Ferill 337. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 590  —  337. mál.




Beiðni um skýrslu



frá sjávarútvegsráðherra um tilfærslu á aflamarki (kvóta).

Frá Sverri Hermannssyni, Árna Steinari Jóhannssyni, Jóhanni Ársælssyni,
Kolbrúnu Halldórsdóttur, Lúðvík Bergvinssyni, Sighvati Björgvinssyni,
Svanfríði Jónasdóttur, Þuríði Backman, Ögmundi Jónassyni,
Össuri Skarphéðinssyni og Guðjóni A. Kristjánssyni.


    Með vísan til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að sjávarútvegsráðherra afli upplýsinga um tilfærslu á aflamarki (kvóta) þar sem aðilaskipti hafa orðið á aflahlutdeild, svo sem vegna sölu á kvóta, vegna erfða eða annarra varanlegra breytinga á aflaheimildum, og flytji Alþingi skýrslu um efnið. Sérstaklega verði tilgreindir þeir aðilar sem ráða yfir 2% eða meira af aflaheimildum og skipting aflaheimilda á skip í eigu þeirra.
    Beiðni þessari er ætlað að ná til gildistíma laga um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, nema tilefni gefist til annars.

Greinargerð.


    Þar sem nú hafa orðið miklir atburðir um sölu á aflaheimildum ber nauðsyn til að Alþingi, og raunar allur almenningur, fái sem gleggstar upplýsingar um ráðstöfun og vegferð aflaheimilda á undanförnum árum, enda er hér um ráðstöfun sameignar þjóðarinnar að tefla, lögum samkvæmt.
    Skýrslubeiðendur leyfa sér með vísan til 4. gr. laga um Fiskistofu, nr. 36/1992, að óska þess að óháðir dómkvaddir endurskoðendur sjái um úrvinnslu og útgáfu umræddra upplýsinga, svo að hæfi þeirra verði eigi í efa dregið, og verði þegar í stað hafist handa við skoðun gagna og úrvinnslu, m.a. vegna meðferðar mála sem tengjast lögum um stjórn fiskveiða fyrir dómstólum.











Prentað upp.