Ferill 301. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 671  —  301. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur um starf nefndar um innlenda orkugjafa.

     1.      Hvenær var skipuð nefnd til viðræðna við Daimler-Benz um tilraunir með innlenda orkugjafa og hverjir hafa átt sæti í henni?
    Þann 28. júlí 1997 skipaði iðnaðarráðherra nefnd til að kanna tæknilega og efnahagslega möguleika á aukinni nýtingu innlendra orkugjafa, svo sem rafmagns og vetnis. Þá var nefndinni falið að gera tillögur um leiðir til að nálgast það markmið að auka notkun innlendra orkugjafa. Nefndin lagði til að stofnað yrði sérstakt félag um vetnisrannsóknir á Íslandi og að starfsmanni á vegum ráðuneytisins yrði falið að fylgjast með þróun á öðrum sviðum. Í tengslum við starf nefndarinnar og í kjölfar tímaritsgreina um Ísland og vetni kom í ljós áhugi erlendra fyrirtækja á að gera tilraunir með notkun vetnis á Íslandi. Fyrst til að sýna þessu verulegan áhuga var þýska fyrirtækið Daimler-Benz (nú Daimler-Chrysler). Til að verða við óskum fyrirtækisins um fundi um þetta mál skipaði iðnaðarráðherra 8. maí 1998 nefnd til að annast viðræður um tilraunir með vetni sem orkugjafa á Íslandi og til að gera í framhaldi af því tillögur til ráðherra þar að lútandi. Í nefndina voru skipaðir Hjálmar Árnason alþingismaður, formaður, Ingimundur Sigfússon sendiherra, Þorsteinn I. Sigfússon prófessor, Bragi Árnason prófessor, Skúli Bjarnason lögfræðingur, Jóhann Már Maríusson aðstoðarforstjóri og Þorkell Helgason orkumálastjóri.

     2.      Hverjar eru helstu niðurstöður af starfi nefndarinnar til þessa?
    Nefndin átti fundi með fulltrúum Daimler-Benz hér á landi í maí 1998. Niðurstaða fékkst ekki á þeim fundum. Hins vegar kom fljótlega í ljós áhugi fleiri erlendra fyrirtækja á samstarfi um rannsóknir á vetni hér á landi, m.a. Shell International og Norsk Hydro. Eftir viðræður við þessa aðila komst nefndin að þeirri niðurstöðu að heppilegast væri að reyna að koma á fót samstarfsvettvangi þessara þriggja fyrirtækja auk hóps innlendra aðila sem hefðu áhuga á slíku samstarfi.
    Að tilstuðlan nefndarinnar var hlutafélagið Vistorka stofnað en hluthafar í því eru Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, Áburðarverksmiðjan hf., Háskóli Íslands, Hitaveita Suðurnesja, Iðntæknistofnun Íslands, Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur.
    Í febrúar 1999 var undirritaður samstarfssamningur milli Vistorku hf., Daimler-Chrysler, Norsk Hydro og Shell International. Í kjölfar undirritunarinnar stofnuðu sömu aðilar Íslenska NýOrku ehf. Tilgangur félagsins er að stunda vetnisrannsóknir á Íslandi. Með stofnun félagsins lauk starfi nefndarinnar.

     3.      Hver er heildarkostnaður af störfum nefndarinnar frá byrjun til ársloka 1999, greiddur af opinberu fé?
    Heildarkostnaður á árunum 1998 og 1999 var 2.579.020 kr.

     4.      Hverjar hafa verið greiðslur til einstakra nefndarmanna, þ.m.t. þóknun og ferðakostnaður?
    
Upplýsingar um greiðslur til einstakra nefndarmanna kunna að vera háðar þagnarskyldu og þar með undanþegnar upplýsingarskyldu með tilliti til einkahagsmuna, nema sá samþykki sem í hlut á, sbr. ákvæði upplýsingalaga, nr. 50/1996. Nefndarmenn heimiluðu birtingu umbeðinna upplýsinga.
    Í ferðakostnaði eru bæðin talin fargjöld og dagpeningar.
Þóknun. Ferðakostnaður .
Hjálmar Árnason
193.932 703.853
Bragi Árnason
129.287 48.520
Skúli Bjarnason
129.287 771.744
Jóhann Már Maríusson
43.096 0
Þorsteinn Sigfússon
43.096 0
Þorkell Helgason
0 0
Ingimundur Sigfússon
0 0

    Viðræður við erlendu fyrirtækin voru fyrst og fremst í höndum tveggja nefndarmanna. Fundir fulltrúa viðræðunefndarinnar með Daimler-Benz, Norsk Hydro og Shell International voru haldnir á Íslandi, í Noregi, Hollandi, Þýskalandi og Bretlandi. Auk þess voru haldnir símafundir með þátttöku allra aðila.

     5.      Hver hefur verið annar kostnaður af starfi nefndarinnar?
    Ferðakostnaður var 432.368 kr., móttaka erlendra gesta 125.632 kr. og launatengd gjöld 86.192 kr. Samtals eru þetta 645.492 kr.

     6.      Hvernig hyggst ráðherra standa að áframhaldandi vinnu við tilraunir með innlenda orkugjafa?
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks frá 28. maí 1999 segir að áfram verði unnið að þróun og rannsóknum á sviði umhverfisvænna orkugjafa, svo sem vetnis, metanóls o.fl. Í janúar sl. þekktist iðnaðarráðherra boð Daimler-Chrysler og Íslenskrar NýOrku ehf. um að skoða rannsókna- og þróunarstarfsemi Daimler-Chrysler vegna tilrauna með notkun vetnis í samgöngum í Þýskalandi. Í undirbúningi er rannsóknarverkefni á Íslandi með notkun vetnisknúinna strætisvagna og gengur verkefnið út á að þróa heildarlausnir fyrir rekstur á umhverfisvænu samgöngukerfi. Stjórnvöld eru að skoða möguleika á þátttöku í þessu verkefni. Þá er verið að undirbúa rannsóknarverkefni á vegum Íslenskrar NýOrku ehf. um notkun vetnistækninnar í skipum. Búast má við því að félagið standi fyrir fleiri verkefnum á næstu árum.