Ferill 366. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 621  —  366. mál.



Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 117/1994, um skipulag ferðamála, með síðari breytingu .

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)






1. gr.

    6. tölul. 7. gr. laganna, sbr. 4. gr. laga nr. 14/1999, fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Ríkisstjórnin hefur ákveðið að flytja mál er varða menntun leiðsögumanna ferðafólks frá samgönguráðuneyti til menntamálaráðuneytis.
    Samkvæmt gildandi lögum er Ferðamálaráði falið að skipuleggja nám og þjálfun fyrir leiðsögumenn. Með reglugerð nr. 31/1981, um starfsmenntun leiðsögumanna ferðafólks, var Ferðamálaráði þó heimilað að fela öðrum framkvæmd einstakra námskeiða í því skyni að hluta eða í heild. Á þeim grundvelli hefur Menntaskólinn í Kópavogi annast menntun leiðsögumanna frá árinu 1991, enda þótt Ferðamálaráð gefi sjálft út prófskírteini þeirra. Að fenginni þeirri reynslu þykir æskilegt að efla og tengja betur við almenna framhaldsmenntun í landinu það nám, sem starfsliði ferðaþjónustunnar stendur til boða. Í því skyni er lagt til að mál er varða menntun leiðsögumanna verði sameinuð annarri framhaldsmenntun undir yfirstjórn menntamálaráðherra. Verði frumvarpið að lögum er litið svo til að starfsmenntun leiðsögumanna falli undir nýleg lög nr. 80/1996, um framhaldsskóla, og menntamálaráðherra geti á grundvelli þeirra sett um hana námsskrá.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 117/1994,
um skipulag ferðamála, með síðari breytingu.

    Tilgangur frumvarpsins er að sameina yfirstjórn starfsmenntunar leiðsögumanna yfirstjórn annarrar framhaldsmenntunar í landinu, en Menntaskólinn í Kópavogi hefur undanfarin ár annast kennslu í faginu. Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.