Ferill 329. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 580  —  329. mál.




Fyrirspurn



til umhverfisráðherra um framkvæmd samnings um líffræðilega fjölbreytni.

Frá Kolbrúnu Halldórsdóttur.



     1.      Hvernig hefur af Íslands hálfu verið staðið að framkvæmd samningsins um líffræðilega fjölbreytni frá því að samningurinn tók gildi hér á landi, 11. desember 1994?
     2.      Hvaða áætlanir hafa íslensk stjórnvöld um viðbrögð, vinnu og rannsóknir hérlendis í samræmi við einstök ákvæði samningsins?
     3.      Hvernig hefur verið háttað starfi samstarfsnefndar um líffræðilegan fjölbreytileika sem skipuð var 18. febrúar 1998, hversu oft hefur hún komið saman og hvað hefur hún lagt til við umhverfisráðuneyti og/eða ríkisstjórn?
     4.      Hvað veldur því að Ísland, eitt fárra Evrópulanda, hefur ekki skilað skýrslu (National Report) til skrifstofu samningsaðila þrátt fyrir eindaga í janúar 1998?
     5.      Hvernig var háttað þátttöku Íslands í undirbúningi og afgreiðslu bókunar um verslun með erfðabreyttar lífverur og afurðir þeirra (Biosafety Protocol) sem samkomulag tókst um með 132 aðildarríkjum samningsins 29. janúar árið 2000?
     6.      Hvernig verður hagað þátttöku Íslands í næsta fundi vísinda- og tækninefndar samningsins og undirbúningi og þátttöku í 5. fundi samningsaðila (COP-5) í Nairobi í maí árið 2000?
     7.      Hversu miklu hefur árlega verið kostað til af Íslands hálfu vegna aðildar að samningnum árin 1995–99, sundurliðað eftir félagsgjöldum, kostnaði við þátttöku í fundum erlendis og eftir aðgerðum og verkefnum hér innan lands sem miða að því að hrinda í framkvæmd einstökum samningsákvæðum?
     8.      Hversu miklu fé verður varið í vinnu í samræmi við ákvæði samningsins um líffræðilega fjölbreytni hérlendis á þessu ári, sundurliðað eftir aðgerðum?


Skriflegt svar óskast.