Ferill 287. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 448  —  287. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 103/1996, um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar.

Flm.: Svanfríður Jónasdóttir, Lúðvík Bergvinsson.



1. gr.

    Í stað orðsins „Samgönguráðherra“ í 2. mgr. 6. gr. laganna kemur: Fjármálaráðherra.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í reglugerð nr. 96/1969 um Stjórnarráð Íslands segir að fjármálaráðuneytið fari með eignir ríkisins, þar á meðal verðbréf og hlutabréf, svo og fyrirsvar vegna þeirra, m.a. að því er tekur til stjórnar fyrirtækja í eigu ríkisins að öllu leyti eða nokkru, nema lagt sé til annars ráðuneytis.
    Það orkar tvímælis að sami aðili fari með æðsta vald í fyrirtæki og setji jafnframt almennar leikreglur fyrir öll fyrirtæki sem starfa í viðkomandi grein. Þannig háttar nú með samgönguráðherra sem fer með hlut ríkisins í Landssíma Íslands hf. og Íslandspósti hf. og hefur jafnframt reglugerðarvald á þessu sviði og setur leikreglur fyrir markaðinn og fyrirtæki sem á honum starfa.
    Þó að umsvif hins opinbera í samkeppnisrekstri hafi minnkað eru þau enn umtalsverð. Því er full ástæða fyrir löggjafann að huga að því hvaða breytingar er eðlilegt að gera í ljósi breyttra aðstæðna.
    Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri einstakra fyrirtækja nær ekki að jafna þann mun sem er á aðstöðu opinbers fyrirtækis og einkafyrirtækis á markaði, einkum ef sami ráðherra hefur með höndum yfirstjórn fyrirtækis og setur jafnframt almennar reglur fyrir fyrirtæki á markaði.
    Brýnt er að þeirri meginreglu sem mörkuð er í reglugerðinni um Stjórnarráð Íslands sé fylgt og fjármálaráðuneytið fari með eignarhlut ríkisins í samkeppnisfyrirtækjum. Fagráðherra á hverju sviði verður þá fagráðherra allra fyrirtækja á viðkomandi sviði en ekki sérstakur ráðherra einstakra fyrirtækja. Slíkt hefur vakið tortryggni og hafa fyrirtæki á markaðinum haldið því fram að það leiddi til samkeppnisforskots að hafa undir höndum upplýsingar um að stjórnvaldsreglur af tilteknu tagi séu í undirbúningi.
    Undanfarið hefur þeirrar tilhneigingar gætt að þegar opinberum fyrirtækjum er breytt í hlutafélög fari viðkomandi fagráðherra áfram með hlut ríkisins í fyrirtækinu. Ef til stendur að selja hlut ríkisins getur komið upp afar erfið staða fyrir viðkomandi ráðherra sem getur bitnað á fyrirtækinu sjálfu og starfsumhverfi fyrirtækja í viðkomandi grein. Samkvæmt lögum er samgönguráðherra yfirmaður fjarskiptamála í landinu. Hann fer jafnframt með eignarhlut ríkisins í Landssíma Íslands hf. og á samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar að vinna að sölu fyrirtækisins. Hann verður því að gæta þess að viðhalda virði fyritækisins hvað sem líður tæknibreytingum eða breytingum á markaðinum. Slíkt hlýtur að leiða til tortryggni og í einhverjum tilfellum til kæra á grundvelli samkeppnislaga.
    Betra er fyrir opinberu fyrirtækin og markaðinn að leikreglur séu skýrar og að opinber fyrirtæki í samkeppnisgreinum séu ekki gagnrýnd fyrir að njóta þess sérstaklega að æðsti yfirmaður þeirra fari með stjórn og eignarráð í þeim og setji jafnframt leikreglur fyrir markaðinn almennt.