Ferill 367. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 622  —  367. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 1999.

1. Inngangur.
    Aðild að Alþjóðaþingmannasambandinu (IPU) eiga nú 139 þing, en aukaaðilar að sambandinu eru fimm svæðisbundin þingmannasamtök. Þátttaka Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins (Inter-Parliamentary Union, IPU) í starfi sambandsins árið 1999 var með hefðbundnum hætti. Að venju voru haldin tvö þing, það fyrra í Brussel í apríl (101. þing) og síðara þingið í Berlín í október (102. þing).
    Ný Íslandsdeild var kjörin 16. júní að afstöðnum kosningum til Alþings 8. maí. Fram til 16. júní var hún þannig skipuð:
    Einar K. Guðfinnsson, þingflokki sjálfstæðismanna, formaður, Magnús Stefánsson, þingflokki framsóknarmanna, Bryndís Hlöðversdóttir, þingflokki Alþýðubandalags, frá 19. febrúar þingflokki Samfylkingarinnar, og Jóhanna Sigurðardóttir, þingflokki jafnaðarmanna, frá 19. febrúar þingflokki Samfylkingarinnar.
    Áheyrnarfulltrúar voru Gísli S. Einarsson, þingflokki jafnaðarmanna, frá 19. febrúar þingflokki Samfylkingarinnar, og Kristín Halldórsdóttir, þingflokki óháðra.
    Frá og með 16. júní voru aðalmenn Íslandsdeildarinnar Einar K. Guðfinnsson, þingflokki sjálfstæðismanna, formaður, Jóhanna Sigurðardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, kjörin varaformaður á 125. þingi, og Ásta Möller, þingflokki sjálfstæðismanna.
    Varamenn deildarinnar voru frá 16. júní Guðjón Guðmundsson, þingflokki sjálfstæðismanna, Gísli S. Einarsson, þingflokki Samfylkingarinnar, og Drífa Hjartardóttir, þingflokki sjálfstæðismanna. Ritari Íslandsdeildarinnar er Belinda Theriault, forstöðumaður alþjóðasviðs.

2. 101. þingið í Brussel.
    Dagana 11.–16. apríl var 101. þing Alþjóðaþingmannasambandsins haldið í Brussel. Þangað komu fulltrúar 125 þinga. Af hálfu Íslandsdeildar sambandsins sóttu þingið Ólafur G. Einarsson, forseti Alþingis, og Þorsteinn Magnússon, forstöðumaður almennrar skrifstofu Alþingis, starfandi ritari Íslandsdeildarinnar. Þingmenn sem sæti eiga í Íslandsdeildinni sáu sér ekki fært að sækja þingið vegna alþingiskosninganna.

2.1. Störf og ályktanir þingsins.
    Fjallað var um þrjú málefni á þinginu og ályktað um þau. Málefnin voru:
     a.      aðgerðir til að hvetja þjóðir heims til að undirrita samninginn um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn,
     b.      vandamál stórborga og
     c.      aðgerðir til að afskrifa skuldir fátækustu þjóða heims.
    Þessi mál voru rædd í nefndum þingsins, en almennar stjórnmálaumræður voru þá daga sem ekki var fundað í nefndum.

2.2. Störf og ályktanir ráðsins.
    Ráð Alþjóðaþingmannasambandsins, sem skipað er tveimur þingmönnum frá hverri sendinefnd og fer með æðsta vald í innri málefnum þess, kom tvívegis saman í Brussel. Þar var m.a. rætt um samskiptin við Bandaríkjaþing en forusta þingsins vill lækka fast framlag þess til Alþjóðaþingmannasambandsins verulega og segir það forsendu fyrir áframhaldandi aðild Bandaríkjaþings að sambandinu. Þá gerði mannréttindanefnd sambandsins grein fyrir málum 252 þingmanna í 15 löndum þar sem mannréttindi þingmannanna höfðu ekki verið virt. Einnig var fjallað um sívaxandi samvinnu sambandsins og Sameinuðu þjóðanna. Þá var fjallað um fjármál sambandsins, skýrslu forseta og framkvæmdastjóra og skýrslur ýmissa nefnda, auk fleiri mála.

2.3. Störf pólitískra svæðahópa.
    Daglegir samráðsfundir voru haldnir í Vesturlandahópi innan þingmannasambandsins (Tólfplús-hópnum). Hópurinn fundaði fyrir upphaf þingsins og síðan á hverjum morgni áður en þingfundir hófust. Á þessum samráðsfundum var tekin afstaða til einstakra mála, kosninga í trúnaðarstörf, þátttöku í nefndastarfi og fjallað um innri málefni hópsins. Þar skýrði Miguel Martínez, forseti sambandsins, m.a. frá því að hann hygðist bjóða sig fram til Evrópuþingsins í kosningunum í júní nk. Næði hann kjöri yrði hann að segja af sér sem forseti Alþjóðaþingmannasambandsins þar eð hann mundi missa rétt sinn til setu á spænska þinginu, sem er forsenda fyrir því að hann geti gegnt forsetastörfum.

