegna kostnaðar við námskeiðahald í samræmi við þann kostnað sem af því hlýst og er ætlast til að ráðherra setji í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessa ákvæðis. Telja verður sanngjarnt að þeir beri kostnað af náminu með sama hætti og þeir meistarar gerðu sem fóru í meistaraskóla á sínum tíma. Í 5. gr. reglugerðar nr. 98/1988, um meistaranám og útgáfu meistarabréfa, segir að þeir sem ljúka sveinsprófi 1. janúar 1989 eða síðar skuli stunda nám við meistaraskóla með fullnægjandi árangri til þess að fá útgefið meistarabréf. Einungis þeir sem lokið hafa sveinsprófi fyrir 1. janúar 1989 eiga kost á að fá útgefið meistarabréf án þess að fara í meistaraskóla. Því þykir rétt að miða við þá tímasetningu sem gefin er í áðurgreindri reglugerð. Iðnmeisturum sem öðlast réttindi til að bera ábyrgð á verkframkvæmdum samkvæmt þessari heimild er einnig heimilt að starfa sem byggingarstjórar.
    Sumir þessara meistara hafa nú staðbundin réttindi í einstökum byggingarumdæmum sem þeim er síðan heimilt að yfirfæra til annarra byggingarumdæma séu þeir starfandi í iðninni, sbr. 5. tölul. í ákvæði til bráðabirgða. Samkvæmt eldri byggingarlögum var þeim iðnmeisturum sem áttu heimilisfesti á svæði þar sem meistaraskóli var starfræktur skylt að sækja hann til að hljóta réttindi til að bera ábyrgð á verkframkvæmdum á svæðinu fyrir byggingarnefnd. Iðnmeistarar sem höfðu heimilisfesti á byggingarnefndarsvæðum þar sem ekki var starfræktur meistaraskóli höfðu hins vegar heimild til að bera ábyrgð á verkframkvæmdum án þess að hafa lokið meistaraskóla. Eftir að þeir höfðu öðlast slík réttindi í einu byggingarumdæmi var almenna reglan sú, en hún var ekki án undantekninga, að þeim var unnt að yfirfæra þessi réttindi til annarra byggingarumdæma.
    Þá er lagt til (í 11. tölul.) að hafi deiliskipulagsáætlanir og breytingar á þeim verið samþykktar af sveitarstjórn fyrir 1. janúar 1998 skuli þær gilda sem deiliskipulag án tillits til þess hvort þær hafi verið auglýstar, hlotið staðfestingu ráðherra eða verið samþykktar hjá skipulagsstjóra ríkisins samkvæmt eldri lögum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Verulegur misbrestur er á því að deiliskipulag í Reykjavík og reyndar á nokkrum öðrum stöðum sé í samræmi við eldri lög, sbr. skipulagslög, nr. 19/1964, og eldri skipulagsreglugerð, enda er ágreiningur um lagalegar skyldur til deiliskipulags sem ekki verður séð að hafi verið jafnaður og ekki látið á reyna hvernig fara bæri með að lögum. Í Reykjavík liggja fyrir deiliskipulagsáætlanir og breytingar á þeim sem gerðar hafa verið á grundvelli aðalskipulags og samþykktar af sveitarstjórn. Lagt er til að þegar sótt er um byggingarleyfi í götureit eða reit þar sem framkvæmt hefur verið í verulegu ósamræmi við samþykkt deiliskipulag skal endurskoðun á deiliskipulagi fara fram áður en byggingarleyfisumsókn er afgreidd, enda sé um verulega framkvæmd að ræða. Að öðru leyti skuli fara eftir 26. gr. laganna varðandi málsmeðferð. Þess er að vænta að á komandi árum verði deiliskipulagsmál í Reykjavík tekin til gagngerðrar skoðunar þar sem það á við, en útilokað er að framfylgja ákvæðum laganna, sbr. ákvæði eldri laga og skipulagsreglugerða sem áður eru nefnd, öðruvísi en með mikilli fyrirhöfn og kostnaði og skapar slíkt óvissu, jafnvel réttaróvissu.
    Loks er (í 12. tölul.) lagt til að þær samþykktir sem reynslusveitarfélög hafa sett sér með heimild í 16. gr. laga um reynslusveitarfélög, nr. 82/1994, haldi gildi sínu til 1. mars 2000. Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til breytinga á lögum um reynslusveitarfélög þar sem felld er niður áðurgreind heimild í 16. gr. laganna. Samþykktir sem settar hafa verið með stoð í þeirri grein munu því missa lagastoð og falla úr gildi. Nokkurn tíma mun taka fyrir þau sveitarfélög sem hafa sett slíkar samþykktir að setja nýjar. Til að koma í veg fyrir réttaróvissu er því lagt til að þessum sveitarfélögum verði gefinn frestur til 1. mars 2000 til að setja sér nýjar samþykktir. Eftirtalin sveitarfélög hafa sett sér samþykktir á grundvelli heimildar í 16. gr. laga um reynslusveitarfélög: Reykjavík, Akureyri, Fjarðabyggð/Neskaupstaður, Hafnarfjörður, Vestmannaeyjar og Garðabær.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.