Ferill 291. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 476  —  291. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



1. gr.

    Á eftir 2. málsl. 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Hafi verið gerður samningur um skiptingu ellilífeyrisgreiðslna á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, telst ellilífeyrir til tekna hjá þeim sem fær hann greiddan.

2. gr.

    3. mgr. 57. gr. B laganna orðast svo:
    Við samsköttun skal tekjuskattur af sameiginlegum tekjuskattsstofni og eignarskattur af sameiginlegum eignarskattsstofni allra hlutafélaga sem taka þátt í samsköttuninni lagður á móðurfélagið en öll hlutafélögin bera sameiginlega ábyrgð á skattgreiðslum. Þó er skattstjóra heimilt að leggja tekjuskatt og eignarskatt á hvert og eitt félag óski hlutafélögin í samsköttun sérstaklega eftir því.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 78. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Heimilt er mönnum að draga frá eignum sínum, sbr. 73. gr., innstæður sínar í bönkum og sparisjóðum, innlánsdeildum og á stofnsjóðsreikningum samvinnufélaga, póstgíróreikningum og orlofsfjárreikningum, svo og verðbréf, sem hliðstæðar reglur gilda um samkvæmt sérlögum, markaðsverðbréf sem gefin eru út af ríkissjóði, ríkisvíxla, ríkisbréf, happdrættisskuldabréf ríkissjóðs, húsbréf gefin út af Byggingarsjóði ríkisins og hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða, sbr. lög um verðbréfasjóði, þar sem verðbréfasjóðurinn er eingöngu myndaður af framangreindum skuldaviðurkenningum, og hlutabréfaeign í hlutafélögum, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr., að því marki sem eignir þessar eru umfram skuldir, enda séu eignirnar ekki tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi.
     b.      2. mgr. fellur brott.


4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts árið 2000 vegna tekna og eigna ársins 1999.


Ákvæði til bráðabirgða.

    Þrátt fyrir ákvæði 78. gr. laganna er mönnum heimilt við álagningu ársins 2000 vegna eigna í árslok 1999 og við álagningu ársins 2001 vegna eigna í árslok 2000 að draga frá eignum sínum, sbr. 73. gr., markaðsverðbréf sem gefin eru út af ríkissjóði, ríkisvíxla, ríkisbréf, happdrættisskuldabréf ríkissjóðs, húsbréf gefin út af Byggingarsjóði ríkisins og hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða, sbr. lög um verðbréfasjóði, þar sem verðbréfasjóðurinn er eingöngu myndaður af framangreindum skuldaviðurkenningum, alls að verðmæti 2.000.000 kr. hjá einstaklingi og 4.000.000 kr. hjá hjónum, enda séu eignir þessar ekki tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Um eignir samkvæmt þessu ákvæði umfram framangreind eignamörk fer eftir ákvæðum 78. gr.

Greinargerð.