3. 102. þingið í Berlín.
    102. þing Alþjóðaþingmannasambandsins fór fram í Berlín 9.–15. október. Af hálfu Íslandsdeildar sambandsins sóttu þingið alþingismennirnir Einar K. Guðfinnsson, formaður deildarinnar, Jóhanna Sigurðardóttir og Ásta Möller, auk Belindu Theriault, ritara deildarinnar.

3.1. Störf og ályktanir þingsins.
    Við setningu þingsins fluttu eftirtaldir ávörp: Wolfgang Thierse, forseti neðri deildar þýska þingsins, Vladimir Petrovsky, aðstoðaraðalritari Sameinuðu þjóðanna, Najima Heptulla, starfandi forseti IPU-ráðsins, og dr. Johannes Rau, forseti Þýskalands.
    Að venju voru á þingfundinum almennar umræður um stjórnmálalegt, efnahagslegt og félagslegt ástand í heiminum. Hver sendinefnd fékk allt að átta mínútna ræðutíma undir þessum lið. Einar K. Guðfinnsson ræddi m.a. ástandið á Austur-Tímor og hlutverk IPU í að stuðla að lýðræði og virðingu fyrir mannréttindum. Ávörp fluttu forsætisráðherra Þýskalands, Gerhard Schröder, forseti alþjóðaráðs Rauða krossins, M.C. Sommaruga, og Mary Robinson, mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna.
    Þingið ályktaði um þrjú mál að undangenginni umræðu í nefndum. Tvö málefni höfðu að venju verið undirbúin til umræðu á þinginu, annars vegar var fjallað um framlag þjóðþinga til að tryggja virðingu fyrir mannúðarlögum í tilefni af því að 50 ár eru liðin frá samþykkt Genfarsáttmálanna og hins vegar um breytingar á alþjóðahagkerfinu. Í fyrri ályktuninni voru þjóðþingin m.a. hvött til að stuðla að undirritun og staðfestingu Rómarsamþykktar um stofnun alþjóðlegs sakadómstóls. Í seinni ályktuninni var lögð áhersla á aðgerðir til aðstoðar fátækustu ríkja heims.
    Þriðja málið sem ályktað var um, hlutverk löggjafarvaldsins gagnvart minnihlutahópum, staða þeirra og mannréttindi, var rætt utan dagskrár. Eitt aðalágreiningsefnið varðandi þá ályktun var tillaga sendinefndar Kanada um að bæta við nokkrum málsgreinum um fordóma í garð samkynhneigðra. Töldu margar sendinefndir að Vesturlönd væru með þessu að reyna að þröngva sínum skoðunum upp á aðra. Tillaga Kanadamanna var felld með miklum mun.
    Forseti pakistanska þingsins var staddur á IPU-þinginu þegar valdarán var framið í heimalandi hans. Forseti neðri deildar þýska þingsins, sem gegndi starfi forseta þessa IPU-þings, fordæmdi valdaránið og hvatti til að lýðræði yrði komið sem fyrst á aftur. Pakistanski þingforsetinn hét að berjast fyrir sjálfstæði þingsins.
    Þess má jafnframt geta að IPU hefur gefið út bækling um mannúðarlög fyrir þingmenn og hefur Íslandsdeildin óskað eftir því að fá eintök til að dreifa til allra alþingismanna.

