Ferill 212. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 426  —  212. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Hjálmars Árnasonar um flutning eldsneytis á Reykjanesbraut.

     1.      Hversu margar ferðir hafa verið farnar árlega frá höfuðborgarsvæðinu til Keflavíkurflugvallar með eldsneyti á flugvélar síðustu fimm árin?
    Leitað var til olíufélaganna um svör við 1. og 2. lið fyrirspurnarinnar. Tekið skal fram að ekki fengust fullnægjandi upplýsingar fyrir árið 1994.
    Olíuflutningar frá höfuðborgarsvæðinu til Keflavíkurflugvallar á síðustu árum hafa verið sem hér segir:
Ár 1995 1996 1997 1998
Ferðir 2.367 2.847 2.937 3.359


     2.      Hversu mikið eldsneyti hefur verið flutt á ári hverju?
    Samkvæmt sömu heimildum hefur verið flutt eftirfarandi magn eldsneytis:
Ár 1995 1996 1997 1998
Lítrar 90.232.142 108.214.438 113.481.993 136.778.586

     3.      Hver er áætlaður kostnaður ríkissjóðs vegna slits á vegum er rekja má til þessara flutninga?
    Þessi kostnaður hefur ekki verið áætlaður. Þarna er fyrst og fremst um að ræða kostnað vegna niðurbrots efna í veginum en þess má geta að á mestum hluta leiðarinnar er vegurinn mjög slitsterkur. Þá er einnig rétt að vekja athygli á því að verulegar upphæðir hafa verið greiddar í þungaskatt vegna þessara flutninga.

     4.      Hefur slysahætta á Reykjanesbraut vegna þessa verið metin?
    Reykjanesbraut er alltaf undir eftirliti og skoðun með tilliti til slysahættu, m.a. hjá Vegagerðinni. Akstur stórra og þungra bifreiða sem flytja farm er meðal þess sem er athugað.

     5.      Hefur verið gert umhverfismat með hliðsjón af hugsanlegum mengunaróhöppum, t.d. við vatnsból á Suðurnesjum, vegna þessara flutninga?
    Ekki er vitað til þess að gert hafi verið slíkt umhverfismat. Þó er talið að mesta hættan sé ekki á sjálfri Reykjanesbrautinni og umferð þar heldur á afleggjaranum til Grindavíkur og á láglendinu í nágrenni Svartsengis en þar er mikil vatnsnotkun og vatni dælt þaðan í miklum mæli.