    Efnahags- og viðskiptanefnd stendur að flutningi þessa máls, en í því eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt.
    Nefndarmennirnir Jóhanna Sigurðardóttir, Margrét Frímannsdóttir og Pétur H. Blöndal gera þó fyrirvara við frumvarpið.
    Pétur H. Blöndal telur að frumvarpið sé flutt of seint ársins og kunni það að leiða til deilna um afturvirkni vegna breytingar á skattleysi ríkisverðbréfa í 3. gr. frumvarpsins.
    Fyrirvari Jóhönnu Sigurðardóttur og Margrétar Frímannsdóttur lýtur að þeirri reglu sem fram kemur í ákvæði til bráðabirgða að tiltekið frímark í eignarskatti sé tímabundið. Vísa þær til þess að í nefndinni kom fram að helmingur þeirra sem eiga eignarskattsfrjáls verðbréf við álagningu 1999, eða um 10.000 manns, er með reglubundinn sparnað í áskrift. Er þessi sparnaður þeirra að meðaltali um 10.000 kr. á mánuði. Telja þær að þessir áskrifendur ríkisverðbréfa sem velja slíkt form mánaðarlegs sparnaðar tilheyri ekki þeim hópi einstaklinga sem er tilefni frumvarpsins hvað þetta varðar. Það geri hins vegar þeir sem taka lán til að kaupa ríkisverðbréf til skamms tíma um áramót í því skyni að lækka eignarskatt sinn. Mat þeirra er að réttara sé að hafa frímarkið í eignarskatti ótímabundið en skoða málið í tengslum við heildarendurskoðun á eignarskatti, enda muni frítekjumarkið stuðla að nauðsynlegum sparnaði í þjóðfélaginu.
    Í frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að tekin verði af öll tvímæli um að ellilífeyrisgreiðslur skuli skattleggja hjá þeim sem njóta greiðslnanna í þeim tilvikum sem samið hefur verið um skiptingu þeirra á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Hefur ríkisskattsjóri komist að þeirri niðurstöðu að á grundvelli núgildandi laga verði sjóðfélagi skattskyldur af öllum lífeyrisgreiðslum, þótt um sé að ræða skiptingu á greiðslum milli hans og maka eða fyrrverandi maka. Telur nefndin að það sé óeðlilegt og leggur því til fyrrgreinda breytingu.
    Í öðru lagi er lögð til breyting varðandi samsköttun móður- og dótturfélaga. Á síðasta þingi voru samþykkt á Alþingi lög um breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem meðal annars fólu í sér heimild til samsköttunar móður- og dótturfélaga, að vissum skilyrðum uppfylltum. Taka þau aðeins til samsköttunar tekjuskatts umræddra félaga en ekki sams konar heimildar varðandi eignarskatt. Verður að telja eðlilegt að heimildin nái til bæði tekjuskatts og eignarskatts og er það lagt til í frumvarpi þessu.
    Í þriðja lagi er lögð til breyting varðandi skattfrelsi ríkisverðbréfa. Skv. 2. mgr. 78. gr. laganna eru eignir í þeim frádráttarbærar frá skattskyldum eignum. Skattfrelsi þessara eigna er að því leyti frábrugðið skattfrelsi innstæðna í bönkum að ekki er gert að skilyrði að eignir þessar séu umfram skuldir eins og gert er í 1. mgr. greinarinnar. Skortur á því skilyrði hefur það í för með sér að unnt er að stofna til skulda og kaupa ríkisverðbréf án þess að þau sæti eignarskattlagningu. Með ráðstöfununum mynda menn í raun eins konar tvöfalt eignarskattsfrelsi þar sem skuld vegna kaupa á ríkisbréfum er frádráttarbær frá öðrum eignum um leið og ríkisbréfin eru eignarskattsfrjáls óháð skuldum. Þegar skoðaðar eru þær forsendur sem lágu til grundvallar ákvæði 2. mgr. 78. gr., en það var lögfest með lögum nr. 117/1989, kemur í ljós að tilgangurinn var að örva eðlileg viðskipti með verðbréf ríkissjóðs. Markmiðið var að stuðla að „enn frekari styrkingu markaðarins fyrir spariskírteini ríkissjóðs og ríkisvíxla og aðra ríkispappíra sem nokkuð kom til umræðu hér á Alþingi fyrir nokkrum dögum síðan“ (framsöguræða fjármálaráðherra í Alþt. 1989, B-deild, dlk. 1884).
    Ríkisverðbréf hafa nú styrka stöðu á markaði og eru almennt talin góður og öruggur sparnaðarkostur til lengri tíma. Á síðustu missirum hefur hins vegar borið á því að einstaklingar taki fé að láni til að kaupa ríkisverðbréf til skamms tíma um áramót í því skyni að lækka eignarskatt sinn. Þjónusta í tengslum við slíka gerninga er beinlínis auglýst í fjölmiðlum og þykir því nauðsynlegt að taka afdráttarlaust á því í löggjöf að slík viðskipti með ríkisbréf geti aldrei orðið grundvöllur fyrir lækkun eignarskattsstofns.
    Með hliðsjón af þessu er í frumvarpinu lagt til að ákvæði 1. og 2. mgr. 78. gr. verði sameinuð í eina málsgrein og almennt gert að skilyrði fyrir eignarskattsfrelsi ríkisverðbréfa að eingöngu verðmæti þeirra, að því marki sem það er umfram skuldir, myndi rétt til frádráttar frá öðrum eignum líkt og gildir um þær innstæður og verðbréf sem talin eru upp í 1. mgr. núgildandi laga. Með tillögunni eru tekin af öll tvímæli um að einstaklingar geti ekki í lok árs tekið fjármagn að láni til að kaupa ríkisverðbréf og selt í upphafi nýs árs og greitt upp lánið til þess eins að komast hjá greiðslu eignarskatts.
    Nefndin tók til sérstakrar skoðunar það sjónarmið að sú breyting sem lögð er til á 78. gr. laganna væri afturvirk með ólögmætum hætti og fékk greinargerð frá fjármálaráðuneyti um það efni. Er niðurstaða nefndarinnar að ekki sé um ólögmæta afturvirkni að ræða. Byggist sú niðurstaða m.a. á greinargerð með frumvarpi til stjórnarskipunarlaga um breyting á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sem varð að lögum 28. júní 1995. Þar er tekið sérstaklega fram í umfjöllun um 15. gr., sem varðaði breytingu á 77. gr. stjórnarskrárinnar, að meðan gengið sé út frá því að eignarskattur sé lagður á miðað við þær eignir sem tilheyrðu gjaldanda við áramót sé hægt gagnvart því ákvæði að breyta stofni eða hlutfalli þess skatts allt til síðasta dags ársins.
    Til að koma í veg fyrir að frumvarpið bitni á skattfrelsi þeirra ríkisverðbréfa sem keypt hafa verið í smáum stíl og almennu sparnaðarskyni á undanförnum árum er lagt til í ákvæði til bráðabirgða að tiltekin fjárhæð ríkisbréfa, 2 millj. kr. hjá einstaklingi og 4 millj. kr. hjá hjónum, verði frádráttarbær, óháð skuldum, við álagningu áranna 2000 og 2001. Þær eignir sem fara fram úr þeim eignarmörkum koma þá aðeins til frádráttar ef þær eru umfram skuldir. Leggur nefndin áherslu á að fram til þess tíma fari fram heildarendurskoðun á lögum sem varða eignarskatta.