3.2. Störf og ályktanir ráðsins.
    Ráð Alþjóðaþingmannasambandsins kom tvívegis saman í Berlín. Öll íslenska sendinefndin sat fundi ráðsins. Ákveðið var að veita nígeríska þinginu aftur aðild að IPU, en því var vikið úr ráðinu fyrir þremur árum. Aðildarumsókn Úkraníu var samþykkt, en ráðið féllst einnig á að víkja Níger úr ráðinu þar sem ekkert þing starfar þar frá því að valdarán var framið fyrri hluta árs 1999. Mikið var um það rætt, og reyndar á vettvangi Tólfplús-hópsins líka, hversu bagalegt væri að Bandaríkjaþing hefði ekki tekið virkan þátt í störfum IPU um nokkurt skeið og ekki greitt ársgjald sitt síðastliðin þrjú ár. Það hefði slæm áhrif á starfsemi IPU og drægi úr breidd í umræðum, en jafnframt kæmi þetta niður á fjárhag sambandsins. Ráðinu var ljóst að ef ekki tækist að semja við Bandaríkjamenn fljótlega yrði að endurskoða fjárhagsáætlun og starfsemi IPU. Farið var yfir verkefni IPU á næstu mánuðum. Þar á meðal var rætt um fund þingforseta aðildarríkja IPU sem haldinn verður í lok ágúst 2000. Fundurinn er haldinn í tengslum við árþúsundafund Sameinuðu þjóðanna.
    Nefnd um mannréttindi þingmanna sem starfar innan IPU kynnti skýrslur um mál sem hún hefur skoðað þar sem mannréttindi þingmanna höfðu verið vanvirt og samþykkti ráðið fjölmargar ályktanir á grundvelli þeirra. Löndin sem í hlut áttu voru Argentína, Hvíta-Rússland, Bútan, Búrúndí, Kambódía, Kólumbía, Kongó, Djíbútí, Ekvador, Gambía, Gínea, Hondúras, Malasía, Burma, Nígería, Moldavía og Tyrkland.
    Najima Heptulla, þingmaður frá Indlandi, var kjörin forseti IPU-ráðsins til þriggja ára og er hún fyrsta konan til að gegna því embætti.

3.3. Störf pólitískra svæðahópa.
    Daginn fyrir upphaf þingsins fundaði svokallaður Tólfplús-hópur, sem er samstarfsvettvangur vestrænna lýðræðisríkja. Haldinn var sérstakur hátíðarfundur til að fagna tuttugu og fimm ára afmæli hópsins og ræða framtíðarverkefni hans. Hópurinn fundaði síðan á hverjum morgni meðan á þinginu stóð, áður en þingstarf dagsins hófst. Einar K. Guðfinnsson velti því upp innan hópsins hvort fyrirhugað IPU-þing gæti farið fram á Indónesíu árið 2000 miðað við núverandi aðstæður á Austur-Tímor og var það mikið rætt. Málið kom jafnframt upp í framkvæmdastjórn IPU og var ákveðið að fylgjast með framvindu mála fram á næsta vor, en gera jafnframt aðrar ráðstafanir til að halda þingið í Genf ef hætta yrði við að halda þingið á Indónesíu. Þingmönnum frá lýðræðislega kjörnu þingi Hvíta-Rússlands, sem Lukashenko leysti upp á sínum tíma, var boðið að ávarpa Tólfplús-hópinn og skýra frá ástandinu í heimalandi sínu. Ósk barst frá sendinefnd Hvíta-Rússlands á IPU-þinginu, sem skipuð var þingmönnum í Lukashenko-þinginu svokallaða, um að fá tækifæri til að hitta hópinn. Óskinni var hafnað þegar Einar K. Guðfinnsson og þingmaður frá Litháen höfðu mælt gegn henni. Tólfplús-hópurinn samþykkti harðorða ályktun um ástandið í Hvíta-Rússlandi.

3.4. Kvennafundur.
    Haldinn var sérstakur kvennafundur þar sem rætt var um stöðu kvenna í þjóðþingum og framlag þeirra til lýðræðis. Slíkir fundir eru orðnir formlegur hluti af IPU-þingum. Fram kom að í 27 sendinefndum á þessu IPU-þingi var engin kona. Hlutfall kvenkyns þingmanna á þinginu var rúmlega 20%, sem er hæsta hlutfallið til þessa. Lagðar voru fram upplýsingar um þátttöku kvenna í þingstarfi og ríkisstjórnum aðildarríkja IPU. Ásta Möller sagði frá ráðstefnunni „Konur og lýðræði“ sem þá stóð yfir á Íslandi.

4. Næstu þing.
    Næstu þing sambandsins verða í Amman í Jórdaníu (maí 2000) og Jakarta á Indónesíu (október 2000).

Alþingi, 1. febr. 2000.



Einar K. Guðfinnsson,


form.


Jóhanna Sigurðardóttir,


varaform.


Ásta Möller.




Fylgiskjal.


Ályktanir Alþjóðaþingmannasambandsins árið 1999.


     1.      Ályktun um aðgerðir til að hvetja þjóðir heims til að undirrita samninginn um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn.
     2.      Ályktun um vandamál stórborga.
     3.      Ályktun um aðgerðir til að afskrifa skuldir fátækustu þjóða heims.
     4.      Ályktun um framlag þjóðþinga til að tryggja virðingu fyrir mannúðarlögum í tilefni af því að 50 ár eru liðin frá samþykkt Genfarsáttmálanna.
     5.      Ályktun um breytingar á alþjóðahagkerfinu.
     6.      Ályktun um hlutverk löggjafarvaldsins gagnvart minnihlutahópum, stöðu þeirra og mannréttindi.